Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:47:58 (2745)

2003-12-05 10:47:58# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), AKG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Þegar tekin hefur verið ákvörðun meðal ríkja Evrópusambandsins um að byggja upp tiltekið svæði er byrjað á að byggja þar upp samgöngur. En til þess að samgöngubætur nýtist framþróun til fulls þarf fólk að hafa efni á að nýta sér þær.

Þeir sem sækja þurfa nám á háskólastigi til Reykjavíkur standa frammi fyrir erfiðri fjárhagslegri hindrun, þ.e. uppihalds- og húsnæðiskostnaði í Reykjavík. Göngin gera það að verkum að fræðilega er einfalt mál að sækja skóla í Reykjavík, t.d. frá Akranesi og nágrenni þar sem húsnæðiskostnaður er mun lægri á sama hátt og fremur algengt er að nemendur frá Selfossi og nágrenni sæki skóla í Reykjavík. Munurinn er hins vegar sá að nemendur á Vesturlandi þurfa að reiða fram gangagjald fyrir hverja ferð auk annars ferðakostnaðar. Lágt gangagjald fyrir þennan hóp er dæmi um þjóðhagslega hagkvæmni. Því meira sem þessi kostur er nýttur því minna álag er á húsnæðismarkaði á Reykjavíkursvæðinu.

Ljóst er af skýrslu nefndar samgrh., um lækkun veggjalds og aukna afkastagetu Hvalfjarðarganga, að helsta raunhæfa leiðin til að lækka verð hins almenna notanda er að ríkið nýti sér þá möguleika sem það hefur til áhrifa. Þeir felast í lækkun eða afnámi á virðisaukaskatti eða að ríkið taki á sig áhættu við göngin þannig að tryggingagjald falli niður. Um er að ræða umtalsverðar upphæðir sem geta skipt verulegu máli í gjaldi fastra áskrifenda, þ.e. þeirra sem fyrst og fremst nota göngin.

Auk þess má minna á að ríkið rukkar ekki landsmenn sérstaklega fyrir framlag sitt til samgöngubóta á landinu í öðrum tilfellum. Það er því sanngirnismál, herra forseti, einkum gagnvart þeim sem nýta göngin mest, að ríkið geri það sem í þess valdi er til að lækka kostnað fastra áskrifenda.