Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 12:54:11 (3395)

2003-12-13 12:54:11# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[12:54]

Gunnar Örlygsson:

Frú forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er að mínu mati klæðskerasaumað fyrir þá ríkisstjórn sem hér situr. Áður en ég fer ofan í efnisatriði málsins vil ég gera grein fyrir því að frá fyrsta degi þessa frv. hef ég verið á móti því. Ástæðan fyrir því að ég er á móti frv. er fyrst og fremst sú að hér er um grundvallaratriði að ræða að mínu mati, að þingmenn, ráðherrar, dómarar og aðrir njóti sömu lífeyriskjara og annað fólk í landinu. Ég hef rætt þetta mál í þaula, m.a. við reynslumikla þingmenn. Það sem virðist standa upp úr í þeim samræðum er fyrst og fremst það að ástæða þess að þingmenn og aðrir embættismenn njóti sérkjara er varða lífeyrissjóðsmál sé vegna þess að erfitt sé fyrir þá að finna önnur störf eftir að störfum þeirra lýkur.

Ég hef starfað í fiskverkun. Ég hef starfað á mörgum skipum, smáum og stórum. Ég get ekki betur séð en að einmitt þetta fólk, fiskverkunarfólk, sjómenn og aðrir launamenn í landinu búi við nákvæmlega sama óöryggi og þeir þingmenn sem ljúka störfum á hinu háa Alþingi. Við erum með frjálst framsal í sjávarútvegi þar sem atvinnuöryggi þeirra sem starfa í greininni er afskaplega bágborið. Við erum með starfsfólk á Keflavíkurflugvelli sem veit ekki nákvæmlega hvað bíður þeirra. Hver eru réttindi þessa fólks umfram okkur? Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef frá fyrsta degi verið andsnúinn þessu frv.

Efnisatriði frv. eru að mínu mati tvíþætt: Í fyrsta lagi er verið að tala um aukin lífeyrissjóðsréttindi og hef ég gert grein fyrir máli mínu þar. Í annan stað er verið að tala um kauphækkanir hjá ákveðnum aðilum úr röðum þingmanna og ráðherra. Ég man ekki betur en að fyrir sex mánuðum hafi laun okkar hækkað um 10%. Núna, sex mánuðum síðar, er verið að tala um kauphækkun hjá ákveðnum aðilum upp að 50% og hjá öðrum um 5% eða svo.

Mér finnst mjög athyglisvert í þessu frv. og það sem mér finnst standa hæst, frú forseti, er að ákvæðið um kjör forsrh. er eftirfarandi:

,,Ef fyrrverandi forsætisráðherra`` --- ég leyfi mér að lesa úr frv., frú forseti. --- ,,hefur gegnt embættinu lengur en eitt kjörtímabil, þ.e. lengur en fjögur ár, verða eftirlaunin 70% og 80% hafi hann gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil.``

Þetta finnst mér standa hæst í þessu frumvarpi. Það segir áfram í frumvarpinu að fyrrverandi forsætisráðherra njóti þessara lífeyrissjóðskjara um leið og hann nær 55 ára aldri hafi hann starfað sem forsætisráðherra lengur en átta ár.

Þetta finnst mér einkennilegt. Ég veit ekki hve gamall hæstv. forsrh. Davíð Oddsson er nákvæmlega í dag, en þetta segir mér að ef hann er 55 ára, ef við leyfum okkur aðeins að geta í eyðurnar, þýðir það að samkvæmt þessu fær hann 80% af núverandi launum ef hann hættir sem forsrh. og biðtíma lýkur sem eru sex mánuðir, þau fimm eða tíu ár sem annars hefðu ekki orðið. Þetta eru miklir peningar.

Ég get ekki betur séð en að sá maður sem í heilagri reiði sinni gekk í Búnaðarbankann og tók þar út peninga sína fyrir þær sakir að ákveðnir aðilar í bankaumhverfinu á Íslandi voru að veita sér ákveðin réttindi er varða kaupréttarsamninga, sé í þessu frv. að hygla sjálfum sér svo tugum milljóna skiptir. Það er mitt álit.

Í ljósi alls þessa, frú forseti, tilkynni ég hér með að ég mun ekki greiða atkvæði með þessu frumvarpi.