Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:39:18 (3280)

2003-12-12 12:39:18# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:39]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þm. að hann var ekki tilbúinn til þess að styðja frv. og lagði sérstaka áherslu á forsenduna fyrir því að hann var ekki tilbúinn til þess, hann teldi málið vera illa undirbúið og að ekki hefði gefist nægur tími til þess að vinna málið í nefnd. Þrátt fyrir það var hv. þm. tilbúinn til þess að styðja það og lýsti því yfir að hann mundi styðja það og sagði að hann teldi tryggt eða öruggt (Gripið fram í: Reiknaði með.) reiknaði með að Samf. mundi fylgja honum í því að styðja þær hugmyndir sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafði lagt fram, sem að vísu ganga í sömu átt og verið er að fjalla um í þessu frv. Þá þurfti hann ekki mikinn tíma til þess að vinna það og taldi greinilega að það lægi alveg gríðarlega mikill og langur og vandaður undirbúningur að baki þeim tillögum sem þar voru lagðar fram. Svo kemur hann hingað upp og er á móti frv. Það var reyndar athyglisvert í 1. umr. að það tók mjög langan tíma fyrir hv. þm. sem fylgdust með umræðunni að átta sig á því hver væri hin raunverulega afstaða Samf. Það voru mjög mismunandi og misvísandi áherslur í málflutningi hv. þm. Samf., ég held að það geti enginn velkst í neinum vafa um það. Það virðist vera orðið þannig að Samf. kemur sér örsjaldan saman um mál og yfirleitt endar það með því að hún kemur sér saman um það að vera á móti. Hún er næstum því að verða eins og vinstri grænir í þessu, að vera bara á móti af því þeir koma sér ekki saman um annað. (JBjarn: Bíddu nú við, nú ertu ómálefnalegur.)