Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 33  —  33. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlunin feli í sér sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum og eftir atvikum tillögur til úrbóta:
          kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgangi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,
          aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,
          kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,
          aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,
          kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri,
          kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,
          skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,
          stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,
          stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,
          stöðu frumkvöðla,
          stöðu uppfinningamanna.
    Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2004 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 128. löggjafarþingi en varð þá ekki útrædd. Hún er nú endurflutt óbreytt enda efni hennar í fullu gildi. Þess ber að geta að síðan tillagan var fyrst flutt hefur nýsköpunarmiðstöð tekið til starfa á Akureyri sem er m.a. ætlað að sinna málefnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Er það að sjálfsögðu jákvætt svo langt sem það nær, en breytir ekki því að mikil þörf er á að taka málefni frumkvöðla og nýsköpunar fastari tökum hér á landi en gert hefur verið. Þá er einnig rétt að fram komi að sl. vetur samþykkti Alþingi þingsályktun um að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002, um breytingu á XV. viðauka (Ríkisaðstoð) við EES-samninginn. Þar er m.a. fjallað um beitingu 87. og 88. gr. EB-sáttmálans gagnvart ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Með ályktuninni fylgir reglugerð framkvæmdastjórnarinnar, nr. 70/2001, um framkvæmdina og viðauki þar sem skilgreint er hvað skuli teljast lítil og meðalstór fyrirtæki. Þar með hafa slíkar skilgreiningar öðlast tiltekna viðurkenningu og lagastoð hér á landi og ljóst að evrópskar samkeppnisreglur heimila sértækan stuðning við fyrirtæki sem falla undir skilgreiningarnar. Hér á eftir fer óbreytt sú greinargerð sem upphaflega fylgdi tillögunni.
    Starfsemi smárra og meðalstórra fyrirtækja og frumkvæði einyrkja, brautryðjenda og uppfinningamanna er drifkraftur og meginundirstaða framfara í efnahags- og atvinnumálum hvers lands. Reynslan er alls staðar sú að smá og meðalstór fyrirtæki í allri sinni fjölbreytni og lítil fyrirtæki, sem eru að vaxa, leggja til hrygglengjuna í efnahagslíf þjóða og þar verða flest ný störf til. Þannig kemur langt yfir helmingur af samanlagðri þjóðarframleiðslu allra Evrópulanda frá slíkum aðilum. Kannanir hafa sýnt að allt að 70% nýrra starfa í almennu atvinnulífi verða til í nýjum smáfyrirtækjum eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum í vexti. Þrátt fyrir alla þá athygli sem umsvif stórfyrirtækja og fjölþjóðafyrirtækja fá leggja þau þegar allt kemur til alls mun minna til þjóðarframleiðslu en smáir og meðalstórir aðilar og í rekstri þeirra verða til færri ný störf.
    Atvinnurekstur í smáum stíl og starfsemi einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna er ekki síst mikilvæg þegar kemur að hvers kyns nýsköpun. Mjög algengt er að nýjar hugmyndir kvikni hjá slíkum aðilum þótt þær, eða jafnvel aðilarnir sjálfir, séu síðan oft keyptar upp af stórfyrirtækjum. Þegar kemur að hvers kyns nýsköpun og framþróun hefur reynslan sýnt að það er ekki síst mikilvægt að hlúa vel að grasrótinni og vextinum úti á akri sjálfstætt starfandi einstaklinga og smáfyrirtækja. Það sýnir sig einnig að smáfyrirtæki eru viðbragðsfljót og iðulega fyrst til að laga sig að breyttum aðstæðum, mæta nýjum markaðsaðstæðum og nýjum þörfum. Mikilvægi smáfyrirtækja í byggðaþróun og mögulegri atvinnuuppbyggingu í fámennum byggðarlögum er ótvírætt. Oft eiga heil ævintýri og nánast kraftaverk í atvinnumálum upphaf sitt í því að útsjónarsamir aðilar vildu skapa sér atvinnu þar sem enga slíka var að hafa.
    Í seinni tíð er áberandi að frumkvæði kvenna í atvinnulífinu kemur ekki síst fram í stofnun nýrra fyrirtækja og smáfyrirtækja þar sem konur með útsjónarsemi sinni eygja tækifæri í viðskiptum sem aðrir hafa ekki komið auga á eða áður nýtt sér. Ísland er hér engin undantekning. Má í því sambandi nefna fjölmörg fyrirtæki sem konur hafa byggt upp á undanförnum árum á mörgum sviðum viðskipta, svo sem í ferðaþjónustu, menningu og listum, handverks- og smáiðnaðarframleiðslu, ráðgjafarþjónustu og í framleiðslu á snyrtivörum, lyfjum og heilsuvörum.
    Menn hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir mikilvægi þess að skapa slíkri starfsemi smáfyrirtækja og sjálfstætt starfandi aðila í atvinnulífinu, einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna, hagstæð skilyrði. Hjá Evrópusambandinu gildir sérstök stefna eða sáttmáli um smáfyrirtæki (European Charter for Small Enterprises). Málið hefur einnig verið á dagskrá norrænnar samvinnu þar sem skoðuð hefur verið þörfin á því að tekið verði á hlutunum sameiginlega á norrænum vettvangi. Ljóst er að smáfyrirtæki eiga á ýmsan hátt á brattann að sækja þegar kemur að aðgangi að fjármagni og möguleikum til að sækja sér ráðgjöf og stuðning. Atvinnurekstur í smáum stíl hefur að sjálfsögðu ekki sömu möguleika og stóratvinnurekstur á að byggja upp sérfræðiþekkingu og hafa í sínum röðum sérhæft starfsfólk á ýmsum sviðum. Þar sem einn eða fáeinir starfsmenn þurfa að vera allt í öllu er afar mikilvægt að hafa aðgang að skilvirkri ráðgjöf og upplýsingum um það hvert menn geti snúið sér, ella er hætt við að ýmsar hindranir trufli vöxt þessa bráðnauðsynlega nýgræðings eða lággróðurs í atvinnulífinu. Þröskuldar sem stórfyrirtæki eða stærri aðilar yfirstíga án nokkurra vandkvæða geta reynst nýjum og veikburða aðilum um megn.
    Með vísan til þess er að framan greinir er lagt til að unnin verði sérstök framkvæmdaáætlun um stuðningsaðgerðir sem taki mið af aðstæðum og hagsmunum atvinnurekstrar í smáum stíl. Vandlega verði farið yfir og síðan kortlagt hvernig aðstæður eru að þessu leyti hér á landi. Að sjálfsögðu er ljóst að mikið af því atvinnuþróunarstarfi sem fyrir er og starfsemi stofnana eins og Byggðastofnunar og Iðntæknistofnunar beinist að smáum aðilum. Má sem dæmi um slíkt nefna stuðning Iðntæknistofnunar við ýmsa frumkvöðlastarfsemi, t.d. Frumkvöðlagarð á sviði efna- og líftækni. Engu að síður má færa fyrir því traust rök að á það hafi skort að málin hafi verið skoðuð út frá aðstæðum smáatvinnurekstrar sérstaklega. Yfirleitt hafi allir, stórir sem smáir, verið settir undir sama hatt þótt ljóst sé að aðstæður allar og úrlausnarefni séu gerólík eftir því hvort í hlut á nýstofnað smáfyrirtæki eða rótgróið og þekkt stórfyrirtæki með milljarðaveltu.