Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:34:56 (2610)

2003-12-04 12:34:56# 130. lþ. 42.5 fundur 400. mál: #A úrvinnslugjald# (net, umbúðir o.fl.) frv. 144/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess, eins og hv. þm., að draga í efa það mat þess sérfróða fólks sem kemur fram í frv. að ekki sé tímabært að taka upp þá gjaldtöku sem nú er lagt til að fresta vegna þess að undirbúningur sé ekki nægur. Ég hef engar forsendur til þess að draga það í efa. Við þurfum auðvitað að gera okkur grein fyrir því að við erum að fara inn á alveg nýtt svið sem ég held að sé reyndar löngu tímabært að við gerum og mjög ánægjulegt að við skyldum ná samstöðu um að afgreiða lögin um úrvinnslugjaldið. En því máli fylgja hins vegar ýmsar byrðar sem verið er að leggja á, sérstaklega á aðila í atvinnulífinu sem munu hafa með þetta að gera og þurfa að greiða þau gjöld. Mér finnst ekki óeðlilegt að við reynum að taka eilítið tillit til þess þegar verið er að koma þessari framkvæmd þannig fyrir að hún geti síðan staðist til langframa og gengið snurðulaust fyrir sig.

Ég held að það sé ekki stórmál hvort einn vöruflokkur eða tveir doki við meðan verið er að finna varanlegan umbúnað utan um þetta. Plastumbúðir, pappírsumbúðir og annað þess háttar eins og við vitum náttúrlega öll er auðvitað heilmikið mál að halda utan um. Svoleiðis að kannski þarf nú að hugsa það mál alveg til hlítar áður en ráðist er í þá framkvæmd. Og ég tel að það sé betra að gera það að vel undirbúnu máli heldur en að fara út í einhverjar aðgerðir í því sambandi sem síðan ganga ekki upp. Þannig að efnislega held ég að við séum alveg sammála um þetta.

Hvað varðar meðferðina í þinginu þá geri ég enga athugasemd við það að þetta mál hafi viðkomu í umhvn. En eins og ég segi, ég legg áherslu á að vegna dagsetninga í málinu verði þeirri meðferð alla vega hraðað.