Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 11:17:57 (3156)

2003-12-11 11:17:57# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Í nál. meiri hluta heilbr.- og trn. er rakin þessi umræða sem var á fundi nefndarinnar um þá einstaklinga sem eru 16 og 17 ára og við ræddum aðstöðu þeirra gagnvart frv. Þá kom það fram hjá þeim gestum sem voru á fundi nefndarinnar, bæði frá heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnun, að þetta væri tiltekinn fjöldi, sagt að það væru 170 einstaklingar og nú hefur komið í ljós að þeir eru ekki nema 64 miðað við síðustu mánaðamót og verður 61 í þessum mánuði. Þeir eru sem betur fer ekki fleiri en þeir búa við þá sérstöðu. Vegna þess að þeir eru ekki orðnir lögráða og foreldrarnir eru framfærsluskyldir og forsjárskyldir með þeim í það heila geta þeir og foreldrar þeirra valið um leiðir.

Það fer svo eftir því hvort viðkomandi einstaklingur er í skóla eða hvort hann er í námi hvor leiðin kemur betur út fyrir hann, líka vegna þess að umönnunarbæturnar eru ekki skattskyldar öfugt við örorkulífeyrinn ef hann nær því þá með því sem ofan á leggst að tekinn sé af honum skattur. Þetta var skoðað ítarlega og meiri hluti nefndarinnar féllst á að það væru engin rök fyrir því að þetta frv. næði líka til þeirra sem væru á barnsaldri og nytu framfærslu foreldra sinna og forsjárskyldu. Sjónarmiðið á bak við frv. er að takmarka það við 18 ára aldur.