Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:16:00 (3078)

2003-12-10 20:16:00# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerir málflutningi mínum hátt undir höfði í ræðu sinni og hefur farið býsna vel yfir það sem ég hef verið að segja um þessi mál á undanförnum mánuðum. Eiginlega stendur bara eitt upp úr af því sem hann segir og ekki hefur staðist nákvæmlega upp á dag eins og ég hef sagt, þ.e. að í frv. er gert ráð fyrir því að að hluta til taki það gildi á miðju fiskveiðiári, þ.e. að ýsan og steinbíturinn taki gildi 1. febrúar nk. ef frv. verður samþykkt. Nú er ekki útséð um það hvort frv. verður samþykkt áður en þing fer í jólaleyfi og ef þing fer í jólaleyfi án þess að frv. verði samþykkt tekur þessi hluti frv. ekki gildi 1. febrúar nk., eða ég geri ekki ráð fyrir því.

Þegar ég sagði að því væri ekki slegið föstu í stjórnarsáttmálanum eða stefnuræðunni að taka skyldi upp línuívilnun fór ég með rétt mál, því er á hvorugum staðnum slegið föstu. Hins vegar var þetta samþykkt á landsfundi Sjálfstfl. og frá þeim degi hef ég sagt að væri ég sjútvrh. mundi ég leggja fram frv. um línuívilnun. Ég stend líka við það að það að gera breytingar á miðju fiskveiðiári er ekki eins skynsamlegt og að láta breytingarnar taka gildi í upphafi fiskveiðiárs. Ég hef hins vegar þó nokkrum sinnum breytt kvótum á miðju fiskveiðiári, eins og bent hefur verið á af hv. þingmönnum, og mér sýnist að í þessu tilfelli muni það væntanlega ekki hafa mikinn skaða í för með sér þótt það sé gert varðandi ýsuna og steinbítinn. Nokkrir hv. þm. eru mér sammála um það þannig að það eitt stendur eftir, gildistakan á ýsunni og steinbítnum. Frv. kom fram í haust eins og ég sagði að það mundi gera.