Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:54:03 (2359)

2003-12-02 14:54:03# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Opinberir starfsmenn njóta mikilla lífeyriskjara umfram annað fólk í landinu. Fyrir þá sem eru í A-deildinni borgar atvinnurekandinn 10,5% og launþeginn 4%, eins og venja er annars staðar. Í öðrum lífeyrissjóðum, almennum, borgar atvinnurekandinn 6% þannig að þeir fá um 5,5% meira af launum í lífeyrissparnað.

Fyrir þá sem eru í B-deildinni borga ríkið og opinberar stofnanir óhemju fé vegna þess hvað lífeyrisskuldbindingar hafa vaxið mikið og það kom einmitt fram í svari til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að þær lífeyrisskuldbindingar hafa hækkað um milljarðatugi á hverju ári. Það er ekki rétt að opinberir starfsmenn fái ekki aukalega góð lífeyrisréttindi.