Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 19:05:02 (2700)

2003-12-04 19:05:02# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[19:05]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim slagsmáladans sem hér er í gangi. Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Helga Hjörvar hvað hann mundi gera með 1.000 millj. til að ná fram því markmiði að laga stöðu þeirra öryrkja sem aldrei fara á vinnumarkað og þeirra sem verða öryrkjar að loknu námi og fá þar af leiðandi ekki framreikning í lífeyrissjóði. Það er einmitt sá vandi sem ég varð var við í viðræðum mínum við Garðar Sverrisson, formann Öryrkjabandalagsins. Þessi er vandinn. En hvað gera menn? Menn komu með lausn þar sem allir fá. Allir öryrkjar, hver einasti öryrki í landinu fær þessar bætur sem hér um ræðir, líka þeir öryrkjar sem eru með mjög góðan framreikning, með mjög góðan lífeyri, t.d. 23 ára gamall sjómaður sem fær framreikning að fullu eftir þriggja ára starf og er með 200.000 kall á mánuði í lífeyri. Hann fær 20.000 kr. nú þegar til viðbótar og síðan á hann að fá 20.000 enn til viðbótar á meðan annar öryrki sem er ekki með neinn framreikning þarf að lifa á miklu lægri bótum.

Nú sé ég, frú forseti, að ræðumaður er horfinn úr salnum. Ég veit ekki hvernig ég get veitt honum andsvar. (Gripið fram í: Hann ...)

(Forseti (ÞBack): Hv. þm. er horfinn úr salnum og ...)

Ég vil að umræðu sé frestað, frú forseti, ég vil að umræðu sé frestað þangað til þingmaðurinn kemur aftur. Það er ekki hægt að veita andsvar þegar hann er ekki til andsvara.

(Forseti (ÞBack): Hv. þm. ræður hvort hann svarar andsvari eða ekki.)