Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 21:07:03 (2719)

2003-12-04 21:07:03# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[21:07]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það hefur að mörgu leyti verið fremur ömurlegt að fylgjast með þeim skoðanaskiptum sem hafa átt sér stað hér í dag við 3. umr. fjárlaga, fyrst og fremst hvað varðar tvö mál sem tekist hefur verið á um, annars vegar samkomulagið við Öryrkjabandalagið, sem stjórnarliðar reyna nú að halda fram að hafi ekki verið eiginlegt samkomulag og því hafi ekki þurft samráð um hvernig það sé efnt, og hins vegar hefur verið tekist á um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fella niður rétt atvinnulausra til atvinnuleysisbóta fyrstu þrjá dagana í atvinnuleysi.

Ég verð að segja að mér finnast þetta ekki rismiklar ákvarðanir hjá ríkisstjórninni og þær vera henni fremur til minnkunar og var þó kannski ekki úr háum söðli að detta fyrir. Þess vegna þarf enginn að furða sig á þeirri óánægju sem stjórnarandstaðan hefur látið í ljósi við umræðuna í dag.

Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta sem flokksbræður mínir hafa hér sagt, þeir hv. þm. Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson, en mig langar þó að taka fram að ég er sammála skilgreiningu hv. þm. Helga Hjörvars að hér sé um að ræða, þ.e. í samkomulaginu milli Öryrkjabandalagsins og ríkisstjórnarinnar, ígildi kjarasamnings. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við lítum á þetta samkomulag sem slíkt og þar af leiðandi er fullkomlega réttmætt að ásaka ríkisstjórnina í þessum efnum sem lætur eins og það þurfi bara að gera einhliða breytingar á samkomulaginu ef henni svo þóknast en þær breytingar séu ekki gerðar með samtali beggja aðila.

Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalagsins, hélt því fram í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins að Framsfl. vildi í sjálfu sér vel í málinu eða það virtist sem svo væri en hann væri svo meðvirkur að hann stæði vörð um samstarfsflokk sinn, Sjálfstfl., og verði hann höggum þeirra sem svíður að sjá samkomulagið beygt og sveigt. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þetta nokkuð góð líking, þetta með meðvirknina, þegar menn fara að verja félaga sína höggum. Mér finnst rétt í sjálfu sér að það sé eitthvað slíkt sem er að gerast hér og ég hef til marks um það orð hæstv. heilbrrh. sem ræddi áðan í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar.

Ýmsir hafa orðið til að státa af því að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki hafa við þessa 3. umr. lagt fram neinar brtt. á fjárlagafrv. Menn stæra sig af því að hafa ekki gert slíkt. En ég verð að segja að ég gef mjög lítið fyrir slíkt mont og slíkan töffaraskap. Ég tel þingmenn stjórnarflokkanna í fjárln. hafa verið að svíkja stofnanir og einstaklinga sem eiga til ríkisins að sækja með fjármagn fyrir starfsemi þar sem allir geta gengið að því sem vísu að einhverjar leiðréttingar geti átt sér stað við lokaafgreiðslu frv. Slíku er ekki að heilsa núna og þess vegna eru heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir og ýmsar aðrar stofnanir sem eygðu von í því að það yrðu gerðar einhverjar neyðarbreytingar á milli þessara umræðna skildar eftir afskiptar og hreinlega sniðgengnar. Þessi vinnubrögð, herra forseti, eru niðurlægjandi og helgast af því að hér véla menn um hlutina sem hafa setið allt of lengi við völd og eru orðnir værukærir og haldnir valdhroka.

Virðulegur forseti. Ég ætla nú að tala fyrir nokkrum brtt. sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs standa að við þessa 3. umr. Þær eru lítillega breyttar frá því sem þær voru við 2. umr., ýmist er um að ræða tillögur sem dregnar voru til baka eða kallaðar aftur til 3. umr. og svo tillögur sem við höfum breytt upphæðunum á en höfum ákveðið að endurflytja.

Þá langar mig fyrst að nefna tillögur okkar í skólamálum. Háskólastigið er það sem ég tek fyrst fyrir en við erum með brtt. á þskj. 555 sem lýtur að því að Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands fái hækkun á framlagi, bæði til kennslu og rannsókna, og við rökstyðjum þetta á eftirfarandi hátt:

Ég byrja á Háskóla Íslands. Það er vitað að Háskóli Íslands og menntmrn. eru að vinna að endurnýjun kennslusamnings og rannsóknasamnings. Þó að fjárhagslegir þættir samningsins séu ekki útræddir eru drög að kennslusamningi fyrirliggjandi. Og ég verð að segja að háskólafólk sér greinilega á frv. og því hvernig meiri hlutinn hefur komið fram í þessari umræðu núna að hér eiga ekki að verða neinar breytingar á. Að óbreyttu kemur Háskóli Íslands til með að þurfa að vísa um 900 nýnemum frá skólavist næsta haust, haustið 2004. Ég verð að taka undir það sem komið hefur fram í máli háskólafólks og forsvarsmanna Háskóla Íslands að verði þetta allt saman að veruleika, verði Háskóli Íslands neyddur til þess að vísa 900 nýnemum frá námi á næsta hausti, er Háskóli Íslands ekki lengur þjóðarskóli.

Við höfum verið að reyna að standa vörð um háskólann sem þjóðarskóla, skóla allrar þjóðarinnar, rekinn af rausn og myndarskap fyrir opinbert fé. En ríkisstjórn Íslands heimilar okkur ekki það stolt. Hún heimilar okkur ekki að geta staðið rausnarlega við bakið á þessari öflugustu menntastofnun þjóðarinnar. Ég verð að segja að mér finnst það harla snautlegt af ríkisstjórninni, af meiri hluta fjárln., að engar tillögur skuli vera gerðar um betrumbætur á milli umræðna. Ég er sannfærð um að virðulegt háskólafólk hefur auðvitað ekki gert sér grein fyrir því að fjárlagaumræðunni yrði lokið við 2. umr. Allir hafa talið að hægt yrði að gera neyðarbreytingar á milli þessara umræðna þannig að það er snautleg framkoma sem Háskóli Íslands verður fyrir, sérstaklega þegar litið er til þess að skólinn fékk ekki leiðréttingar mála sinna í fjáraukalögum vegna erfiðleikanna sem að honum hafa sótt á yfirstandandi ári.

[21:15]

Sannleikurinn er sá að á árunum 2001--2002 hefur Háskóli Íslands ekki fengið greitt fyrir 300 virka nemendur sem er meginástæða þeirrar 300 millj. kr. skuldar sem Háskóli Íslands á nú við ríkisstjórn. Og hvernig axlar ríkissjóður ábyrgð sína í þessum efnum? Hann skýtur sér undan ábyrgðinni, hann axlar hana ekki. Hann sendir Háskóla Íslands þau skilaboð að hann skuli hanga á horriminni og hann skuli ekki geta gengið út frá því að hann sé eða verði þjóðskóli sem þjóðin hefur þó viljað standa hnarreist við bakið á. Þetta eru skilaboð ríkisstjórnarinnar til Háskóla Íslands. Þau skilaboð eru ekki sæmandi núv. ríkisstjórn eða nokkrum einstaklingi sem veit og þekkir sögu Háskóla Íslands sem hefur mært þann skóla í máli á tyllidögum þegar fólk hefur tilefni til.

Launaþróun kennara við Háskóla Íslands hefur verið sú að á tímabilinu frá 1999--2003 hafa raunlaun í Háskóla Íslands hækkað um 40%. Þessum hækkunum hefur ekki verið mætt með auknum fjárveitingum, heldur þvert á móti. Stjórnvöld reka ekki bara Háskóla Íslands, heldur einnig opinberu háskólana okkar beinlínis á kné þar sem þeir háskólar eru jafnvel farnir að láta í ljósi óskir um að fá að leggja skólagjöld á nemendur sína. Hvað er í gangi hér? Er ríkisstjórninni sæmandi að hrekja opinbera háskóla inn á þá braut að betla skólagjöld? Það er nákvæmlega það sem er að gerast. Ég fullyrði að þarna er ríkisstjórnin að reka háskólana okkar á niðurlægingarbraut sem verður að linna. Þeirri aðför að opinberu háskólunum sem stendur yfir núna verður að linna.

Það er nauðsynlegt að við tökum umræðuna um skólagjöldin. Við þurfum að gera það hér í þessum sal. Lögum samkvæmt er þessum skólum ekki heimilt að taka skólagjöld og það eru ástæður fyrir því. Þær eru gagnmerkar. Grunnhugsunin á bak við þær ástæður er sú að við viljum hafa jafnrétti til náms. Það er það sem löggjafarsamkundan hefur reynt að standa vörð um hingað til en nú eru að koma brestir í þá samstöðu svo um munar. Það er mjög miður, virðulegur forseti, að svo skuli vera komið.

Það er líka nauðsynlegt að taka umræðuna um samkeppnisstöðu háskólanna í þessum sal. Hvernig getur staðið á því að ríkisstjórnin leyfir sér að halda á málum þannig að sjálfseignarstofnun, Háskólinn í Reykjavík, skuli hafa 53% hærri fjárhæð úr að spila á hvern laganema en Háskóli Íslands? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin tekur ekki á þeirri skökku samkeppnisstöðu? Það getur hún gert á einn öflugan hátt. Hún getur ákveðið að þau skólagjöld sem greidd eru til sjálfseignarstofnananna dragist frá framlagi hins opinbera til skólanna. Það er þekkt í nágrannalöndum okkar og það er leiðin sem íslensk stjórnvöld eiga að fara líka til þess að jafna samkeppnisstöðuna. Það er ekki forsvaranlegt að sumir skólar geti lagt á skólagjöld nánast að vild en samt gengið að tryggu ríkisframlagi sem nemur sömu upphæð á nemanda eins og hjá opinberu háskólunum. Það er skökk hugsun í þessu, virðulegi forseti, og þá skekkju verður að leiðrétta, þó ekki sé nema fyrir réttlætisins skuld.

Í till. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er ekki bara fjallað um Háskóla Íslands, heldur einnig Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Í fjárlagafrv. núna er gert ráð fyrir að ársnemendur við Háskólann á Akureyri séu 1.010 talsins, en áætlanir háskólans gera ráð fyrir að nemendafjöldinn verði 1.120 og það hefur enginn ástæðu til að rengja áætlanir Háskólans á Akureyri. Þær hafa gengið eftir og vel það hingað til og það er engin ástæða til að ætla annað en áætlanir háskólans séu nokkuð réttar, þær eru frekar knappar ef eitthvað er. Svo ég spyr: Hvers vegna heimilar ríkisstjórnin ekki aukin fjárframlög til Háskólans á Akureyri til að mæta auknum nemendafjölda? Þessum spurningum hefur ekki verið svarað. Þeim var varpað fram við 1. umr. Þeim var varpað fram við 2. umr. Hæstv. menntmrh. lætur ekki svo lítið að vera viðstaddur umræðuna og þessum spurningum er enn ósvarað þegar við erum komin að því að ljúka umræðunni um fjárlög fyrir árið 2004.

Það sama má segja um rannsóknafé til Háskólans á Akureyri. Það er líka vanmetið. Sannleikurinn er sá að þegar þessir skólar hafa verið að taka við og pressa sig til að taka við auknum nemendafjölda hafa þeir að sjálfsögðu verið að ráða aukinn fjölda kennara. Með auknum fjölda kennara eykst rannsóknarskylda kennara. Rannsóknarskylda þeirra er 40% í dag. Ég spyr: Hvaðan eiga fjármunir að koma til að kennarar geti sinnt rannsóknarskyldu sinni? Það verður að skoða þessa hluti í samhengi og við þurfum að horfast í augu við þann raunveruleika sem er til staðar, en það er ríkisstjórnin ekki að gera þessa stundina.

Ástandið er eins í Kennaraháskóla Íslands. Þar hefur hlutfall þess fjárframlags sem fer til rannsókna farið stigminnkandi á undanförnum árum og nú er svo komið að Kennaraháskólinn ver 24% af framlagi sínu sem hann fær frá hinu opinbera til rannsókna, en 76% til kennslu. Fyrir fjórum árum var þetta hlutfall 40% til rannsókna og 60% til kennslu. Hvað hefur breyst á þessum fjórum árum? Hvað er ríkisstjórnin að krefja Kennaraháskóla Íslands um að gera með þessari stefnu, því þetta er stefna? Þetta er stefnumörkun og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Og hún hefur ekki svarað því enn þá: Hvers er krafist af Kennaraháskóla Íslands? Hvers vegna má Kennaraháskóli Íslands ekki standa vörð um þær rannsóknir sem nauðsynlegt er að fari fram í uppeldisfræðum og þeim fræðasviðum sem Kennaraháskólinn sinnir? Það vantar sem sagt enn þá svör við þessu. Og það vantar langtímaáætlanir og stefnumörkun núv. ríkisstjórnar sem hefur hunsað háskólastigið, framhaldsskólastigið, verknámið og ég get haldið svona lengi áfram.

Þá er ég komin að lokaspurningu minni varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknamálum. Ríkisstjórnin hefur státað af því að verið sé að auka framlög til rannsókna og það eru nefndir til sögunnar sjóðir sem stofnaðir hafa verið samkvæmt lögum um vísinda- og tækniráð, Vísindasjóður, Tæknisjóður og þeir sjóðir sem við könnumst öll við og eiga að vera að ganga í endurnýjun lífdaganna. Gott og vel. Ég ætla ekki að kasta neinni rýrð á það starf sem getur mögulega átt sér stað varðandi þessa sjóði og auðvitað fagna ég og hef fagnað hér úr þessum ræðustóli þeirri eflingu sem þar virðist vera að eiga sér stað.

Ég vil hins vegar spyrja ríkisstjórnina hverju það sæti að fjárlagaliður 02-299 Háskóla- og rannsóknastarfsemi hefur hækkað frá fjárlögum 2003 til fjárlagafrv. 2004 um 150 millj. kr.? Hvað er ríkisstjórnin að gera hér? Ríkisstjórnin er að hækka um 150 millj. kr. framlag í rannsóknir til háskóla sem er á óskiptum lið menntmrn. Einhver hefði nú sagt obbobbobb hér um árið. Ég leyfi mér að vitna í hæstv. landbrh. og segja: Obbobbobb, hvað er hér að gerast? Ríkisstjórnin hækkar fjárlagaliðinn 02-299 úr 137,6 millj. kr. árið 2003 í fjárlögum, upp í 287,1 millj. kr. í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu, eða um 150 millj. kr. tæpar. Ætlar hæstv. menntmrh. að fara að úthluta fjármunum ríkisins til rannsókna? Það virðist vera. Það er ekkert annað sem liggur á borðinu hér eða lesa má út úr þessu. Hér er komin skýringin á því að bráðabirgðasamkomulagið við Háskóla Íslands um rannsóknir hefur ekki verið endurnýjað. Peningarnir sem hefðu átt að fara til endurnýjunar þess samkomulags eru hér í duldum sjóði á vegum hæstv. menntmrh. og hann kemur til með að ætla að úthluta úr þeim sjóði. Nú spyr ég: Hugsar hæstv. ríkisstjórn sér að þarna sé kominn sjóður sem hún getur sjálf sett t.d. í rannsóknir hjá sjálfseignarstofnununum sem kvarta mikið undan því að búa ekki við sömu kjör og opinberir háskólar hvað varðar rannsóknir? Er þetta eitthvert leynimakk ríkisstjórnarinnar við sjálfseignarstofnanirnar sem oft á tíðum virka sem dekurstofnanir ríkisstjórnarinnar? Það skyldi þó ekki vera.

Virðulegur forseti. Við eigum skilið hér í þessum sal að fá svör við þeim spurningum. Og þó hæstv. menntmrh. sitji ekki í salnum við umræðuna krefst ég þess að hér verði komið á eftir og þessu svarað: Hverju sætir þessi breyting? Hún sker í augun þegar rýnt er í framlögin til rannsóknamála og framlaganna almennt til háskólastigsins.

Aðrar tillögur þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem ég get nefnt er tillaga okkar á þskj. 556 sem lýtur að hækkun framlags til framhaldsskólanna, því að enn eina ferðina á að sniðganga þarfir framhaldsskólanna, fara gegn öllu því sem yfirvöld þessara skóla, skólastjórar og Félag framhaldsskólakennara segja um málefni þeirra. Blásið er á þau rök sem þetta fólk færir fram fyrir óskum sínum um fjárframlag frá hinu opinbera. Blásið er á þá staðreynd að um 400 framhaldsskólanemar þurfa sennilega að standa á dyraþrepinu á næsta ári vegna þess að skólarnir hafa ekki fjármagn samkvæmt frumvarpinu til þess að kenna 400 nemendum. Áætlað er að 17.000 nemendur hefji nám eða komi til með að banka upp á í framhaldsskólunum á næsta ári. Fjárln. með bæði augu opin gerir ráð fyrir því að skólarnir fái fjármuni til þess að kenna 16.620 nemendum. Hvað á að gera við þessa 380, tæplega 400 nemendur? Eigum við bara að snúa blinda auganu að þeim og láta eins og þeir séu ekki til? Það er greinilega það sem ríkisstjórnin vill gera. Ég mótmæli slíkri framkomu. Þetta er virðingarlaust og þetta er niðurlægjandi að koma svona fram við framhaldsskólana ár eftir ár. Þetta stríðir líka gegn yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að það þurfi að efla framhaldsskólastigið og þá sérstaklega verknámið í framhaldsskólunum.

Hvernig ætla menn að berjast gegn brottnáminu sem er það alvarlegasta á framhaldsskólastiginu? Þeir gera það ekki með því að skera niður fjármuni til framhaldsskólanna, það er alveg ljóst. En það er nákvæmlega það sem hér er verið að gera þó menn segi auðvitað að það sé ekki verið að skera neitt niður, verið sé að hækka. En, virðulegur forseti, fjölgun nemenda er staðreynd. Framhaldsskólarnir geta ekki tekið endalaust við án þess að fá til þess þann stuðning sem meira að segja ráðuneytið hefur viðurkennt að þurfi til þess að kenna hverjum og einum nemanda á framhaldsskólastigi.

Ekki hafa komið nein viðhlítandi svör frá ríkisstjórninni í umræðum hér á Alþingi um fjárlagafrv. Við erum í 3. umr. Það er búið að ítreka þessar spurningar núna í þrígang. Engin svör. Af hverju þarf ríkisstjórnin ekki að svara þessum spurningum sem við hv. þm. stjórnarandstöðunnar leggjum fram? Er þetta boðlegt að koma svona fram? Ár eftir ár er hér engu svarað, menn setja undir sig hausinn, þumbast við og þverskallast og treysta á að þeir hafi meiri hluta þingmanna fyrir gjörðum sínum.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ekki er furða þó manni renni í skap við þessi vinnubrögð sínkt og heilagt. Meira að segja menntmn. lét þess getið í áliti sínu sem hún sendi frá sér 12. nóvember sl. til fjárlaganefndarinnar að það væri mikilvægt að fjöldi nemenda við háskóla á framhaldsskólastigi verði áætlaður eins nákvæmlega og unnt væri á hverju ári. Til hvers? Til þess að hægt væri að haga fjárveitingum til skólanna í samræmi við áætlaðan nemendafjölda. Og það eru ekki bara stjórnarandstöðuþingmenn í menntmn. Ónei, aldeilis ekki. Þetta er samdóma álit menntmn. Ég spyr: Hvers vegna hefur fjárln. ekki leiðrétt þetta að beiðni menntmn. á milli 2. og 3. umr.? Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt.

Eins og menntmn. sagði er nauðsynlegt að samvinna eigi sér stað á milli menntmn. og framhaldsskólanna í þessum efnum. Það var reyndar líka tekið fram í þessu sama áliti menntmn. að það væri nauðsynlegt að gæta jafnræðis við úthlutun á rannsóknafé til háskólanna og við bentum reyndar sérstaklega á að það yrði að hafa Tækniháskólann í huga í því sambandi, en hann hefur ekki fengið úthlutað fé til rannsókna. Þessi samdóma tilmæli menntmn. til fjárln. eru líka hunsuð.

Ég verð að ítreka og endurtaka að það er ekki skrýtið þó manni renni í skap við þessa stöðugu þögn, þessa ótrúlegu þöggun sem hér á sér stað, jafnvel þegar heil þingnefnd sem fjallar um málaflokkinn talar skýrt og tæpitungulaust um þessi mál.

Að lokum, virðulegur forseti, er tillaga í skólamálunum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð flytur á þskj. 557. Þar ítrekum við okkar fyrri óskir um að ríki og sveitarfélög fari í sameiginlegt átaksverkefni til þess að gera leikskólann gjaldfrjálsan. Ég útskýrði þessa tillögu afar vel í 2. umr. og ætla ekki að eyða tíma í að útskýra hana frekar núna, en tel að hér sé á ferðinni tillaga sem þurfi að gefa gaum. Hér yrði um tillögu að ræða sem yrði gífurleg kjarabót fyrir fjölskyldufólk, það veitir nú ekki af á þessum síðustu og verstu tímum að barnafólk fái séð einhvers konar viðleitni frá hálfu stjórnvalda til þess að gera þeim það léttara að koma börnum sínum til manns, því í börnunum felst auðvitað framtíðarauður samfélagsins. Það skiptir því verulegu máli að Alþingi Íslendinga fái tækifæri til að ræða tillögu af þessu tagi og að menn skoði þetta með opnum huga því hér er um þjóðþrifaverkefni að ræða.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur sömuleiðis ákveðið að endurtaka tillögur sínar varðandi Þjóðminjasafn Íslands og safnasjóð. Þær lúta að því ...

(Forseti (BÁ): Forseti vill kanna hvort þingmaðurinn á langt mál eftir.)

Ja, ég vildi gjarnan fá að gera hlé á ræðu minni og halda áfram að lokinni atkvæðagreiðslu.

(Forseti (BÁ): Þá óska ég eftir því að þingmaðurinn geri hlé á ræðu sinni og haldi áfram að atkvæðagreiðslu lokinni.)

Ég þigg það. Takk.