Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 14:13:39 (3173)

2003-12-11 14:13:39# 130. lþ. 48.7 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Flm. HBl (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Frv. er flutt af þingmönnum allra þingflokka. Fjórir flm. eiga sæti í forsn., auk mín hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Jónína Bjartmarz og Þuríður Backman en hv. þm. Sigurjón Þórðarson gegnir nú formennsku í þingflokki Frjálsl. í fjarveru hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar.

Með frv. þessu er steypt saman í einn bálk lagaákvæðum um eftirlaun æðstu handhafa þriggja þátta ríkisvaldsins, framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Samhliða eru svo gerðar nokkrar lagfæringar og sett nýmæli um þessi réttindi auk þess sem iðgjaldahlutfallið er hækkað.

Ljóst er að alþingismanna- og ráðherradeildir innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins standa ekki undir þeim skuldbindingum sem þær bera með núverandi iðgjaldafyrirkomulagi. Virðist ekki gerlegt að gera þar breytingu á nema með miklu framlagi ríkissjóðs og stórhækkuðu iðgjaldahlutfalli. Raunar er vafasamt að tala um ,,deildirnar`` sem sérstaka lífeyris- eða eftirlaunasjóði heldur er hér í raun og veru um hreint gegnumstreymi úr ríkissjóði að ræða. Því hefur það sjónarmið verið lagt til grundvallar í frumvarpi þessu að falla frá sjóðmyndun um eftirlaunaskuldbindingar fyrir alþingismenn og ráðherra, svo og aðra sem lög þessi taka til, en taka þess í stað upp gegnumstreymiskerfi. Slíkt kerfi gildir nú um forseta Íslands og einnig hæstaréttardómara. Því þykir fara vel á því að fella saman í einn lagabálk eftirlaunakerfi fyrir þessa æðstu handhafa ríkisvalds, forseta, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara.

Eftirlaunadeildir alþingismanna og ráðherra innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verða lagðar niður og árlegar greiðslur til fyrrverandi alþingismanna og ráðherra, sem komið hafa úr þeim sjóði, færðar yfir á ríkissjóð. Forseti Íslands, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómarar greiði af launum sínum eins og aðrir launþegar í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og myndi þar almennan lífeyrisrétt samkvæmt lögum um sjóðinn og koma greiðslur samkvæmt þeim lögum til frádráttar greiðslum ríkissjóðs.

Í ljósi þess að réttur samkvæmt frumvarpinu til lífeyrisgreiðslna er nokkru betri en almennt tíðkast er iðgjaldahlutfallið hækkað frá því sem nú er, úr 4% af föstum launum, eins og það er hjá þorra launþega, í 5% af heildarlaunum.

Samhliða þessari skipulagsbreytingu á greiðslu eftirlauna eru gerðar nokkrar lagfæringar á eftirlaunaréttindum, m.a. til einföldunar. Slíkar efnisbreytingar er þessar helstar:

a. Réttindaávinnsla alþingismanna verður jöfn á hverju þingári, 3%, en ekki breytileg frá 1,7% upp í 5% eins og nú er. Ef skoðuð er tafla á bls. 13 í frv. sést að einungis um skamman tíma bæta þessar tillögur rétt alþingismanna, ég man ekki hvort það eru 5 eða 6 ár, 1 eða 2 ár, en hins vegar skerðist réttur alþingismanna til eftirlauna samkvæmt þessu frv. miðað við núgildandi rétt þangað til þingmaður hefur setið á Alþingi í 17, eða raunar nær 18 ár. Þá er um skerðingu á rétti alþingismanna til eftirlauna að ræða. Ég vek athygli á því að undir þetta fellur þorri alþingismanna eins og menn sjá ef þeir fletta upp í þingtíðindum og athuga hversu lengi alþingismenn hafa að meðaltali setið á Alþingi. Hér er eins og áður gert ráð fyrir því að hámarksréttur verði 70% af þingfararkaupi eins og það er ákveðið af Kjaradómi.

b. Réttindaávinnsla ráðherra er óbreytt, 6% á hverju ári í embætti, en hámark er fært til samræmis við rétt þingmanna, þ.e. þeir geta fengið eftirlaun að hámarki 70% en það hefur verið 50% fram að þessu.

c. Almennur lífeyrisaldur fyrir alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara er óbreyttur, 65 ár. Sérregla hefur gilt um alþingismenn sem eru að hætta á þingi, þ.e. 61 árs aldur. Það aldursmark er lækkað um eitt ár, niður í 60 ár, og enn fremur látið gilda um ráðherra sem láta af störfum, ef þeir uppfylla þau skilyrði sem í frv. segir.

Eins og hv. þm. vita hefur svokölluð 95-ára-regla gilt fyrir alþingismenn. Hvert þingár hefur gilt tvöfalt á móti því sem annars staðar er þannig að þeir þingmenn sem setið hafa 17,5 ár á þingi hafa átt rétt á að fá eftirlaun sextugir. Nú er því haldið svo að ef þingmenn hafa verið á þingi 16 ár eiga þeir rétt á eftirlaunum sextugir og síðan niður í 55 ár, en viðkomandi þingmaður verður að hafa setið á Alþingi í 26 ár til að ná þeim rétti. Það á auðvitað við um mjög fáa þingmenn að þeir hafi 55 ára að aldri setið 26 ár á þingi.

Nú vil ég lýsa helstu nýmælum í frv.:

Myndaður er sérstakur réttur fyrir alþingismenn og ráðherra, sem gegnt hafa forustuhlutverki í stjórnmálum um langan tíma, til að hverfa af vettvangi þjóðmála og fara á eftirlaun fyrr en annars er heimilt í stað þess að leita sér starfs á vinnumarkaði. Eins og áður segir eru hér sett mörkin við 16 ár um alþingismenn, byrjar þá og fer upp í 26 ár. Menn geta fengið þá eftirlaun hið fyrsta 55 ára að aldri. Um ráðherra er reglan sú að þeir geta tekið eftirlaun sextugir ef þeir hafa setið sex ár í ráðherrastóli og 55 ára ef þeir hafa setið í ráðherrastóli í 11 ár. Ef þeir hafa setið fimm ár í ráðherrastóli gildir hin almenna regla að eftirlaunaréttur kviknar þegar þeir verða 65 ára. Ljóst er að um tiltölulega fáa einstaklinga er að ræða miðað við þann fjölda sem nýtur lífeyrisgreiðslna. Jafnframt eru sett ákvæði sem skerða þessar greiðslur fram að 65 ára aldri ef sá sem þeirra nýtur tekur við öðru starfi. Það er nýmæli. Hér er gert ráð fyrir að skerðingin geti orðið 6% á ári. Ef maður t.d. gegnir öðru starfi sextugur verður skerðingin 36% og getur farið upp í 60%. Hér er m.a. haft í huga að þessi skipan mála geti auðveldað eðlilega endurnýjun í stjórnmálum og dregið úr þeirri tilhneigingu að fyrrverandi forustumenn á þeim vettvangi sæki í embætti í stjórnkerfinu til þess að ljúka starfsferli sínum.

Sett eru sérákvæði um eftirlaun forsætisráðherra. Réttindaávinnsla og hlutfall verður hið sama og hjá forseta Íslands en fyrirkomulag eftirlaunaréttarins verður að öðru leyti svipað og hjá öðrum ráðherrum. Er þá nauðsynlegt að hafa í huga að hv. þm. átti sig á því að samkvæmt Kjaradómi eru laun forseta Íslands 1.460.156 kr. en laun forsrh. 871.085. Eðlilegt þykir að um þennan valdamesta embættismann landsins og þann sem mest hvílir á gildi að þessu leyti sömu reglur og um forseta Íslands þó að hér sé ekki lagt til að minnka það launahlutfall sem hefur verið á milli þessara tveggja æðstu embættismanna þjóðarinnar. Ég hygg að ef menn horfa á þessi mál með sanngirni geti þeir fallist á að ekki sé óeðlilegt að bera þessi tvö embætti saman að þessu leyti.

Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995, í því skyni að jafna aðstöðu formanna stjórnmálaflokkanna þannig að þeir formenn, sem ekki eru jafnframt ráðherrar, hafi álag á þingfararkaup, 50%. Til samanburðar vil ég minna á að það álag sem leggst á þingfararkaup hjá ráðherrum, öðrum en forsrh., er 80%. Við vitum öll hér í þingsölum að mikið álag er á formönnum stjórnmálaflokka þó að þeir séu ekki ráðherrar og er eðlilegt að við komum til móts við það sjónarmið að þeir gegni lykilhlutverki í lýðveldis- og lýðræðisuppbyggingu þjóðarinnar með því að þeir fái nokkra uppbót á laun sín sem alþingismenn. Ég tel að það sé hollara fyrir okkur öll, og fyrir þjóðfélagið líka, að þessi launauppbót sé opinber og gagnsæ en að alþingismenn reyni ekki að fara í kringum hlutina með því að biðja um hærri framlög til stjórnmálaflokka og greiða formönnum sínum í gegnum þá hærri laun. Ég tel með öðrum orðum að með því að hafa þennan hátt á séum við að vinna að því að gera þjóðfélag okkar heilbrigðara og vinna að því að fólk úti á mörkinni geti áttað sig á því eftir hvaða reglum og eftir hvaða skilmálum æðstu stjórnmálamenn þjóðarinnar vinna.

Hér er gert ráð fyrir að formenn þingflokka, varaforsetar Alþingis og formenn þingnefnda fái 20% álag en fram að þessu hafa þessir alþingismenn fengið 15% álag svo að hér er einungis um hækkun úr 15% í 20% að tefla. Auðvitað má deila um það hver hin rétta hlutfallstala sé að lokum en það var talið rétt að hækka um 5% til þessara einstaklinga.

Loks eru sett almenn ákvæði um eftirlaunarétt hæstaréttardómara. Þau fela m.a. í sér rétt fyrir dómara, sem gegnt hafa störfum í Hæstarétti í a.m.k. tólf ár, til að komast á eftirlaun nokkru fyrr en áður hefur verið tíðkað. Flestir dómarar Hæstaréttar hafa fram að þessu setið í dómnum fram yfir 65 ára aldur og hafa þá fengið lausn frá störfum ,,án óskar`` eins og það er orðað í dómstólalögum og haldið fullum embættislaunum til æviloka samkvæmt túlkun á 61. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessu frumvarpi er ekki hróflað við þeirri framkvæmd heldur tekur það til þeirra dómara sem ekki njóta hennar.

Eftirlaunaréttur þeirra sem lög þessi taka til, forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, er nú rýmri en almennt tíðkast. Á það sér þá skýringu að þetta eru æðstu opinber embætti og störf í þjóðfélaginu og vandasöm eftir því. Forseti Íslands og alþingismenn þiggja umboð sitt til starfa beint frá þjóðinni í almennum kosningum og sækja endurnýjun þess, forseti Íslands á fjögurra ára fresti en þingmenn ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Sama gildir í raun og veru um ráðherra. Það er því lýðræðisleg nauðsyn að svo sé búið að þessum embættum og störfum að það hvetji til þátttöku í stjórnmálum og að þeir sem verja meginhluta starfsævi sinnar til stjórnmálastarfa á opinberum vettvangi og gegna þar trúnaðar- og forustustörfum geti dregið sig í hlé og vikið fyrir yngra fólki án þess að hætta fjárhagslegri afkomu sinni. Það er líka mikilsvert í lýðræðisþjóðfélagi að ungt efnisfólk gefi kost á sér til stjórnmálastarfa og þurfi ekki að tefla hag sínum í tvísýnu með því þótt um tíma bjóðist betur launuð störf á vinnumarkaði. Svo virðist sem starfstími manna í stjórnmálum sé að styttast eftir því sem samfélagið verður opnara og margþættara og fjölmiðlun meiri og skarpari. Við því er eðlilegt að bregðast, m.a. með því að gera þeim sem lengi hafa verið í forustustörfum í stjórnmálum kleift að hverfa af vettvangi með sæmilegu öryggi og án þess að þeir þurfi að leita nýrra starfa seint á starfsævinni.

Samkvæmt upplýsingum ríkisbókhalds og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins voru eftirlaunagreiðslur til þeirra sem falla undir ákvæði þessa frumvarps um 300 millj. kr. á árinu 2002. Skiptust þær þannig að til fyrrverandi forseta og maka forseta voru greiddar 21,6 millj. kr., til fyrrverandi ráðherra 30 millj. kr., til fyrrverandi alþingismanna 196 millj. kr. og til fyrrverandi hæstaréttardómara 52,4 millj. kr. Greiðslum til fyrrverandi ráðherra og alþingismanna úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins var mætt með jafnháu framlagi úr ríkissjóði en iðgjöld voru notuð til eignamyndunar. Ljóst er því að engin breyting verður í byrjun á greiðslum úr ríkissjóði við þá breytingu sem frumvarpið felur í sér. Framlag ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins lækkar sem nemur þeim greiðslum sem nú munu falla beint á ríkissjóð. Breytingar sem í frumvarpinu felast munu því koma fram á löngum tíma.

[14:30]

Ég skal þá víkja að einstökum greinum frumvarpsins eftir því sem ástæða er til.

Eðlilegt þykir að þeir sem njóta réttar samkvæmt lögum þessum greiði hærra iðgjald til lífeyrissjóðsins en aðrir launþegar því að réttur þeirra er betri. Er iðgjaldahlutfallið ákveðið í 1. gr. 5% en meginregla í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er 4%. Mótframlag ríkissjóðs er hins vegar hið sama og gildir almennt um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en það er nú 11,5%. Með iðgjaldagreiðslum þessum stofnast réttindi í A-deildinni og þegar til lífeyrisgreiðslna kemur koma þær greiðslur til frádráttar eftirlaunum úr ríkissjóði. Hins vegar þarf að breyta samþykktum A-deildar LSR, eins og heimild er til í 6. mgr. 13. gr. laga um sjóðinn, til þess að viðbótariðgjaldið nýtist til ávinnslu réttinda samkvæmt reglum sjóðsins.

Iðgjöld eru miðuð við heildarlaun eins og meginregla er í A-deild LSR. Það felur í sér að einingar og álag á föst laun og aðrar greiðslur, sem teljast til launa, verða stofn iðgjaldagreiðslu.

Þá er rétt að nefna að aðeins þær greiðslur úr A-deild sem byggjast á iðgjaldagreiðslu og réttindaávinnslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins koma til frádráttar en ekki aðrar lífeyrisgreiðslur sem menn kunna að eiga rétt á úr A-deildinni fyrir önnur störf.

Í 2. og 3. gr. eru ákvæði um forseta Íslands og maka hans en þau eru efnislega óbreytt frá gildandi lögum.

Í III. kafla frv. eru ákvæði um ráðherra. Þar eru aðallega tvenns konar nýmæli. Hið fyrra er í 3. tölul. 4. gr. en þar segir að fyrrverandi ráðherra sem hefur gegnt embætti í hálft annað kjörtímabil, eða sex ár, geti tekið eftirlaun 60 ára og hafi hann gegnt ráðherraembætti lengur geti hann lækkað eftirlaunaaldurinn jafnt og þétt niður í 55 ár eftir 11 ár í embætti ráðherra. Hér liggur til grundvallar það sjónarmið að gera forustumönnum í þjóðmálum, eins og ráðherrar eru tvímælalaust, kleift að hverfa úr stjórnmálum eftir langan feril í forustusveit og stuðla þannig að eðlilegri endurnýjun. Hér er eðli máls samkvæmt aðeins um fáa forustumenn að tefla. Réttindi samkvæmt 3. tölul. 4. gr. eru ekki háð því að fyrrverandi ráðherrar hverfi beint úr ráðherrastól á eftirlaun, eða biðlaun og eftirlaun, eins og samkvæmt 2. tölul. Þannig getur fyrrverandi ráðherra sem gegnt hefur embætti samtals í sex ár t.d. átt sæti á Alþingi um nokkurn tíma eftir að ráðherradómi hans lýkur þar til réttur hans til eftirlauna samkvæmt þessum tölulið verður virkur eða hann kýs að nýta sér þennan rétt en eins og hv. alþingismenn vita geta alþingismenn ekki notið eftirlaunaréttar sem ráðherrar fyrr en þeir láta af þingmennsku og raunar ekki fyrr en sex mánuðum síðar, þ.e. eftir að þingmenn hætta að taka biðlaun. Forseti Íslands fær heldur ekki eftirlaun sem alþingismaður eða ráðherra.

Síðara atriðið sem varðar ráðherra og ég vil nefna sérstaklega er það nýmæli að setja sérstakar reglur um forsætisráðherra. Forsætisráðherra er á hverjum tíma hinn pólitíski leiðtogi þjóðarinnar, eins og ég sagði áður, og fer með valdamesta embætti landsins. Því þykir eðlilegt að um hann gildi sérregla sem sé nokkru hagstæðari en fyrir aðra ráðherra. Eftirlaun verða 60% af heildarlaunum forsætisráðherra, þ.e. ráðherralaunum og þingfararkaupi, eins og þau eru ákveðin af Kjaradómi hverju sinni. Ef fyrrverandi forsætisráðherra hefur gegnt embættinu lengur en eitt kjörtímabil, þ.e. lengur en fjögur ár, verða eftirlaunin 70%, og 80% hafi hann gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil, þ.e. átta ár. Er það hámark eftirlaunaréttar samkvæmt þessari grein.

Það er þó skilyrði réttar samkvæmt greininni að forsætisráðherra hafi setið í embætti í a.m.k. eitt ár.

Svo getur átt við um fyrrverandi forsætisráðherra að hann hafi auk þess að veita ríkisstjórn forustu setið sem ráðherra í ríkisstjórnum annarra. Þykir eðlilegt að þeir sem annars eiga rétt samkvæmt þessari grein geti notið þeirra ráðherrastarfa að einhverju leyti kjósi þeir að fá eftirlaun sem fyrrverandi forsætisráðherrar. Er hér miðað við að í samanlagðan ráðherratíma í árum talinn, annan en sem forsætisráðherra, megi deila með þremur og bæta útkomunni við þann tíma sem hann hefur gegnt embætti forsætisráðherra.

Ég vil líka nefna eitt atriði til viðbótar um rétt ráðherra en hann felst í því að hafi fyrrverandi ráðherra öðlast rétt til eftirlauna og hann hyggst hverfa af vettvangi stjórnmála á hann jafnframt rétt til að gera virk réttindi sín til eftirlauna fyrir þingmennsku. Þetta gildir líka í hina áttina, þ.e. ef þingmaður hefur öðlast rétt til eftirlauna og hyggst hætta getur hann gert virkan eftirlaunarétt sinn sem ráðherra þótt það væri að öðrum kosti ekki heimilt. Fyrrverandi ráðherrar hafa margir hverjir beðið eftirlauna þótt þeir væru hættir á þingi og farnir að taka eftirlaun sem alþingismenn því að sá réttur hefur fram að þessu verið bundinn við 65 ár. Það er hins vegar eðlilegt að þetta geti farið saman.

Um eftirlaun alþingismanna er í megindráttum hið sama að segja og um aldursmark eftirlauna ráðherra.

Í 3. tölul. 8. gr. segir að fyrrverandi alþingismönnum sem setið hafa á Alþingi í samtals 16 ár eða lengur, fjögur kjörtímabil eða lengur, sé heimilt að hverfa af vettvangi stjórnmála sextugir og til viðbótar nemur lækkunin sem svarar einu ári fyrir hver tvö ár á Alþingi umfram 16 ár og samsvarandi fyrri hluta úr ári. Lækkunin verður aldrei meiri en tíu ár og aldursmarkið því aldrei lægra en 55 ár. Hafi alþingismaður t.d. setið á þingi í 18 ár á hann samkvæmt frumvarpinu rétt á því að láta af þingmennsku 59 ára og taka eftirlaun en hámarksrétturinn kviknar eftir 26 ára þingsetu, eins og ég sagði áður. Gæti það því nýst þeim þingmönnum til fulls sem sætu samfellt á þingi frá 29 ára aldri. Þeir eru hins vegar sárafáir í sögu Alþingis til þessa. Ákvæði þessa töluliðar mun því aðeins taka til fárra alþingismanna, þeirra sem lengst hafa átt sæti á Alþingi og að jafnaði valist til forustustarfa. Nú sem stendur hafa aðeins níu þingmenn átt sæti á Alþingi í 16 ár eða lengur. Af þeim alþingismönnum sem hafa verið kjörnir nýir til Alþingis síðustu 50 ár, frá kosningunum 1953, hafa 57 setið samtals lengur en 16 ár á þingi, en aðeins hluti þeirra, 17, hefur hætt þingmennsku fyrir sextugsaldur. Af þeim 17 hafa níu horfið þegar til annarra og ábyrgðarmikilla embætta en sumir hætt vegna örorku eða sjúkdóma.

Réttindaávinnsla alþingismanna samkvæmt frumvarpinu er í samræmi við það sem almennt tíðkast nú í lífeyriskerfinu, þ.e. jöfn allan tímann. Prósentan er hærri en hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem helgast af sérstöðu hinna þjóðkjörnu fulltrúa.

Ávinnsla samkvæmt frumvarpinu er betri fyrstu árin en nokkru lakari eftir u.þ.b. tvö full kjörtímabil, átta ár. Mestu munar eftir 15 ár, 5%, en síðan minnkar munurinn og jafnast eftir 18 ár. Eftir það er ávinnslan hagstæðari samkvæmt frumvarpinu.

Eins og fram kemur í 3. mgr. er hámark eftirlaunaréttar 70% og er það óbreytt frá gildandi lögum.

Í V. kafla frumvarpsins, þ.e. 15. gr., eru sett hliðstæð ákvæði um hæstaréttardómara og eru í III. og IV. kafla frumvarpsins um ráðherra og alþingismenn. Aldursmark fyrir eftirlaun hæstaréttardómara er 65 ár en dómara, sem hefur verið við réttinn í a.m.k. tólf ár, er veitt heimild til að hverfa úr starfi 60 ára að aldri og fá þannig eftirlaun fyrr en almennt aldursmark segir.

Ég vek sérstaka athygli á 16. gr. frumvarpsins en samkvæmt henni eiga eftirlifandi makar rétt til makalífeyris við andlát þeirra sem lög þessi munu taka til eða eftirlaunaþega samkvæmt þeim. Meginatriðið hér er það að þá fær maki greiðslur eins og segir í 17. gr. laga um A-deild LSR, maki nýtur fulls makalífeyris í þrjú ár og hálfs makalífeyris, 50%, í tvö ár en þá fellur makalífeyrir niður nema við viss skilyrði, t.d. örorku eða ef börn innan 22 ára aldurs koma til. Makanum eru tryggð sem lágmarksréttindi hálf eftirlaun ævilangt en greiðslurnar frá LSR koma til frádráttar meðan þeirra nýtur við. Þó er gert ráð fyrir að hann skerðist ef makinn hefur aðrar launatekjur sem nokkru nemur, og hann fellur niður ef makinn hefur laun sem eru þreföld upphæð þess makalífeyris er hann ætti rétt til.

Ég vil vekja athygli á því að sá réttur til 20% af eftirlaunum sem makar dáinna alþingismanna hafa nú fellur niður. Sú regla fellur niður eins og er um aðra opinbera starfsmenn.

Í 18. og 19. gr. eru settar reglur um að enginn geti notið eftirlaunagreiðslu samkvæmt lögunum meðan hann er í starfi sem lögin taka til og jafnframt að eftirlaun skerðist taki menn eftirlaun fyrir 65 ára aldur en hverfi eigi að síður til nýrra starfa. Er skerðingin 0,5% fyrir hvern mánuð, eða 6% á ári. Taki t.d. fyrrverandi ráðherra eða alþingismaður, sem ætti rétt til eftirlauna eftir tólf ára setu í embætti, þ.e. við 55 ára aldur, þegar við nýju starfi verður skerðingin 60% fram að 65 ára aldri. Sama á við ef réttur til eftirlauna stofnast meðan maður er í starfi. Þetta er nýmæli en engin slík skerðingarákvæði er að finna í núgildandi lögum.

Þegar frumvarp þetta verður að lögum falla eldri lög og lagaákvæði um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra og alþingismanna úr gildi, sbr. 21. gr. Eigi að síður er þeim sem öðlast hafa betri rétt samkvæmt þeim lögum tryggt að þeir geti notið hans ef þeir svo kjósa. Ljóst er að eldri réttur alþingismanna sem setið hafa á þingi tvö til fjögur kjörtímabil er hagstæðari en samkvæmt frumvarpinu, svo og réttur til makalífeyris að nokkru leyti. Ekkert er því til fyrirstöðu að maki leiti réttar samkvæmt eldri lögum þó að eftirlaunagreiðslur hafi farið eftir ákvæðum þessa frumvarps ef hann á við. Hins vegar er girt fyrir að þeir sem þegar hafa hafið töku eftirlauna geti leitað réttar samkvæmt þessu frumvarpi ef hann er hagstæðari. Er eðlilegast að um það séu skýrar reglur.

Miðað er við að þeir alþingismenn sem kjörnir voru í fyrsta sinn 10. maí sl. falli einvörðungu undir ákvæði frumvarpsins, svo stutt sem um er liðið frá kosningunum, en geti ekki leitað betri réttar samkvæmt eldri lögum.

Í frumvarpinu er auk þessa heildarákvæðis um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara að finna breytingar á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað. Meginbreytingin er sú að þeir alþingismenn sem jafnframt eru formenn stjórnmálaflokka sem hafa fengið a.m.k. þrjá þingmenn kosna á Alþingi eiga rétt til álags á þingfararkaup, 50%, en eins og ég áður sagði er með þessari breytingu verið að jafna aðstöðu forustumanna í stjórnmálum og það tel ég mikilsvert. Breytingin mun í raun þýða að formenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi fá verulega hærri greiðslur en alþingismenn almennt. Ráðherrar hafa nú um 80% álag á þingfararkaup og forsætisráðherra nær tvöfalt þingfararkaup, og því þykir þessi breyting hófleg. Þá er jafnframt lagt til að hækka álag sem formenn þingflokka og formenn nefnda hafa úr 15% í 20%. Þá er enn fremur lagt til að biðlaunaréttur stofnist hjá ráðherrum þegar þeir hafa verið skipaðir í embætti eins og hjá alþingismönnum sem tekið hafa fast sæti á Alþingi. Verður hann þrír mánuðir en hafi ráðherra setið í embætti í eitt ár eða lengur er rétturinn sex mánuðir. Eins og þessi regla er núna, byggð á nærri hálfrar aldar gömlum launalögum, er biðlaunaréttur ráðherra miklu þrengri en biðlaunaréttur alþingismanna. Er hvort tveggja að hann fylgir ekki föstum ráðherralaunum og að til hans stofnast ekki fyrr en eftir tvö ár í embætti. Um biðlaunagreiðslur þessar gilda svo ákvæði 13. gr. þingfararkaupslaganna um sams konar skerðingu þeirra ef sá sem þeirra nýtur tekur við launuðu starfi.

Ég vil benda á að eins og ástandið er núna getur sú staða komið upp að ráðherra njóti minni réttar til biðlauna en aðstoðarmaður hans sem nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Ég vil svo að lokum segja að með frv. þessu hefur skýrst sú mynd sem er á launum og kjörum elstu embættismanna og fulltrúa þjóðarinnar. Á undanförnum árum hafa orðið ýmsar breytingar á þessum málum. Ég get nefnt skattmeðferð á launum forseta Íslands, lög um Kjaradóm og kjaranefnd og lög um þingfararkaup og þingfararkostnað. Þessar breytingar hafa komið í áföngum en allar horft til þess að gera skipulag þessara mála skýrara og gegnsærra, eins og stundum er sagt. Að vissu leyti má líta á þetta frumvarp sem síðasta skref í þeirri endurskoðun.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og allshn.