Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:28:40 (3464)

2003-12-13 16:28:40# 130. lþ. 50.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er að koma til atkvæða svokölluð línuívilnun stjórnarflokkanna. Í nefndarstarfinu kom fram að málið er afar illa undirbúið enda þvingað fram með þrýstingi frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Með frv. er verið að leggja af svokallaðan byggðakvóta og byggðapotta sem hafa verið undanfarin ár. Allri meðferð slíkra mála er nú vísað til hæstv. sjútvrh. sem er nú ekki frægastur fyrir það að vilja yfirleitt hafa neina byggðapotta í gangi eða byggðakvóta. Það var engin leið að átta sig á því í nefndarstarfinu hvaða áhrif þessar breytingar mundu hafa í hinum ýmsu byggðarlögum sem þurft hafa að reiða sig á aflaheimildir úr byggðapottum undanfarinna ára. Þeir verða sem sagt uppurnir á næstu tveimur árum.

Þeir sem veiða með beitningatrektum eru líka skildir eftir og ekki hafðir með í þessari línuívilnun. Það er ekkert tekið á málefnum dagabáta. Það er svo að allir utan einn þeirra aðila sem veittu umsögn um málið lögðust gegn þessari tillögu sem hér liggur fyrir. Meira að segja höfundar og aðalbaráttuaðilarnir fyrir línuívilnun, þ.e. forsvarsmenn smábátaeigenda, leggjast gegn þessu máli í þeirri mynd sem það liggur núna fyrir. Samfylkingin mun greiða atkvæði gegn öllum greinum þessa máls eins og það liggur fyrir og gegn málinu í heild að lokum.