Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:28:38 (3303)

2003-12-12 16:28:38# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), AKG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Við umfjöllun um sameiningu sjúkrahúsanna ber að hafa í huga að úttektin var gerð á þeim áður en sameiningarferlinu var að fullu lokið. Breytingaferlið stendur í raun enn yfir, samanber þau átök sem nú eiga sér stað vegna banns við starfsemi á einkastofu samhliða yfirlæknisstöðu. Undirbúningur sameiningarinnar var ekki markviss, bæði vantaði tíma- og kostnaðaráætlun og aldrei var áætlað fjármagn til að standa straum af breytingum sem óhjákvæmilega fylgja sameiningu.

Í skýrslunni kemur fram að teknar hafi verið upp nýjungar í gæðastjórnun, svonefnd DRG-flokkun, til að meta starfsemi og þjónustu sjúkrahússins og hvernig fé verði best varið innan þess. Fær sjúkrahúsið sérstakt hrós frá erlendum matsaðilum fyrir hve vel hefur til tekist. Kerfið er nýkomið í notkun en mun væntanlega skila sér með tímanum.

Landspítalinn fær einnig háa einkunn fyrir góða þjónustu og sjúklingum þess reiðir í flestum tilfellum betur af en sjúklingum á bresku háskólasjúkrahúsunum sem til viðmiðunar voru.

[16:30]

Við endurskoðun og stefnumótun fyrir sjúkrahúsið hljótum við að spyrja okkur hvað þröngar skorður, sem heilbrigðisstofnunum víða um land eru settar, þýða fyrir rekstur Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Þær þurfa að draga saman seglin og loka deildum tímabundið. Það hefur í för með sér að sjúklingar leita til Reykjavíkur, oft í dýrari þjónustu og sjúkrarými en fyrir hendi eru á heimaslóð.

Skýrsluna er hægt að nýta á uppbyggilegan hátt en á meðan unnið er að endurskipulagningu starfseminnar er ábyrgðarhluti að skapa stofnuninni ekki tækifæri og skilyrði til að veita landsmönnum þá þjónustu sem þeir þurfa.