Lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:10:47 (2576)

2003-12-04 11:10:47# 130. lþ. 42.95 fundur 209#B lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:10]

Gunnar Örlygsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að færa þetta mál til utandagskrárumræðu. Lyfjaverð hefur hækkað stórkostlega á undanförnum árum. Þessu til staðfestingar má nefna að lyfjakostnaður sjúkratrygginga hefur hækkað um rúma 2 milljarða kr. frá árinu 2000. Þessar upplýsingar sýna með skýrum hætti hve þörf þessi umræða er. Skoða þarf gaumgæfilega tilmæli sem mér skilst að til séu í reglugerð um lyfjaávísun lækna. Þar segir að læknum beri að ávísa ódýrustu samheitalyfjunum. Er hugsanlegt að þessum tilmælum sé ekki fylgt eftir?

Markaðssetning lyfjafyrirtækja er mjög öflug og því miður er ekki til sá öryggisventill fyrir neytendur sem kveður á um það hvort ný og dýrari lyf á markaði hafi nokkuð umfram þau eldri og ódýrari. Hér ber að kanna hvort ekki sé til staðlað eftirlitskerfi austan hafs eða vestan sem kveður á um gildi nýrra lyfja á markaði. Það má vel hugsa sér að Lyfjastofnun bæti við sig einu hlutverki er kveður á um samanburð nýrri og eldri samheitalyfja á markaði. Ef slíkt hlutverk yrði leyst faglega af hendi öllum stundum verður ljóst að upplýsingar til lækna og neytenda mundu stóraukast og koma sem mótvægi við markaðssetningu lyfjafyrirtækja á lyfjum.

Fyrir fáeinum árum voru sett lög er afnámu einkaleyfi gömlu apótekanna á lyfsölumarkaði. Með þessum lögum átti markaðshyggjan að taka við og breyta þeirri fákeppni sem þá þótti vera á lyfsölumarkaði. Ætlaður árangur markaðshyggjunnar hefur breyst í öndverðu sína. Tvær til þrjár lyfsölukeðjur eru nú allsráðandi á markaðnum.

Virðulegi forseti. Sú reynsla sem markaðshyggjan hefur fært lyfsölumarkaðnum á Íslandi er slæm. Því er brýnt að stjórnarflokkarnir sýni eins mikla aðgát og fyrirhyggju og mögulegt er í ráðum sínum er varða breytingar á heilbrigðiskerfi Íslendinga. Það hlýtur að teljast varhugavert að feta stíg markaðshyggjunnar þegar um heilbrigði barna okkar og heilbrigði okkar sjálfra er að ræða.