Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 16:01:48 (3196)

2003-12-11 16:01:48# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta efh.- og viðskn. í þessu máli þar sem verið er að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en undir álitið ritar ásamt mér hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

Meginbreytingar í þessu frv. eru í fyrsta lagi að breyta á viðmiðunarfjárhæðum vegna tekjuskatts og eignarskatts, barnabóta og vaxtabóta og eiga þær að hækka í samræmi við áætlaðar verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins eða um 2,5%.

Í öðru lagi, eins og hér hefur komið fram, að hámark vaxtagjalda til útreiknings vaxtabóta lækkar úr 7% af skuldum vegna húsnæðiskaupa í 5,5% af skuldum. Þetta ákvæði, eins og meiri hlutinn leggur það til, tekur gildi ári síðar en áformað var í frv. Ríkisstjórnin féll frá þessum áformum þar sem verulegar líkur voru á að breytingin stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Í stað þess er nú lögð til 10% flöt skerðing á útgreiddar vaxtabætur sem umtalsverð hætta er á að brjóti einnig í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Í þriðja lagi er um að ræða að sérstakur tekjuskattur, sem átti að falla niður um áramótin, verður lækkaður í 4% á árinu 2004 og gert ráð fyrir að hann lækki í 2% árið 2005 og falli síðan brott, en samkvæmt ákvæðum núgildandi laga, eins og áður sagði, átti hann að falla niður um næstu áramót. Það er því erfitt að sjá hvaða afturvirkni er fólgin í þessu varðandi hátekjuskattinn, eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hér í orðaskiptum sínum við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson áðan, vegna þess að hann kemur raunverulega ekki til framkvæmda fyrr en árið 2005 vegna tekna árið 2004. Engu að síður er náttúrlega alveg ljóst, herra forseti, að sjálfstæðismenn og þar með Pétur Blöndal, lofuðu kjósendum því að afnema þennan hátekjuskatt eða a.m.k. ekki að framlengja hann eins og þeir nú eru að gera. Það er eitt af því ásamt mörgu fleiru sem þeir lofuðu kjósendum en eru ótt og títt að svíkja eins og við höfum orðið vitni að þessa rúmu tvo mánuði sem þingið hefur starfað hér frá kosningum.

Í fjórða lagi er verið að fella á brott ákvæði laganna um alþjóðleg viðskiptafélög.

Það er alveg ljóst að þessar breytingar í frumvarpinu fela í sér skattahækkanir og verulega skerðingu á vaxtabótum og ástæða til þess að rifja það upp að í fjárlagafrv. er gripið til ýmissa ráðstafana sem koma hart niður á heimilunum í landinu og fela í sér ýmsar skattahækkanir í einu eða öðru formi upp á 3,7 milljarða kr. Það er heimilunum í landinu sem einkum er ætlað að bera þessar byrðar. Þær birtast í því að vaxtabætur eru lækkaðar um 600 millj. kr., almennur tekjuskattur hækkaður um 600 millj. kr. með afnámi frádráttar vegna séreignarsparnaðar, í hækkun á bensíni um 600 millj. kr., atvinnuleysisbætur eru lækkaðar um 170 millj. kr., sjúkratryggingar lækkaðar um 740 millj. kr. með auknum álögum á sjúklinga, og fleira mætti til telja, herra forseti, í þeim álögum á einstaklinga og heimili sem stjórnarflokkarnir standa að þessa dagana þvert á það sem þeir lofuðu í kosningunum, og er auðvitað eitt af þeim frumvörpum sem við ræðum hér.

Ég vil þá, virðulegi forseti, gera grein fyrir afstöðu okkar í minni hlutanum, en við leggjumst gegn því að miða breytingar á viðmiðunarfjárhæðum vegna tekjuskatts og eignarskatts, eins og hækkun persónuafsláttar, svo og barnabætur og vaxtabætur einungis við áætlaðar verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins eða um 2,5%. Áætlað er að launavísitalan hækki á næsta ári um 5% og ef tekið væri mið af taxtahækkunum samkvæmt samningi Flóabandalagsins ætti að hækka þessar viðmiðunarfjárhæðir um 3,15%, en ekki 2,5% og um 5% en ekki 2,5% ef tekið væri mið af launavísitölu. Því er ljóst, herra forseti, að um er að ræða skattahækkun sem felur í sér að skattbyrði tekjuskattsins eykst. Því til viðbótar, eins og ég nefndi áðan, hækkar almennur tekjuskattur um 600 millj. kr. með afnámi frádráttar vegna séreignarsparnaðar.

Hér er ástæða til þess að vitna til þess að bæði Seðlabankinn og Samtök atvinnulífsins, ef ég man rétt, staðfesta það sem ég sagði áðan að hér er um skattahækkun að ræða með því að miða þessa mikilvægu þætti einungis við verðlagsforsendur fjárlagafrv. en ekki launabreytingar. Allt eru þetta mikilvægir þættir sem snúa að kjörum fjölskyldunnar á næsta ári, eins og persónuafslátturinn, barnabæturnar og vaxtabæturnar svo dæmi sé tekið.

Í áliti Seðlabankans um skerðingu á skattleysismörkum er vísað til þess að kaupmáttur skattleysismarka hafi fallið miðað við verðlag, og segir síðan orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ótvírætt er hins vegar að þessi háttur á ákvörðun skattleysismarka bætir hag ríkissjóðs sem er æskilegt við núverandi aðstæður. Seðlabankinn telur því þessa breytingu gagnlega þótt aðrar tekjuöflunaraðferðir gætu komið að sama gagni.``

Í álitinu er einmitt vísað í það hvernig kaupmáttur skattleysismarka hefur verið að falla miðað við verðlag og dregin upp tafla sem sýnir það, sem við fórum nokkuð yfir í kosningabaráttunni, að stjórnarflokkarnir hafa á umliðnum árum verið að skerða skattleysismörkin til þess að geta lækkað skatta á fyrirtækin og þá sem betra hafa það í þjóðfélaginu eins og fjármagnseigendur með því að frysta eða hækka lítið skattleysismörkin til þess að hafa svigrúm til þess að lækka skatta á þá sem betra hafa það.

Síðan segja þeir varðandi sérstaka tekjuskattinn að hann hafi ekki: ,,skilað ríkinu háum fjárhæðum eins og sjá má á meðfylgjandi töflu en eins og hinn almenni tekjuskattur skilar hann auknum tekjum þegar skattleysismörk hækka minna en tekjur. Því hefði verið heppilegt að mat hefði fylgt frv. á því hve mikið tekjutap ríkisins verður af þessari breytingu miðað við að ella hefðu skattleysismörk gagnvart hátekjuskatti fylgt verðlagi og álagningarhlutfalli verið haldið óbreyttu.``

ASÍ segir um þessa breytingu á viðmiðunarfjárhæðum, með leyfi forseta:

,,Undanfarin ár hafa viðmiðunarfjárhæðir laganna hækkað í samræmi við umsamdar taxtahækkanir skv. kjarasamningum. Nú eru kjarasamningar lausir og slík viðmiðun því vandfundin en ef viðmiðunarfjárhæðirnar hækka í samræmi við áætlaðar breytingar á verðlagi er verið að auka skattbyrði almenns launafólks umfram það sem verið hefði skv. þeim reglum sem áður giltu. Á slíka breytingu getur ASÍ ekki fallist. Eðlilegra er að viðmiðunarfjárhæðirnar hækki í samræmi við forsendur fjárlaga um áætlaðar launabreytingar.``

Það er vísað til þess í útreikningum sem ég fékk frá ASÍ að verið sé að hafa nálega 400 millj. kr. af launafólki með því að miða viðmiðunarfjárhæðir einungis við 2,5% í stað 3,15%, eins og var í samningi Flóabandalagsins og það er verið að hafa af fólki 1.540 millj. kr. með því að miða þessar fjárhæðir við 2,5%, í stað 5%.

Það er ástæða til þess, herra forseti, að vitna líka í það sem Samtök atvinnulífsins segja um þessa 2,5% breytingu. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Þessar forsendur fela í sér að skattbyrði tekjuskattsins eykst og má sem dæmi nefna að skattbyrði 250 þús. kr. mánaðarlauna eykst um 0,25%.``

Þetta er því staðfest, herra forseti, í gögnum sem nefndinni bárust að verið er að auka nokkuð skattbyrðina sem er raunverulega hefð og regla hjá þessari ríkisstjórn gegnum árin með því að halda niðri skattleysismörkunum.

Herra forseti. Ég ætla að víkja að vaxtabótunum, en mestur tími nefndarinnar fór í að ræða þau umdeildu ákvæði sem ríkisstjórnin áformar, þ.e. að skerða vaxtabætur með afturvirkum íþyngjandi hætti. Þessi áform ríkisstjórnarinnar hafa sannarlega mætt mikilli andstöðu verkalýðshreyfingarinnar og hafa BSRB og ASÍ ályktað harðlega gegn þeim.

Það er ljóst að þessi skerðing mun bitna mjög harkalega á þeim sem skuldugastir eru vegna húsnæðiskaupa, og fyrstu áform ríkisstjórnarinnar sem birtust í frumvarpinu voru að leggja til að lækkun á hámarkshlutfalli vaxtagjalda af skuldum til útreiknings vaxtabóta færi úr 7% í 5,5%. Ríkisstjórnin heldur sig vissulega við þau áform, herra forseti, en frestar þeim um eitt ár. Og það er ástæða til þess --- af því að hún féll ekki alveg frá þessum áformum, herra forseti --- að víkja að rökunum sem sett eru fyrir þessari breytingu, vegna þess að þau voru afar hæpin.

Þar er tínt til að frá því að núverandi viðmiðunarmörk voru sett hafi raunvextir langtímalána lækkað umtalsvert. Nefnt er að á árinu 1993 hafi raunvextir af húsbréfum verið 6%, en frá þeim tíma hafi vextir lækkað umtalsvert og séu húsbréfavextir nú 5%. En það er ekki minnst á það, virðulegi forseti, að vextir af eignaríbúðum þeirra sem eru innan tiltekinna tekjumarka hafa hækkað verulega frá árinu 1998 þegar félagslega eignaríbúðakerfið var lagt niður, úr 2,4% í 5,6%, sem sagt yfir þau 5% sem ríkisstjórnin er að miða við þegar hún gengur út frá því að á þeirri forsendu að raunvextir hafi lækkað sé eðlilegt að breyta vaxtabótunum eins og hún gerir hér. Auk þess eru vextir í húsbréfakerfinu fastir en ekki breytilegir þannig að stór hluti íbúðareigenda er með langtímavexti yfir 5% sem breytast ekki eins og ríkisstjórnin er að gefa til kynna. Ég fékk yfirlit, eða efh.- og viðskn., frá Íbúðalánasjóði einmitt um það hver fjöldi þeirra væri sem væri með vexti yfir 5% og það er verulegur fjöldi. Það eru einungis 3.769 lántakendur húsbréfalána með 5% vexti en rúmlega 56 þúsund lántakenda eru með vexti yfir 5%, þar af tæplega 9 þúsund með 6% vexti samkvæmt upplýsingum sem óskað var eftir frá Íbúðalánasjóði. Þetta fólk verður náttúrlega fyrir verulegri skerðingu þegar verið er að lækka þetta þak úr 7% í 5,5%. Þess vegna, herra forseti, er það beinlínis rangt sem hér er sagt og þær forsendur sem ríkisstjórnin teflir fram fyrir þessum breytingum þegar stór hluti fólks er með sín lán á kjörum sem eru vel yfir 5% og stór hluti eða um níu þús. manns með 6% vexti samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram hjá Íbúðalánasjóði. Í raun er það ótækt, herra forseti, að fjmrn. skuli setja fram svona villandi upplýsingar í greinargerðinni sem rökstuðning fyrir þeim breytingum sem verið er að gera.

[16:15]

Úr því að við erum að ræða þessa breytingu sem ríkisstjórnin er að gera má líka vitna til þess, út frá þeirri forsendu að meðalvaxtagjöld hafi lækkað svo mikið og þess vegna sé óhætt að lækka þetta þak, að meðalvaxtagjöld hafa hækkað en ekki lækkað. Það kemur fram í útreikningum sem efh.- og viðskn. kallaði eftir hjá fjmrn. Þannig voru meðalvaxtagjöld hjóna á árinu 1995 481 þús. en eru núna 592 þús., hjá einstæðum foreldrum voru þau 282 þús. en eru núna 397 þús. og hjá einstaklingum voru meðalvaxtagjöldin 273 þús. en eru 340 þús. Þetta sýnir að hér eru rangfærslur settar fram, mjög villandi, herra forseti, sem ber að gagnrýna vegna þess að þetta eru þau rök sem hæstv. fjmrh. setur fram fyrir þessari breytingu.

Það er líka ástæða til að nefna að samkvæmt rökunum í lögfræðiáliti Skúla Magnússonar er um að ræða fámennan hóp sem verður fyrir umræddri skerðingu á vaxtabótunum, einungis 4.000 manns. Áform ríkisstjórnarinnar eru um að lækka þakið úr 7% í 5,5% og það er nefnt að þessi hópur eða einstaklingar innan hans gætu orðið fyrir verulegri skerðingu, ef ég man rétt voru tiltekin 130 þús. í því sambandi. Þær tölur komu hins vegar aldrei upp á borðið hjá efh.- og viðskn. og það gæti verið um miklar skerðingar hjá einstaklingum að ræða, eins og fjmrn. tiltók þegar það féll frá því að þessi breyting kæmi til á næsta ári. Það sem við fengum í hendurnar frá fjmrn. var að með fyrri áformunum, um að miða við 5,5% af skuldum í stað 7% af skuldum, var tekið dæmi af hjónum með meðalvaxtabætur og tekjur á bilinu 3--4 millj. og eignarskattsstofn upp á 2--3 millj. og sagt að meðalskerðingin á vaxtabótunum væri 17 þús. kr. Þegar ráðuneytið frestaði fyrri áformum um eitt ár var allt í einu farið að tiltaka að þarna gæti verið um verulega skerðingu á fámennum hópi að ræða og ráðuneytið tiltók tugi þúsunda og allt upp í 120--130 þús. hjá einstaklingum. Það er t.d. tekið fram í gögnum frá fjmrn. að skerðingin á meðalvaxtabótum einstaklinga, með því að fara úr 5,5% í 7% af skuldum, gæti verið um 5 þús. kr., og ef tekjur væru á bilinu 2--3 millj. væri meðalskerðingin um 9 þús. kr. Við fengum allt aðrar tölur meðan ráðuneytið hélt til streitu að láta fyrri leiðina taka gildi strax, sem það síðan féll frá vegna þess að það fékk tvö álit í hausinn sem sýndu að það væri líklega að brjóta stjórnarskrána. Þá fór ráðuneytið allt í einu að tína upp úr hatti að þarna hefðu einstaklingar getað orðið fyrir skerðingu sem væri um 130 þús. kr. Þetta eru afar sérstæð vinnubrögð af hálfu fjmrn., herra forseti.

ASÍ bendir á í umsögn sinni að ekki sé hægt að fallast á þau rök sem teflt er fram í frv. því að ef vextir lækka lækka einfaldlega vaxtagjöldin og þar með vaxtabæturnar. Auk þess var það nefnt í umsögninni að margt benti til þess að vextir fari hækkandi.

Við fulltrúar Samf. í efh.- og viðskn. bentum fljótlega á að það væri afar líklegt að sú leið sem ríkisstjórnin væri að fara með skerðingu á vaxtabótunum, sem væri íþyngjandi afturvirk skerðing, stæðist ekki stjórnarskrána. Því óskuðum við eftir því formlega til efh.- og viðskn. með bréfi sem við skrifuðum formanni nefndarinnar, dags. 19. nóv., að efh.- og viðskn. léti vinna sjálfstætt lögfræðiálit um það hvort hætta væri á því að þetta ákvæði mundi skerða stjórnarskrána. Fjmrn. fór sjálft í þá breytingu þegar því varð ljóst að efh.- og viðskn. ætlaði að kalla eftir því að Lagastofnun háskólans yrði fengin til að gefa lögfræðiálit þannig að tvö lögfræðiálit voru unnin um málið.

Nú hefur komið á daginn að niðurstaða lögfræðingsins sem fjmrn. kallaði til, Skúla Magnússonar dósents við lagadeild Háskóla Íslands, var sú að hætta væri á því að dómstólar teldu skerðinguna andstæða 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eiríkur Tómasson prófessor, sem vann álitið fyrir efh.- og viðskn. um málið, komst að þeirri niðurstöðu að það bryti væntanlega í bága við stjórnarskrána að framkvæma afturvirka skerðingu á vaxtabótum með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í frv.

Herra forseti. Það er eins og þessi ríkisstjórn geti ekki beitt valdi sínu án þess að rekast með einum eða öðrum hætti á stjórnarskrána. Það er aftur og ítrekað, herra forseti, sem þarf að fara vel og vandlega yfir frumvörp ríkisstjórnarinnar út frá þeirri forsendu. Hér erum við að fjalla um það, herra forseti, að ríkisstjórnin er eina ferðina enn uppvís að því að ætla að leiða í lög ákvæði --- nú fyrir skulduga einstaklinga --- sem líklegt er að brjóti stjórnarskrána. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki lært lexíu sína þótt hún hafi á stuttum tíma ítrekað fengið úrskurð dómstóla um stjórnarskrárbrot, nú síðast í októbermánuði vegna brota á 77. gr. stjórnarskrárinnar gagnvart öryrkjum. Þess vegna hélt maður að ríkisstjórnin mundi nú passa sig frekar á því að þau mál sem hún kemur hér með fyrir þingið væru skotheld gagnvart því að brjóta ekki stjórnarskrána.

Hv. þm. Pétur Blöndal, formaður efh.- og viðskn., tíundaði það hér að þetta mál hefði verið lagt fram áður en dómstólar kváðu upp úrskurð sinn í októbermánuði vegna brota á 77. gr. stjórnarskrárinnar gagnvart öryrkjum. Þess heldur hefðu ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir átt að skoða þessa leið, ekki bara það sem þeir ætluðu í frv. eins og það var lagt fram heldur líka gagnvart síðari leiðinni sem ég ætla að koma nánar að rétt strax.

Hæstiréttur komst að því í októbermánuði að hinni umdeildu skerðingarreglu gagnvart öryrkjum yrði ekki beitt afturvirkt þar sem bótaþegar ættu kröfuréttindi til bóta í samræmi við reglur sem í gildi voru á þeim tíma þegar réttur til bóta stofnaðist og að þessi kröfuréttindi nytu verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Það er ástæða til þess að bera þennan dóm saman við áform ríkisstjórnarinnar nú. Varðandi síðari leiðina, um 10% regluna, skerðinguna á útgreiddum vaxtabótum, er alveg ljóst nú, þegar við erum komin vel inn í desembermánuð, að öll atvik hafa gerst sem myndað hafa kröfuna eða réttindi til vaxtabóta á næsta ári vegna vaxtagjalda sem féllu til á þessu ári, og ég held því fram að krafan stofnist þegar vaxtagjöldin falla til. Það er akkúrat eins og segir í þessum dómi Hæstaréttar að hinni umdeildu skerðingarreglu yrði ekki beitt afturvirkt þar sem bótaþegar ættu kröfuréttindi til bóta í samræmi við reglur sem í gildi voru á þeim tíma þegar réttur til bóta stofnaðist. Það er grundvallaratriði hvenær réttur til bóta stofnaðist, og réttur til vaxtabóta sem koma til útgreiðslu á næsta ári hefur stofnast á þessu ári og öll þau atvik hafa komið fram núna í desembermánuði sem mynda réttinn til þeirra bóta.

Síðan er full ástæða til að skoða líka í þessu samhengi mál Hæstaréttar frá 28. maí 2003. Þar var deilt um ákvæði laga er skerti afturvirkt skattaívilnun sem fólst í skattafslætti vegna hlutabréfakaupa. Niðurstaða Hæstaréttar varð sú að lagaákvæðið, að virtum þeim sjónarmiðum sem rakin voru í dómnum, fæli í sér afturvirkni sem bryti í bága við 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt þeirri tillögu sem nú er lögð til af hálfu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á að skerða útgreiddar vaxtabætur hjá öllum sem rétt eiga til vaxtabóta um 10% á árinu 2003. Eiríkur Tómasson prófessor gaf nefndinni álit sitt á þessari breyttu tillögu ríkisstjórnarinnar. Niðurstaða hans var sú að líkur væru á því að íslenskir dómstólar mundu komast að þeirri niðurstöðu að ráðgerð skerðing vaxtabóta á árinu 2003, með því að skerða vaxtabætur afturvirkt um 10% hjá öllum þeim sem rétt áttu á bótum samkvæmt núgildandi lögum, væri stjórnskipulega gild. Í lok álitsins kemur þó fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þó er ekki unnt að útiloka að dómstólarnir telji að með þeim hætti að skerða vaxtabætur afturvirkt með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir, sé svo vegið að réttaröryggi þeirra, sem fyrir skerðingunni verða, að hún brjóti í bága við stjórnarskrána.``

Engu að síður ætla stjórnarflokkarnir að fara fram með þessa breytingu og greinilega, herra forseti, beita afli sínu og valdi hér í þinginu til þess að gera þetta ákvæði að lögum.

Fyrsti minni hluti tekur undir það sem segir í lokaorðum Eiríks Tómassonar enda ljóst að réttaröryggi fær sífellt aukið vægi í dómum Hæstaréttar. Það var það sem Eiríkur Tómasson tók mjög fram í nefndinni, einmitt það að réttaröryggi fengi sífellt aukið vægi í dómum Hæstaréttar og það er einmitt það sem hann vitnar til í lokaorðum sínum.

Þrátt fyrir að Skúli Magnússon dósent hafi ekki fjallað um nýju útfærsluna í áliti sínu kom þó fram hjá honum á fundi nefndarinnar að þótt líklegt væri að hún stæðist væri ekki hægt að útiloka að sú tillaga gengi gegn stjórnarskránni, þ.e. þessi nýja útfærsla sem hér á að fara að lögfesta.

Það er ástæða til þess að halda því til haga, ítreka það sem ég sagði áðan, að það var aldrei í meðförum nefndarinnar á fyrri útfærslunni, sem nú er seinkað um eitt ár, gefið í skyn að sú leið gæti skert svo mikið vaxtabæturnar eins og nú er verið að halda fram. Hér er blað frá fjmrn. sem telur að hámarksskerðing vaxtabóta, miðað við 5,5% vaxtaprósentu á árinu 2003, geti orðið yfir 100 þús. hjá einstaklingi, hjá einstæðum foreldrum 131 þús. og hjá hjónum 163 þús. Þetta eru tölur sem voru aldrei nefndar í nefndinni --- og það veit ég að formaðurinn, sem hér situr getur vitnað um --- fyrr en þetta var dregið til baka. (PHB: Menn vita ...)

Síðan kemur fram hjá fjmrn. úttekt sem var beðið um í nefndinni, Vaxtabætur, álagning 2004, og þar er miðað við 5,5% vaxtaprósentu, eins og á að taka gildi eftir ár, og síðan þessa 10% skerðingu sem á að taka gildi vegna vaxtagjalda á þessu ári og útgreiddra vaxtabóta á næsta ári. Þar kemur fram hvernig meðalvaxtagjöld og meðalvaxtabætur verða miðað við þessa breytingu, og báðar leiðirnar eru mjög ámóta, herra forseti.

[16:30]

Ef þessir útreikningar eru réttir þá getur skerðingin í einhverjum tilvikum verið alveg upp í 163 þús. hjá hjónum. Þeir vita þá hvaða sendingu þeir eiga von á frá ríkis... (Gripið fram í.) Nei, ekki þessi skerðing, næsta skerðing sem á að taka gildi á árinu 2005 vegna vaxtagjalda 2004, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki fallið frá þeirri útfærslu. Það er alveg ljóst. Þá hlýtur það að standa sem fjmrn. hélt fram og Skúli Magnússon byggði álit sitt á, að skerðingin gæti orðið svo gífurleg hjá einstaklingum að hún gæti skipt heimili máli upp á um annað hundrað þúsund og það hefur fjmrn. staðfest hér. Þá er það sendingin sem heimilin geta átt von á á næsta ári vegna vaxtagjalda sem stofnast til á næsta ári vegna greiddra vaxtabóta þá á árinu 2005.

Það er alveg ljóst, herra forseti, og því skal skýrt haldið til haga, að ríkisstjórnin ætlar að taka verulega áhættu á því að ganga gegn stjórnarskránni með því að keyra þetta ákvæði í gegn og lögfesta það. Reyndar var ekki annað skilið af því sem fram kom hjá Eiríki Tómassyni prófessor en að umtalsverð hætta væri á að nýja útfærslan gengi gegn stjórnarskránni. Þetta kom nú bara fram í nefndinni og þýðir ekkert að hrista höfuðið yfir því, eins og formaður efh.- og viðskn. gerir hér, maðurinn sem hélt því fram í nefndinni og hefur alltaf haldið því fram að stjórnarskráin ætti að njóta vafans, ef hann væri fyrir hendi.

Hvað sagði Eiríkur Tómasson aðspurður í nefndinni? Hann sagði að þingmenn ættu ekki að standa að lagasetningu ef vafi léki á að hún stæðist stjórnarskrána. Það voru hans orð. Eiríkur Tómasson segir það beinlínis í áliti sínu, herra forseti, að það sé ekki útilokað --- hann segir það í lokin. Hans orð voru þau að umtalsverð hætta væri á að þetta nýja ákvæði bryti gegn stjórnarskránni. Þegar hann segir að þingmenn eigi ekki að standa að lagasetningu ef vafi leikur á að hún standist stjórnarskrána þá segir hann að ekki sé unnt að útiloka að dómstólarnir telji að með því að skerða vaxtabætur afturvirkt með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir, sé svo vegið að réttaröryggi þeirra, sem fyrir skerðingunni verða, að hún brjóti í bága við stjórnarskrána. Það þýðir ekkert annað í mínum huga, herra forseti, en að vafi leiki á því að þetta ákvæði sem hér á að keyra í gegn standist stjórnarskrána. Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir stjórnarliðar ætla að láta stjórnarskrána njóta vafans við atkvæðagreiðslu um þetta mál.

Í áliti Skúla Magnússonar kemur fram að mat á því hvort ná megi markmiðum frumvarpsins með öðrum og minna íþyngjandi hætti sé að meginstefnu til á forræði löggjafans. Líta verði líka til þess hvort skerðingar séu almennar, þ.e. hvort þær komi jafnt niður á mönnum og hvort þær varði þá mikla eða litla fjárhagslega hagsmuni. Þrátt fyrir þetta er athyglisvert að í áliti Skúla kemur fram að skerðingin á greiðslum fyrir árið 2003 sé til þess fallin að skerða fyrirvaralaust fjárhagslega hagsmuni heimilanna, enda hafi íbúðareigendur ekki haft möguleika á því að haga fjármálum sínum til samræmis við nýjar reglur. Í áliti hans kemur einnig fram að í byrjun desember 2003 muni þau atvik vera að miklu leyti komin fram sem ráða fjárhæð vaxtabóta. Orðrétt segir síðan, með leyfi forseta:

,,Er það álit mitt að rétthafar vaxtabóta megi almennt treysta því að þeir fái greiddar vaxtabætur fyrir þann tíma ársins sem liðinn er samkvæmt þeim reglum sem hafa verið í gildi á árinu.

Samkvæmt framangreindu er það álit mitt að réttur til vaxtabóta fyrir þann hluta ársins 2003, sem liðinn er, njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Haggar það ekki stjórnskipulegri vernd þessa réttar þótt hann verði ekki að fullu ákveðinn og endanlegur fyrr en í árslok 2003 og ekki gjaldkræfur fyrr en við lok álagningar á árinu 2004.``

Síðan er tekið fram að það atriði kunni að leiða til þess að löggjafanum sé játað rýmri heimildum við skerðingu þessa réttar.

Það er athyglisvert að Skúli Magnússon tók beinlínis fram að ef þetta ákvæði verður lögfest hálfum mánuði seinna en nú á að gera þá væri engum vafa undirorpið að það standist ekki stjórnarskrána. Hann segir það líka hér, herra forseti, sem ég ætla að vitna aftur til, með leyfi forseta:

,,Haggar það ekki stjórnskipulegri vernd þessa réttar þótt hann verði ekki að fullu ákveðinn og endanlegur fyrr en í árslok 2003 og ekki gjaldkræfur fyrr en við lok álagningar á árinu 2004.``

Auk þess kemur fram í áliti Skúla að ekki sé útilokað að réttur til vaxtabóta, sem þegar er tekinn að myndast, falli undir eignarréttarhugtak ákvæðisins þótt rétturinn sé ekki endanlega orðinn til eða virkur. Orðrétt segir síðan í álitinu, með leyfi forseta:

,,Styðst það við þau rök, sem áður greinir, að rétthafi bóta getur með nokkurri nákvæmni áætlað fjárhæð þeirra bóta sem hann mun eiga rétt á fyrir það tímabil sem liðið er.``

Herra forseti. Fólk á að geta treyst því að þær ráðstafanir sem það hefur gert um fjármál sín haldi og ekki sé gripið til afturvirkra skerðinga. Fólk gerir áætlanir. Margt fólk hefur gert áætlanir á þessu ári. Það hefur gert greiðsluáætlanir sem gerðar eru nú í bönkum og lánastofnunum fyrir fólk. Þegar þar er reiknuð út árlega greiðslubyrði hjá fólki eða mánaðarlega greiðslubyrði, er teknar með í þá útreikninga þær vaxtabætur sem falla til vegna vaxtagjalda af þeim lánum sem stofnað hefur verið til. Hér er því verið að raska verulega fjárhagsáætlunum sem fólk hefur gert.

Ég vitna líka til þess, herra forseti, að í áliti Eiríks Tómassonar er því einnig lýst að réttur til vaxtabóta á árinu 2004, sem þegar hefur myndast að verulegu leyti, teljist til eignarréttinda í skilningi stjórnarskrárinnar.

Þessi sjónarmið sem ég hef hér lýst eru ótvíræð rök sem styðja þau sjónarmið 1. minni hluta að atvikin sem mynda réttinn hafi þegar orðið og að réttindi stofnist þegar vaxtagjöldin falli til. Afar líklegt er því að skerðing á þeim réttindum gangi gegn stjórnarskránni, ekki síst þegar vel er liðið á desembermánuð og öll helstu atvik komin fram sem ráða fjárhæð vaxtabóta. Hér er því um íþyngjandi afturvirkt ákvæði að ræða og umtalsverð hætta á að það gangi gegn stjórnarskránni.

Í þeim tveimur lögfræðiálitum sem liggja fyrir í málinu er ljóst að skiptar skoðanir eru um hvort og þá að hve miklu leyti vaxtabætur tengjast skattkerfinu eða séu hluti af því. Þannig heldur Skúli Magnússon því fram í sínu áliti að 77. gr. stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkni skatta eigi ekki við um þá breytingu sem frumvarpið gerði ráð fyrir varðandi skerðingu vaxtabóta. Telur hann að ekkert beint samband sé milli álagningar skatta og greiðslu vaxtabóta. og hans rök, álit og vafamál sem koma fram í hans áliti byggjast fyrst og fremst á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Eiríkur Tómasson telur aftur á móti að vaxtabætur séu hluti af skattkerfinu. Hann vitnar til hæstaréttardóma þar sem Hæstiréttur hafi skýrt ákvæði 77. gr. um bann við afturvirkni skattalaga á þann veg að breyting á frádráttarheimild, sem leiðir til hærri skattgreiðslu, falli undir ákvæðið sé sú breyting gerð með afturvirkum hætti. Er það skoðun Eiríks að hin nánu tengsl vaxtabóta við skattkerfið kunni, ásamt öðrum atriðum, að hafa áhrif á úrlausn dómstóla á því hvort afturvirk skerðing bótanna, eins og hún er ráðgerð, teljist stjórnskipulega gild.

Hann segir einmitt í áliti sínu að mælt sé fyrir um vaxtabætur í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og bæturnar ákvarðaðar á grundvelli upplýsinga í skattframtali um leið og álagning skatta fer fram. Þótt vaxtabætur taki fyrst og fremst mið af vaxtagjöldum framteljenda eru þeim sett takmörk sem miðast nánar tiltekið við tekjur og eignir framteljenda. Jafnframt sé kveðið á um að bótunum verði m.a. skuldajafnað á móti sköttum og öðrum gjöldum. Telur Eiríkur Tómasson að vaxtabæturnar séu nokkurs konar framhald á vaxtafrádrættinum sem áður tíðkaðist, áður en vaxtabæturnar komu til.

Það hlýtur einnig að vega þungt um íþyngjandi afturvirk ákvæði frumvarpsins að stór hópur skuldugra einstaklinga hefur nýtt sér ákvæði um fyrirframgreiðslu vaxtabóta og þegar fengið þær greiddar vegna vaxtagjalda sem falla til á árinu 2003. Ég trúi því ekki að hæstv. dómsmrh. sem hér gengur í salinn ætli að standa að því að brjóta stjórnarskrána með þeim hætti sem við höfum verið að fara yfir. Ég býst við að hæstv. dómsmrh. sé kominn hingað úr ráðuneyti sínu til þess að hlýða á málflutning okkar sem höldum því fram að ráðherrann hafi nokkrar áhyggjur af þeirri leið sem hér á að fara, þ.e. að tefla á tæpasta vað varðandi stjórnarskrána og að hann sé að vega og meta atkvæði sitt sem hér á að falla til á eftir eða morgun, þ.e. hvernig hann ætli að verja því. Það er afar skynsamlegt hjá hæstv. dómsmrh. að hlaupa ekkert hér til og greiða atkvæði án þess að hafa hugsað málið og í blindni greiða þessu atkvæði sem líklegt er að brjóti stjórnarskrána.

Herra forseti. Það hlýtur að vera mjög alvarlegt gagnvart þeim 3.000 einstaklingum sem hafa fengið fyrir fram greiddar vaxtabætur á þessu ári vegna vaxtagjalda sem féllu til á þessu ári að eiga að endurgreiða þær að hluta til í ágústmánuði, um þau 10% sem á að fara að skerða þær um. Þetta eru vaxtabætur sem þeir þegar hafa fengið greiddar upp í hendurnar.

Hverjir eru þessir 3.000 einstaklingar? Hverjir geta fengið fyrir fram greiddar vaxtabætur? Það eru þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er unga fólkið sem svona á að fara með. Það hefur fengið vaxtabæturnar greiddar, er væntanlega búið að eyða þeim annaðhvort til þess að greiða niður lán sín eða á annan hátt. En þetta á að endurgreiðast. Þetta viðurkenndu nú báðir lögfræðingarnir, herra forseti, að styddi við það að hér gæti verið um stjórnarskrárbrot að ræða.

En þessara 3.000 einstaklinga bíður nú, ef þetta ákvæði nær fram að ganga, að endurgreiða 10% af þeim vaxtabótum sem þeir hafa fengið á þessu ári vegna áfallinna vaxtagjalda á árinu. Um gæti verið að ræða 26 þús. kr. hjá hjónum, 20 þús. hjá einstæðu foreldri og um 16 þús. kr. hjá einstaklingi.

Herra forseti. Varðandi þennan þátt frv. vil ég segja að 1. minni hlutinn átelur ríkisstjórnina harðlega fyrir að ætla að skerða vaxtabætur um 600 millj. kr. á næsta ári, ekki síst í ljósi þess að umtalsverð áhætta er þar tekin að eina ferðina enn sé verið að ganga í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ekki er ólíklegt að einhver þeirra yfir 50 þúsund einstaklinga sem eru rétthafar vaxtabóta vegna vaxtagjalda sem falla til á þessu ári og gert er að sæta íþyngjandi afturvirkum fjárhagslegum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar leiti réttar síns fyrir dómstólum. Það er alls ekki ólíklegt, herra forseti, að einhver af þessum 50 þúsund einstaklingum láti á það reyna fyrir dómstólunum hvort verið sé að ganga á rétt hans með þeirri skerðingu sem hér á að ganga yfir rétt fyrir jólin.

Ég verð að segja það líka, herra forseti, að það er ámælisvert að þegar komin er ný útfærsla á skerðingu á vaxtabótum þá lætur meiri hlutinn ekki svo lítið að leita til aðila eins og ASÍ eða BSRB um hvað þeir segja við þessari nýju útfærslu. Við gengum nokkuð hart eftir því við meiri hluta efh.- og viðskn. að a.m.k. fulltrúar ASÍ og BSRB yrðu kallaðir fyrir nefndina til þess að við fengjum að heyra álit hinni á þeirri nýju útfærslu sem þeir ætla að beita varðandi skerðinguna. En ekki var við því orðið. Það var einungis við því orðið að senda ASÍ þessa breytingartillögu eftir að málið var tekið út úr nefndinni. Í dag barst okkur umsögn Alþýðusambandsins um þessa nýju skerðingu, þessa 10% skerðingu. Skal ég nú ekki tefja fundinn, herra forseti, með því að lesa allt bréfið. En þar kemur fram, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands leggst gegn þeirri tillögu að draga úr vaxtabótum um 10% til að auka skatttekjur ríkissjóðs, þar sem slík skerðing vaxtabóta hefði í för með sér auknar skattgreiðslur þeirra sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Sérstaklega vill Alþýðusambandið gera athugasemd við þá fyrirætlan að láta ákvæðið gilda með afturvirkum hætti og hafa þannig áhrif á skattgreiðslur rúmlega 34.000 einstaklinga til hækkunar. Slíkt er ekki með nokkru móti ásættanlegt.``

[16:45]

Ég vil vekja athygli á því að hér er sagt 34.000 einstaklingar. Ég talaði um yfir 50.000 áðan en hjón eru talin sem einn aðili í þessum tölum og út frá því er rætt um 34.000 einstaklinga. Í þeim tölum sem ég nefni, yfir 50.000 sem eru reyndar um 56.000, eru einstaklingarnir taldir hver fyrir sig en ekki gert eins og af hálfu ASÍ.

Varðandi hátekjuskattinn, sem ég ætla að víkja að næst, vil ég segja að til stendur að lækka hátekjuskatt í áföngum og fella hann loks brott. Þar eru enn ein svik sjálfstæðismanna við kjósendur. Þeir lofuðu að skatturinn yrði ekki framlengdur um þessi áramót eins og til stóð. Í stað þess að fella hann brott verður hann 4% á næsta ári. Hann á að lækka á þar næsta ári og síðan að falla brott samkvæmt þeim áformum sem ríkisstjórnin hefur nú uppi. En 1. minni hluti ítrekar þá skoðun sína að það er ekki forgangsverkefni að fella niður hátekjuskattinn meðan persónuafsláttur, barnabætur og vaxtabætur eru skertar. Ríkisstjórnin er að auka skattbyrði almenns launafólks með því að breyta viðmiðunarfjárhæðum í skattalögum einungis í samræmi við áætlað verðlag, eins og ég kom inn á áðan í upphafi máls míns.

Ástæða er til að halda til haga að á tíu ára tímabili, frá árinu 1993 til 2002, þegar litið er til tekjuskatts einstaklinga, hefur ríkisstjórnin gegnumgangandi yfirleitt miðað við neysluverðsvísitölu eða verðlagsvísitölu en ekki launavísitölu. Hefði verið miðað við launavísitölu hefðu vaxtabæturnar, persónuafslátturinn og barnabæturnar orðið 29% hærri en þegar miðað er við vísitölu neysluverðs eins og þessi ríkisstjórn hefur gert. Þar er því um 29% mun að ræða.

Varðandi hátekjuskattinn þá eru þetta um 1.773 millj. kr., sýnist mér, sem ríkisstjórnin eða fjmrn. gerir ráð fyrir vegna álagningar hans á árinu 2003. Spurt var hvað ríkissjóður hefði í tekjur ef tekjumark í hátekjuskatti yrði hækkað. Mörgum finnst það afar lágt, sérstaklega hjá einstaklingum, um 340 þús. kr. og tvöfalt það hjá hjónum, sem er kannski bærilegt. Það er ekki mjög hátt hjá einstaklingum, um 340 þús. kr. En það mundi skerða tekjur ríkissjóðs, sem eru um 1.700 millj. kr., um 1 milljarð kr.

Ég þarf ekki að fara í aðrar breytingar, herra forseti. Lagt er til að fella á brott ákvæði laga um alþjóðleg viðskiptafélög, sem við styðjum. Auk þess eru lagðar til breytingar sem fela í sér einföldun á skatteftirliti og einföldun á skattaframkvæmdinni, sem við styðjum einnig. Aðrar breytingar eru til að leiðrétta mistök, m.a. tilvísanir í gildandi lögum sem leiða til þess að ekki er samræmi í heildarskattlagningu, þ.e. skattlagningu félaga og einstaklinga, að því er varðar samlagsfélög og sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila annars vegar og samlaga, samtaka og annarra lögaðila hins vegar. Það ber okkur auðvitað að styðja.

Það er ástæða til þess í lokin, herra forseti, að vísa í umsögn fjölskylduráðs. Fjölskylduráð er ráð sem þessi ríkisstjórn kom á fót, ef ég man rétt, til þess að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar í málefnum sem snerta fjölskylduna, m.a. varðandi skattabreytingar, varðandi skerðingar á vaxtabótum, barnabótum o.s.frv.

Ég ætla að lesa upp það sem fjölskylduráð segir um þessa fyrirætlan ríkisstjórnarinnar en þar segir, með leyfi forseta:

,,Fjölskylduráð telur að þessi áform [þ.e. að draga úr vaxtabótum] muni íþyngja mörgum heimilum sem hafi reiknað með a.m.k. jafnháum vaxtabótum og þegar það gerði húsnæðiskaup sín. Fjölskylduráð telur að stjórnvöld eigi að setja sér þau almennu markmið gagnvart fjölskyldufólki, að fjölskyldur geti gert langtímaáætlanir um fjármögnun húsnæðiskostnaðar. Fjölskylduráð telur mjög óeðlilegt að kynna með þessum hætti breytingar á skattstofnum og útreikningum skatta sem geta með þeim hætti kollvarpað áætlunum fólks í húsnæðismálum og þannig stefnt fjárhagslegri stöðu þeirra í mikinn vanda.

Þá bendir fjölskylduráð á að þessi breyting getur íþyngt verulega fjölskyldufólki með þunga greiðslubyrði og háar skuldir.

Fjölskylduráð telur að þau markmið sem stjórnvöld hafa kynnt um hækkun lána til húsnæðismála fari ekki saman við lækkun vaxtabóta.

Fjölskylduráð mælir því gegn þessari breytingu á frumvarpinu.``

Ég hygg að ríkisstjórnin hafi ekki sent þetta mál til fjölskylduráðs til umsagnar, eins og hún á að gera samkvæmt lögum. Hún sendir ekkert mál til fjölskylduráðs. (PHB: En Verslunarráðið?) Verslunarráðið er allt annar handleggur. Verslunarráð fær hvað eina sem hér kemur á borð þingmanna til umsagnar. Hér skrifar formaður fjölskylduráðs undir álitið, Drífa Sigfúsdóttir. Að því er ég best veit þá kannast hún a.m.k. vel við Framsfl. En þeir fara greinilega ekki eftir því sem hún segir, þó að hún sé með góðar og gagnlegar ábendingar til þeirra um að ráðast ekki með þessum hætti á kjör fólks í landinu.

Herra forseti. Niðurstaða okkar í 1. minni hluta nefndarinnar er sú að við munum greiða atkvæði gegn frv. í heild sinni vegna ákvæðanna um íþyngjandi afturvirkni vaxtabóta, sem veruleg hætta er á að standist ekki stjórnarskrána. 1. minni hluti átelur það harðlega auk þess sem verið er að þyngja skattbyrði almenns launafólks með því að færa viðmiðunarfjárhæðir skattalaga einungis til samræmis við verðlagsbreytingar, eins og ákvæði skattalaga um persónuafslátt, barna- og vaxtabætur.