Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:12:57 (2603)

2003-12-04 12:12:57# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mikill misskilningur. Þær byltingar sem hafa verið framkvæmdar íslensku launafólki til handa hafa orðið til innan lands og koma ekki frá Brussel. Stærstu framfaraskref sem hér hafa verið stigin á liðnum árum eru á sviði lífeyrismála, á sviði fæðingarorlofsmála svo dæmi séu tekin. Þar stöndum við Evrópuþjóðum og Evrópusambandinu langt framar.

Hv. þm. er þá væntanlega að vísa til fæðingarorlofsins sem er réttur til orlofs í tengslum við fæðingu, en er launalaust. Þau skref sem við höfum hins vegar stigið hér, að frumkvæði íslenskrar verkalýðshreyfingar og oft í góðu samstarfi við stjórnvöld, hafa orðið til hér innan lands. Og við skulum ekki gera lítið úr okkar eigin framtaki á þessu sviði í stað þess að horfa alltaf til Brussel.

Varðandi þessar klisjukenndu 80% lagasetningar, þá er þar að uppistöðu til lagasetning sem allir eru sammála um, sem embættismenn hafa komið sér saman um margvíslega stöðlun, viðskipti á ýmsum sviðum sem enginn deilir um og sem unnið er iðulega að á heimsvísu.

Það sem skiptir hins vegar máli fyrir íslenskt þjóðfélag er að við látum ekki segja okkur fyrir verkum um hvernig við skipuleggjum grunnþjónustu samfélagsins, hvort sem um er að ræða vatnið, raforkuna, símann, skolpið eða aðra þætti. Eða sölu og dreifingu á áfengi, auglýsingar á áfengi og tóbaki o.s.frv. Þar hef ég stórar efasemdir um það sem Brussel segir okkur fyrir um.