Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:38:05 (2742)

2003-12-05 10:38:05# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hvalfjarðargöngin eru einstök framkvæmd sem hefur sannað gildi sitt. Með sérstökum samningi milli stjórnar Spalar og ríkisins var hlutafélaginu veitt heimild til þess að grafa göng og innheimta veggjald til þess að endurgreiða fjárfestinguna. Samgrn. hefur fylgst með málefnum Hvalfjarðarganga frá því þau voru tekin í notkun 11. júlí 1998, enda átt fulltrúa í samstarfsnefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með og ráðgast um framkvæmd verksins.

Virðisaukaskattur af framkvæmdinni var endurgreiddur samkvæmt samningi gegn því að virðisaukaskattur legðist síðan á gjaldið við innheimtu. Að mati ráðuneytisins verður ekki annað sagt en þróunin síðan hafi í flesta staði verið jákvæð. Má þar nefna að umferð um göngin er mun meiri en talið var, gengisþróun hefur raunar verið sveiflukennd en þó hagstæð og Speli hefur tekist að lækka raunverð veggjaldsins.

Í byrjun þessa árs var farið yfir það í samgrn. hvort mikill vöxtur umferðar gæfi tilefni til þess að skoða afkastagetu ganganna. Um leið yrði skoðað hvort aukning afkastagetu og áframhaldandi vöxtur umferðar leyfði að Spölur lækkaði veggjaldið enn frekar en þegar hefur verið gert. Með hliðsjón af framangreindu óskaði ég eftir viðræðum við stjórn Spalar. Stjórnin tók óskum mínum vel og þann 28. febrúar skipaði ég sérstakan viðræðuhóp til þess að ræða við Spöl hf. um lækkun gjalda og mögulega aukningu afkastagetu Hvalfjarðarganga. Viðbrögð stjórnarinnar voru jákvæð og gáfu mér tilefni til þess að ætla að stjórnin sæi möguleika á því að lækka gjaldið.

Þann 17. október skilaði viðræðunefnd ráðuneytisins greinargerð sem ég hef kynnt og þingmenn geta séð á heimasíðu ráðuneytisins. Helsta og meginniðurstaða nefndarinnar var að einkahlutafélagið Spölur taldi ekki næg skilyrði til þess að lækka veggjöld í Hvalfjarðargöngum og hafnaði þeirri málaleitan. Lækkun gjalda leiðir til lengri samningstíma við Spöl og hækkun gjalda stytti samningstímann. Varfærnissjónarmið Spalar geta því leitt til styttri uppgreiðslutíma lána og styttri starfstíma fyrirtækisins.

Í könnun sem gerð var nýlega kom fram að rúm 40% þeirra sem nota Hvalfjarðargöngin eru frá höfuðborgarsvæðinu og rúm 40% notenda Hvalfjarðarganga eru af Vesturlandi. Þar af koma um 18% frá Akranessvæðinu. Í þessari sömu könnun kom skýrt fram að þeir sem spurðir voru telja samfélagsleg áhrif ganganna almennt góð og skilyrði til búsetu á Vesturlandi betri eftir að göngin komu en áður. Stofnun Spalar og gerð Hvalfjarðarganganna markaði tímamót þar sem um var að ræða fyrstu einkaframkvæmd þar sem gjaldtaka var heimiluð í vegagerð. Þeir sem lögðu fjármuni í Hvalfjarðargöngin litu á það sem langtímafjárfestingu. Það er mikilvægt í þessari umræðu að menn geri sér grein fyrir hver áhrif þess eru á trúverðugleika hjá ríkinu ef það gripi inn í samning sem þennan og breytti honum. Slíkt yrði mjög slæmt fyrir hugsanlegt samstarf við fjármagnseigendur um að flýta verkefnum eða bæta við nýjum verkefnum í samgönguáætlun báðum aðilum til hagsbóta. Þrengjast þá möguleikar á að afla fjármagns með einkaframkvæmdarleiðinni eins og gert var í Hvalfirði til þess að flýta sérstökum mannvirkjum.

Sé litið til Evrópu þá hefur ESB lagt mikla vinnu og fjármuni undanfarið í undirbúning endurskoðunar samgönguáætlunar sinnar. Í þeirri áætlun gera þeir ráð fyrir að 21% fjármögnunar komi með notendagjöldum á árabilinu 2003--2006 og hækki í 24% fram til 2014. Sé litið sérstaklega á brýr er þetta hlutfall 74% og ef litið er á göng þá er sama hlutfall allt að 48% sem er fjármagnað með sérstakri gjaldtöku. Sýna þessar tölur að einkafjármögnun er stór hluti og umferðin endurgreiðir þessi mannvirki þannig.

Upp úr áramótum er að vænta tillagna frá starfshópi sem ég skipaði sem mun vinna að framtíðarstefnu í gjaldtöku vegna fjármögnunar samgöngumannvirkja. Ef við ætlum að halda áfram uppbyggingu samgöngukerfisins á landi með sama hraða og hingað til á næstu árum verðum við að halda opnum möguleikum á sérstakri fjármögnun verkefna sem rúmast ekki í samgönguáætlun. Sundabraut og áformuð brúarmannvirki og jarðgöng væru dæmi um stór verkefni sem rúmast ekki með viðunandi hætti innan núverandi tekjumöguleika samgönguáætlunar og þess vegna er slík vinna í gangi. Því erum við að móta stefnu um gjaldtöku sem við munum kynna síðar á Alþingi.