Fjárflutningar

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:23:47 (2995)

2003-12-10 11:23:47# 130. lþ. 46.4 fundur 415. mál: #A fjárflutningar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er nokkuð umhendis fyrir hæstv. ráðherra að fylgja þessum málum vel eftir vegna þess að þau falla að verulegu leyti undir annan ráðherra. Ég minnist þess að á sínum tíma var lögð talsverð áhersla á það hjá dýraverndarsamtökum að setja skýrar reglur um meðferð sláturdýra á leið tíl sláturstaðar, og það er undir umhvrn.

Ég hvet hv. þm. Sigurjón Þórðarson til þess að leggja fram fyrirspurnir af þessu tagi til hæstv. umhvrh. Ástæðan er að mér sýnist sem hér sé töluvert brot í pottinum. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason bendir á eru engar formlegar skráningar og það virðist ekkert formlegt eftirlit skráð niður á flutningavögnum, og sömuleiðis virðist mér sem það sé ekki alveg ljóst að sauðfé sem er verið að flytja til slátrunar sé brynnt með þeim hætti sem ætti að gera.

Herra forseti. Ef við ætlum okkur að framleiða það sem kallað er vistvænt, hvað þá lífrænt, lambakjöt verða hlutir eins og þessir að vera algjörlega klárir.