Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:10:17 (2288)

2003-11-28 12:10:17# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., Frsm. meiri hluta SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var afar löng ræða hjá hv. þm. en ég tel nauðsynlegt að bregðast sérstaklega við tveimur atriðum sem fjallað er um í nál. og hv. þm. fjallaði líka um í sinni ræðu.

Í fyrsta lagi segir hér í nál., með leyfi virðulegs forseta:

,,Einn meginágalli stækkunar NATO er þær kröfur sem gerðar eru af hálfu yfirstjórnar hernaðarbandalagsins um að ný aðildarríki verji miklum fjárhæðum til fjárfestinga í margs konar búnaði og til að endurnýja herafla sinn.``

Hér er einmitt snúið út úr því minnisblaði utanrrn. sem hv. þm. óskaði sjálfur eftir og þeim upplýsingum sem þar koma fram. Að sjálfsögðu þurfa þjóðir að leggja sitt til hermála eins og aðrir, en það hafa þær líka gert fyrir aðild, hv. þm., og ríkjum hefur verið veittur aðlögunartími í allnokkur ár og NATO hefur ekki sjálft sett lágmarkskröfur um framlög. Það hafa ríkin að mestu leyti gert sjálf, samanber þær upplýsingar sem fram komu í framsögu minni hér áðan.

Í öðru lagi vil ég víkja sérstaklega að því sem segir í nál.:

,, Fyrir liggur að hernaðarbandalagið NATO byggir tilvist sína og aðferðafræði á því að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.``

Þetta er auðvitað fráleit staðhæfing. NATO hefur einmitt dregið úr viðbúnaði eftir lok kalda stríðsins og hefur aukið mjög samstarf og samvinnu við margar þjóðir, þar á meðal Rússa. Hins vegar hefur ný ógn komið fram, hryðjuverkin sérstaklega sem varnarbandalagið NATO þarf að bregðast við. Sem varnarbandalag, hv. þm., þarf NATO að hafa varnir sem geta svarað þeirri ógn sem að getur steðjað.