Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 14:52:02 (3180)

2003-12-11 14:52:02# 130. lþ. 48.7 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrst almennt um álitamál sem hér kom upp um hver eigi að ákvarða kjör þingmanna og ráðherra. Ég er þeirrar skoðunar að heppilegasta fyrirkomulagið væri að þingið sjálft tæki um þetta ákvörðun og menn síðan stæðu eða féllu með sannfæringu sinni og ákvörðunum. Þannig er þetta hins vegar ekki. Kjaradómi hefur verið falið þetta hlutverk og mun ég víkja að því síðar.

Það er vissulega mikilvægt verkefni að taka lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra til endurskoðunar og á þeim tímapunkti stöndum við. Nú er spurningin í hvaða átt menn vilja halda, áfram eða aftur á bak. Í því frv. sem hér liggur fyrir felst yfirlýsing um það að í stað þess að halda inn í framtíðina er stefnan tekin í afturhaldsátt. Þetta frv. er tímaskekkja, minjar um kerfi misskiptingar og sérréttinda. Í ríkjum austan tjalds birtust forréttindi valdastéttanna m.a. í svokölluðum dollarabúðum. Þar versluðu menn á sérkjörum. Þetta frv. er dollarabúð íslenska lífeyriskerfisins.

Það er alveg rétt sem sagt hefur verið að í frv. er sitthvað til eðlilegrar samræmingar frá því sem nú er og í þeim skilningi til bóta. Því fer þó fjarri að það eigi við um frv. í heild sinni. Ég spyr: Nú, þegar við endurskoðum lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra, hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að halda með þennan hóp og reyndar alla strolluna sem nú er að finna í einni spyrðu, alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara, inn í lífeyrissjóði sem þessum aðilum standa opnir? Hvers vegna getur þetta fólk ekki verið á lífeyriskjörum sambærilegum þeim sem aðrir búa við? Hvað er svona sérstakt við það að vera þingmaður? Hvað er svona sérstakt við það að vera ráðherra? Hvað er svona sérstakt við það að vera hæstaréttardómari? Það er ekkert sérstakt við það annað en að þessum hópum eru sköpuð sérréttindi sem engin rök eru fyrir.

Ávinnsla lífeyrisréttinda samkvæmt frv. er færð í samræmt hlutfall. Það hlutfall er hins vegar hærra en gerist almennt í lífeyrissjóðum landsins. Réttur til töku eftirlauna skapast einnig fyrr en almennt gerist án þess að fyrir því séu nokkur rök sem ég get tekið mark á. Í ofanálag er þess að geta að mismunun í þessu efni er veruleg og aukin á milli þingmanna almennt annars vegar og ráðherra hins vegar. Ráðherrarnir ávinna sér rétt til eftirlauna fyrr en þingmenn, og allur hópurinn, ráðherrar og þingmenn, öðlast réttindi til lífeyristöku fyrr en almennt gerist á launamarkaði. Hafi þingmaður eða ráðherra gegnt starfi sínu nægilega lengi getur hann farið á lífeyri 55 ára gamall.

Varðandi breytingar á launakjörum samkvæmt frv. vil ég lýsa tvennu yfir. Ég tel að menn geti ekki bæði sleppt og haldið, annars vegar falið Kjaradómi að ákvarða kjör þingmanna og ráðherra en verið síðan stöðugt með hönd Alþingis á lofti til að smyrja þar ofan á. Það hefur verið gert með óheyrilegu álagi á kaup ráðherra, 80% ofan á þingfararkaupið, það hefur verið gert með álagi á nefndar- og þingflokksformenn upp á 15% sem nú stendur til að hækka í 20%, að ógleymdum 40 þús. kr. starfskostnaðinum sem ákveðinn var á sínum tíma, upphæð sem nú er orðin talsvert hærri, upphæð sem alþingismenn samþykktu að þeim væri heimilt að taka sem laun, í fyrstu skattlaus --- það var síðan lagað --- en þessi greiðsla, starfskostnaður tekinn út í formi launa, er nokkuð sem mér hefur aldrei fundist standast, hvað þá með formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu sem nú eiga að fá 50% álag ofan á þingfararkaupið, 50% hækkun.

Mér finnst í sjálfu sér ekki rangt með hliðsjón af þeim kjörum sem ráðherrum eru búin að eitthvert samræmi sé á milli þessara aðila. Það er ekki þetta sem í sjálfu sér er óeðlilegt, að mínu mati. Það er hins vegar viðmiðunarramminn, það eru ráðherrakjörin, 80 prósentin ofan á þingfararkaupið, sem þeim hefur verið skammtað, það er óeðlilegt en ekki hitt að reynt sé að leita einhvers samræmis innan þessa ramma. Það er samræmið í þeim hópi sem á sæti í þessum sal sem verið er að raska og ég gagnrýni harkalega. Mér finnst óeðlilegur sá munur sem er gerður á milli þeirra sem þiggja þingfararkaup almennt og þeirra sem gegna formennsku í nefndum, eru formenn þingflokka eða gegna öðrum vegtyllum á vegum þingsins. Þessi munur finnst mér óeðlilegur og ég hef ekki komið auga á rökin fyrir honum. Reyndar kem ég ekki auga á rök fyrir mörgum hlutum í þessu frv. Ég tel það vera óeðlilegt og óásættanlegt frá upphafi til enda. Vinnubrögðin eru auk þess röng, að dengja þessu fyrirvaralítið inn á Alþingi í flýtiafgreiðslu.

Herra forseti. Það má ekki gerast að þjóðin þurfi að óttast myrkrið þegar Alþingi Íslendinga er annars vegar, að í skjóli myrkurs sé flýtifrv. hraðað í gegnum Alþingi eins og nú virðist eiga að gerast. Það er ekki góður svipur á því að kynna þetta frv. í svartasta skammdeginu, nú rétt fyrir jólin. Þetta eru krásir sem þjóðin mun ekki kunna að meta. Þær munu ekki falla í kramið. Þær gera það ekki utan Alþingis og vonandi ekki heldur innan veggja þess. Ég mun greiða atkvæði gegn frv.