Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:50:38 (3107)

2003-12-10 21:50:38# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:50]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að svara strax spurningu minni vegna krókaaflamarksbátanna. Það verður vonandi farið yfir það í sjútvn. á morgun hvaða áhrif þetta hefur á einstök byggðarlög.

Ef upplýsingar mínar eru réttar, hæstv. sjútvrh., eru í Bolungarvík, á Flateyri og Tálknafirði, þ.e. um 400 tonn á hverjum stað, uppbót sem kemur til krókaaflamarksbáta sem á að leggja niður á næstu tveimur fiskveiðiárum. Þar munu 1.200 tonn fara út, þ.e. dragast frá þessum stöðum við þessa breytingu. Þeir munu fá að taka þátt í þessu 16% kapphlaupi. Ef þeir eiga að halda sínum hlut er eins gott að í janúar, febrúar og mars verði gott veður og þeir geti tekið þátt í þessum kappróðri á við aðra, kannski í kappi við aðra við suðurströndina þar sem veður eru betri en norðanátt og vitlaust veður fyrir vestan eða norðan. Þá er eins gott að þeir hafi gott veður til að fara í þetta kapphlaup og ná í þessi 800 tonn eða hvað það verður á hverjum ársfjórðungi, áður en aðrir klára þau.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég sé ekki alveg ávinninginn fyrir þessa staði ef svo fer.

Ég kem í seinna andsvari mínu að byggðakvótanum.