Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:54:09 (3212)

2003-12-11 17:54:09# 130. lþ. 48.12 fundur 11. mál: #A virðisaukaskattur# (hljóðbækur) frv. 145/2003, StP
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:54]

Steinunn K. Pétursdóttir:

Frú forseti. Ég vil fá að nota þetta tækifæri til að þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir þann góða hljómgrunn sem þetta frv. hlaut þar. Eins og fram hefur komið teljum við lækkun virðisaukaskatts á hljóðbækur mikið réttlætismál fyrir þá sem hlut eiga að máli. Með því er dregið úr mismunun milli fatlaðra og ófatlaðra. Við í Frjálsl. fögnum því að við virðumst deila þessu sjónarmiði með hv. efh.- og viðskn. og væntanlega meiri hluta Alþingis.

Þær brtt. sem fram hafa komið við frv. eru fullkomlega ásættanlegar af okkar hálfu. Þær eru eingöngu til þess fallnar að valda ekki vafa í framkvæmd laganna. Við vonumst til þess að lög þessi muni verða þess valdandi að útgáfa hljóðbóka muni aukast til hagsbóta fyrir þá sem blindir eru og sjónskertir auk þeirra sem njóta þess að hlusta á góðan lestur góðra bóka.