Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:33:15 (3424)

2003-12-13 14:33:15# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að láta það í ljós að fremur ánægjulegt er að hlusta á hvernig hv. þm., Vestfirðingurinn Einar Oddur Kristjánsson, setur fram mál sitt. Ég kem hérna bara til að lýsa yfir ánægju minni með þær upplýsingar sem hann setti fram vegna þess að ég var svo áhyggjufull þegar ég hlýddi á ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þegar hann spurði hvort óeðlilegt væri að forsrh. fengi 80% eins og forseti Íslands og hæstaréttardómarar. En nú hefur komið fram að ekki halda allir þingmenn Sjálfstfl. að verið sé að samræma 80% við hæstaréttardómara því að það eru aðeins þeir sem eru stutt í starfi sem hæstaréttardómarar og hætta fyrir aldur sem fá 80% hlutfall vegna þess að það er í lögum að hæstaréttardómarar fái 100% laun ef þeir hafa verið í starfi í 12 ár og ef þeir hætta um sextugt.

Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvað við erum að ræða um í frv. og út af orðum hv. þm. má auðvitað ætla svo að hann telji að forsrh. ætti þá að fá 100% laun, en ekki er talað um það í frv. Einnig má hugsa sér og setja fram spurninguna: Ef verið er að samræma svona mikið, af hverju teljum við þá ekki eðlilegt að forseti Íslands sem verður sextugur og er búinn að sitja þrjú kjörtímabil eða 12 ár fái full laun? Það er frekar óþægilegt, eins og umræðan fer fram og ég tek undir það með þingmanninum, og afskaplega ómálefnalegt lengst af ef maður hefur svo í ofanálag á tilfinningunni að þingmenn sem fara annaðhvort í ræðu eða andsvör viti ekki um hvað frv. fjallar. Ég er því eiginlega að hæla þingmanninum.