Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 30. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 30  —  30. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,


Anna Kristín Gunnarsdóttir, Helgi Hjörvar.


    1. gr.

    Í stað tölunnar „50“ í 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: 1.000.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Ákvæði 2. mgr. 6. gr. um 1.000 íbúa lágmarksíbúatölu í þrjú ár samfleytt skal miðast við íbúafjölda í sveitarfélagi frá og með 1. janúar 2004.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 126., 127. og 128. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Er frumvarpið flutt að nýju efnislega óbreytt.
    Efling sveitarfélaga er afar mikilvægur þáttur í því að tryggja íbúum landsins góð lífsskilyrði. Mikið var fjallað um hlutverk sveitarfélaganna og möguleika þeirra á að sinna því fyrir tæpum áratug. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, skipaði „sveitarfélaganefnd“ í febrúar 1992. Nefndin skilaði lokaskýrslu í mars 1993. Í kjölfar aðgerða sem ákveðnar voru af stjórnvöldum í framhaldi af starfi nefndarinnar urðu verulegar breytingar á stærð og fjölda sveitarfélaganna. Sveitarfélög sameinuðust víða og sums staðar urðu þau afar víðáttumikil. Fyrir tíu árum voru sveitarfélögin 204 en þau eru nú 105. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist sitja þó víða eftir örsmá sveitarfélög sem geta illa sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt lögum.
Pólitískur vilji til þess að stækka og efla sveitarfélögin í landinu og færa til þeirra fleiri verkefni frá hinu opinbera virðist vera almennur. Fyrirætlanir stjórnvalda um átak í þessu efni liggja nú fyrir. En jafnframt hefur komið skýrt fram að ekki skuli hrófla við ákvæði sveitarstjórnarlaga um að lágmarksíbúafjöldi í sveitarfélagi skuli vera 50 manns. Möguleikar til að flytja verkefni frá hinu opinbera til sveitarfélaganna byggist á þeirri forsendu að öll sveitarfélög geti veitt svipaða þjónustu og tekið að sér sambærileg verkefni. Eigi að hafa þetta sjónarmið að forsendu mun þróun í þá átt að flytja verkefni til sveitarfélaganna frá hinu opinbera ekki ná fram nema þau smáu sameinist og myndi þannig nægilega öflug samfélög til að standa jafnfætis öðrum. Enginn vafi er á því að efling sveitarfélaganna, skilgreining á þeim búsetuskilyrðum sem þau verða að geta boðið og flutningur verkefna til þeirra er forsenda þess að byggð geti haldist og þróast víða um land. Það er því eitt brýnasta verkefni byggðamálanna að efla og stækka sveitarfélög á landsbyggðinni.
Ástæður þess að sameining smárra sveitarfélaga hefur gengið hægt eru margvíslegar. Gamlar hefðir og áhrif ráðamanna í héraði valda þessu að hluta til. Mikil breyting hefur þó orðið á afstöðu manna til sameiningarmála á þeim árum sem liðin eru frá því að lokaskýrsla sveitarfélaganefndarinnar kom út og almennt er afstaða til sameiningar jákvæðari en áður. Þó er ekki líklegt að árangur náist í eflingu sveitarfélaga á ýmsum svæðum. Til eru dæmi um að fámenn sveitarfélög á litlum landsvæðum, sem eru óumdeilanlega eitt atvinnusvæði, hafi ítrekað hafnað sameiningu við nágranna sína vegna mismunandi aðstöðu til tekjuöflunar. Þannig hefur misvægi í tekjuöflunarmöguleikum sem ríkið hefur tryggt sveitarfélögunum komið í veg fyrir eðlilega sameiningu sveitarfélaga. Afar brýnt er að hraða almennri þróun í átt til öflugri sveitarfélaga sem geta veitt sambærilega þjónustu og tekið við nýjum og auknum verkefnum. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að lágmarksstærð sveitarfélaga verði 1.000 manns. Flutningsmenn telja þó að í raun sé 1.000 manna samfélag lítið og vanmegnugt til þess að tryggja íbúunum þau búsetuskilyrði sem nú eru nauðsynleg til að treysta byggðina til framtíðar. Samþykkt frumvarpsins yrði þó mikilvægt skref til að flýta þróuninni til öflugri sveitarfélaga. Ástæða er til að hafa í huga að í sveitarfélögum sem hafa orðið til við sameiningu undanfarin ár er víða vilji til að mynda enn stærri og öflugri sveitarfélög. Þannig virðist sameining smæstu sveitarfélaganna við önnur geta rutt úr vegi fyrirstöðum sem nú tefja þróunina í átt til öflugri sveitarfélaga.
Miklar umræður hafa farið fram um þessi mál á undanförnum árum og ýmsar hugmyndir komið fram um hvernig standa skuli að eflingu sveitarfélaganna. Þótt stjórnvöld sýni nú viðleitni til að gera átak í þessu efni og lýsi því jafnframt yfir að flytja skuli verkefni til sveitarfélaganna frá hinu opinbera virðast þau þó ekki hafa dug til að marka stefnu sem leiði örugglega til öflugri sveitarfélaga sem verði fært að taka að sér slík verkefni. Náist ekki að sameina fámennu sveitarfélögin í nægilega stórar einingar verður mjög erfitt að flytja mikilvæg verkefni frá hinu opinbera til sveitarfélaganna. Það er grundvallarkrafa að sveitarfélög um allt land geti veitt sambærilega þjónustu. Verði ekki gerð breyting á lágmarksíbúafjölda sveitarfélaganna geta örfá lítil sveitarfélög hamlað þeim fyrirætlunum að flytja verkefni frá hinu opinbera til sveitarfélaganna. Það er ekki við það unandi að fáein fámenn sveitarfélög komi í veg fyrir þær mikilvægu fyrirætlanir að stækka og efla sveitarfélögin. Með samþykkt þessa frumvarps fá þau sveitarfélög sem hafa færri íbúa en 1.000 þrjú ár til að sameinast öðrum sveitarfélögum. Það fer ágætlega saman við fyrirætlanir stjórnvalda um átak til stækkunar og eflingar sveitarfélaganna og tryggir framgang þess máls. Flutningsmenn leggja til að 1.000 íbúa lágmarkið miðist við 1. janúar 2004 og ef íbúatala er lægri en 1.000 samfleytt í þrjú ár eftir það tímamark verði sameiningarskyldan virk.