Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 16:59:32 (3200)

2003-12-11 16:59:32# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[16:59]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst af orðum hv. þm. að hann hefur miklu meiri áhyggjur af hátekjumönnum en lágtekjumönnum. Við erum hér fyrst og fremst að ræða skerðingu á vaxtabótum en hann kemur alltaf inn á hátekjuskattinn og teflir fram rökum um að ekki eigi að vera hér hátekjuskattur.

Varðandi vaxtabæturnar og skerðinguna sem nú er áformuð þá er um að ræða flata skerðingu sem gengur yfir alla, jafnt þá sem hafa litlar tekjur og þá sem hafa háar tekjur. Þetta fólk hefur gert áætlanir eins og hv. þm. nefndi varðandi fólkið með hátekjuskattinn. Það hefur gert greiðsluáætlanir, eins og það á að gera lögum samkvæmt þegar það sækir um greiðslumat. Því er öllu kollvarpað vegna þess að greiðslubyrðin sem er reiknuð út í bönkunum miðast við að viðkomandi fái vaxtabætur og þar með lægri greiðslubyrði.

Nú ætlar hv. þm. að standa að því skerða kjör þessa fólks um 10% af útgreiddum vaxtabótum á næsta ári, herra forseti, sem hefur fengið vaxtabæturnar greiddar fyrir fram. Það er fyrst og fremst fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn. Það er komið með vaxtabæturnar í hendurnar og hefur væntanlega látið þær ganga upp í greiðslu eða afborgun af láni. Nú ætlar hv. þm. að standa að því að þetta fólk skili aftur inn í ríkissjóð 10% af því sem það fékk greitt út.

Þetta er til háborinnar skammar fyrir þessa ríkisstjórn. Hv. þm. skal huga vel að því að það er næsta víst að einhver mun leita með þetta mál til dómstóla. Þá skal hann rifja upp það sem hann sagði, hv. þm., að stjórnarskráin eigi að njóta vafans, ef einhver er. Þarna leikur verulegur vafi á og eins og Eiríkur Tómasson prófessor sagði á fundinum er umtalsverð áhætta á ferðinni, að það gæti verið um að ræða brot á stjórnarskránni.