Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:23:04 (3461)

2003-12-13 16:23:04# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki komið fram áður í þessari umræðu að þrír af fjórum þingmönnum Frjálsl. hafi verið andsnúnir málinu frá upphafi. Ég vil segja um það, herra forseti, að mér finnst ólíklegt að Frjálsl. leggi til flutningsmann á málið ef meiri hluti þingflokksins er á móti málinu. Á einhverju stigi hljóta menn að hafa ákveðið að leggja málið fram og það hlotið blessun þingflokksins.

Ég vil segja, herra forseti, að ekki batnar trúverðugleiki Frjálsl. við þessar upplýsingar því það dregur fram að formaður flokksins sem vann að málinu, samþykkti málið, stendur að flutningi þess, hefur engan stuðning í sínum flokki lengur við það. (Gripið fram í.)