Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 11:37:39 (3160)

2003-12-11 11:37:39# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta mál verða verra og verra. Hér er verið að staðfesta að hafðar hafa verið í frammi blekkingar gagnvart kjósendum. Hér er verið að staðfesta það vegna þess að ég var ekki aðeins að vísa í frétt eins fjölmiðils, ég var að vísa í fréttir Morgunblaðsins, Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 um hvað samningurinn færði öryrkjum í kjarabætur. Og fyrst þessu er mótmælt núna, hvers vegna í ósköpunum var þetta ekki leiðrétt gagnvart kjósendum sl. vor í aðdraganda kosninganna? Þar var þetta rækilega tíundað í fjölmiðlum og þá mótmælti Framsfl. ekki.

Herra forseti. Ég vísaði líka í gögn frá sjálfu heilbrrn. frá 9. apríl þar sem þeim tilmælum er beint til Tryggingastofnunar að reikna út tilkostnaðinn við samkomulagið með tilvísan í nákvæmlega þessar tölur, þ.e. tvöföldun á 20 þús. 630 kr. í grunnlífeyri fyrir þá yngstu og með skerðingu sem nemi 421 kr. fyrir hvert ár til 67 ára aldurs. Ég er að vísa í gögn ráðuneytisins. Ef vinnubrögðin eru þessi, með slíkum ósannindablekkingahætti, þá er ég hræddur um að þetta kosti lengri umræðu en ég hafði áður talið. Ef menn ætla að halda áfram og koma hér í andsvari upp í ræðustól með ósannindi þá er mér öllum lokið.

Herra forseti. Hér er verið að staðfesta það að kjósendur hafi verið blekktir í vor. Því var ekki andmælt af Framsfl. að það væru staðlausir stafir sem birtust í Morgunblaðinu eða ósannindi sem höfð væru uppi af hálfu Ríkisútvarpsins eða Stöðvar 2. Ég spyr hv. þm. í andsvari öðru sinni: Hvers vegna var þetta ekki leiðrétt?