Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:10:00 (3376)

2003-12-13 12:10:00# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Þuríður Backman (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að hlaupa frá einstökum atriðum þessa máls vegna einhvers utanaðkomandi þrýstings. Ég hafði þennan fyrirvara á og það er alveg ljóst hvers vegna ég var meðflutningsmaður á þessu frv. sem fulltrúi í forsn. Ég tek það fram og tek undir það að ástæða er til að styrkja stöðu stjórnarandstöðuflokkanna pólitískt, þ.e. með hærri framlögum til flokkanna, þannig að starf þeirra geti verið öflugra. Ég tel líka að það eigi að bæta stöðu formanna stjórnarandstöðuflokkanna þannig að þeir standi betur að vígi gagnvart ráðherrum og öðrum þeim í forustu stjórnarliða sem hafa miklu betri aðstöðu en formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa. Ég nefndi líka áðan að ég tel rétt að skoða hvort þessi framlög til að styrkja stöðu formannanna eigi þá ekki að koma í gegnum framlögin til flokkanna eins og verið er að eyrnamerkja til flokkanna, almennt, vegna kjördæmabreytinga, og nýr liður gæti bæst við vegna formanna flokkanna. Það má skoða hvort ekki sé hægt að styrkja stöðu þeirra í gegnum þau framlög. (Gripið fram í.) En nú er þetta kerfi í gangi hér á þingi. Það er verið að greiða ... (Gripið fram í: Þið hafið haft mörg tækifæri til að gera það.) Framlögin eru það lág að við höfum ekki klipið af þeim, frú forseti.

Það var vitað að ekki yrði stuðningur frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það var ljóst, og það var líka ljóst hvers vegna ég var meðflutningsmaður á þessu máli þannig að ég er ekki að hlaupa frá einu eða neinu.