Beint millilandaflug frá Akureyri

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:50:27 (2982)

2003-12-10 10:50:27# 130. lþ. 46.3 fundur 396. mál: #A beint millilandaflug frá Akureyri# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HlH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Fyrirspyrjandi (Hlynur Hallsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og þakka hv. þingmönnum fyrir góðar umræður og stuðninginn við málið. Ég vil ítreka að ég er ekki að leggja til að hér verði ríkisstyrkt millilandaflug, það er fjarri mér, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti réttilega á og reyndar fleiri. Þetta er hins vegar grundvallarmál og það er hægt að styðja við markaðssetningu á þessu flugi án þess að til beinna ríkisstyrkja komi.

Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi binda miklar vonir við það að Maersk Air sem er danskt flugfélag taki upp áætlunarflug til Akureyrar. Þeir þekkja aðstæður á Akureyri, þeir hafa flogið fyrir Grænlandsflug og þeir fljúga núna níu sinnum í viku til Færeyja frá Danmörku og flugmenn þeirra eru þjálfaðir í erfiðum aðstæðum. Málið snýst í raun og veru um það hvort ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi geta tryggt að ekki verði hallarekstur á fluginu fyrsta árið. Það er auðvitað mjög mikilvægt að vel takist til á fyrsta árinu. Eins og hv. þm. Þuríður Backman benti á er óþolandi að sveitarfélög þurfi að ganga í ábyrgð eins og hefur einmitt verið fyrir austan. Það hefði þurft að ganga í ábyrgð fyrir flugfélagið LTU.

Fólk á Norðurlandi bindur hins vegar miklar vonir við að það komist á reglulegt beint flug. Auðvitað væri óskandi að það væri íslenskt flugfélag sem tæki þetta að sér og maður spyr sig af hverju Flugleiðir, sem heita reyndar ekki Flugleiðir lengur heldur Icelandair, fljúga 30 ferðir á viku til Kaupmannahafnar en enga frá Akureyri. Ég mundi gjarnan vilja fá svör við þessu, herra forseti.