Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 16:14:41 (2324)

2003-11-28 16:14:41# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu styttra andsvari mínu verður að gera athugasemdir við nokkur atriði hjá hæstv. fjmrh.

Það er alveg á mörkunum að það sé hægt að taka öryrkjadóminn út fyrir sviga hér því að það verður að segja að það er ekki einsdæmi að til ófyrirsjáanlegra útgjalda komi vegna úrskurðar Hæstaréttar um bætur öryrkja. Það er að gerast í annað skiptið á fimm árum.

Jafnvel þó að til þess væri tekið tillit er 11,1 milljarður há tala og ég lýsi sérstökum áhyggjum af því ef hæstv. fjmrh. yfir Íslandi hefur ekki þekkingu á því hver Íslandsmetin í fjáraukalögum eru og hver Íslandsmetin í fráviki frá framlögðu fjárlagafrv. að lokaniðurstöðu. Það bendir til þess, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. hafi ekki nægilegan áhuga á því efni sem hér er undir. Það er áhyggjuefni vegna þess að aðhalds er verulega þörf hér á næstu þremur árum og ég lýsi sárum vonbrigðum yfir því að hæstv. fjmrh. hafi ekki sett sér markmið um það hvernig hann vilji halda böndum á rekstrinum.