Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 43  —  43. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipan nefndar sem móti stefnu á sviði þróunarsamvinnu Íslands við önnur ríki.

Flm.: Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,


Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd fimm sérfræðinga, samkvæmt tilnefningu þingflokka, sem móti stefnu Íslands í þróunarsamvinnu við fátæk ríki. Nefndin ráði starfsmann og skili skýrslu um niðurstöður sínar til Alþingis innan árs frá samþykkt tillögu þessarar.
    Nefndin hafi fernt að leiðarljósi við almenna stefnumótun og forgangsröðun verkefna á sviði þróunarsamvinnu:
     1.      Nauðsyn þess að efla menntun, mannréttindi og frelsi kvenna um allan heim.
     2.      Nauðsyn þess að styðja við uppbyggingu almennrar heilsugæslu í fátækum löndum, m.a. bólusetningu gegn algengum barnasjúkdómum og aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir alnæmissmit.
     3.      Nefndin taki mið af því sem best gerist í svipaðri stefnumótun í nágrannalöndum, t.d. á vegum annarra norrænna þróunarsamvinnustofnana, og taki mið af niðurstöðum álitsgerðarinnar Ísland og þróunarlöndin sem kom út 1. september 2003.
     4.      Þörf þess að endurskoða lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands í ljósi niðurstaðna nefndarinnar.

Greinargerð.


    Til þess að þróunarsamvinna við fátæk ríki skili mælanlegum og góðum árangri þurfa markmið að vera skýr og verkefni vel skilgreind. Til grundvallar þarf að liggja mótuð stefna stjórnvalda á hverjum tíma. Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) starfar samkvæmt lögum nr. 43 frá árinu 1981. Hingað til hefur ÞSSÍ lögum samkvæmt einungis tekið þátt í tvíhliða verkefnum á sviði þróunarsamvinnu. Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að huga þurfi betur að kostum þess að íslenska ríkið leggi meira af mörkum á sviði fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu og þá einnig með hvaða hætti slík samvinna ætti að fara fram. Fleira kemur til greina en tvíhliða samvinna ríkja, t.d. þátttaka í fjölþjóðlegum verkefnum ellegar beinar fjárveitingar til ákveðinna verkefna á vegum viðurkenndra alþjóðlegra stofnana og félagasamtaka.
    Hinn 28. maí 1985 ályktaði Alþingi um þróunaraðstoð Íslands. Þá var samþykkt að á næstu sjö árum skyldi með reglubundinni aukningu framlaga náð því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum yrðu 0,7% af þjóðarframleiðslu. Eins og kunnugt er hefur þetta markmið ekki náðst. Fjárframlög til þróunarmála hafa þokast í rétta


Prentað upp.
átt en samt eiga Íslendingar mjög langt í land með að ná viðmiði Sameinuðu þjóðanna (Sþ) um að framlög til þróunarmála verði 0,7% af þjóðarframleiðslu. Árið 2001 voru framlög íslenska ríkisins til þróunarmála 0,12% af vergri þjóðarframleiðslu (VÞF). Í fyrra var hlutfallið komið í 0,16% af VÞF.
    Árið 1996 (á 121. löggjafarþingi) fluttu þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Margrét Frímannsdóttir tillögu til þingsályktunar um aukið framlag til þróunarsamvinnu en hún var aldrei afgreidd frá utanríkismálanefnd Alþingis.
    Samkvæmt núverandi stefnumiðum ÞSSÍ er samvinna og aðstoð við þróunarlönd greind í þrjá aðalþætti:
     1.      Eiginlega þróunaraðstoð, sem miðar að varanlegum umbótum og framförum samkvæmt skilgreindum markmiðum.
     2.      Neyðarhjálp vegna bráðavanda sem skapast, t.d. vegna matarskorts, styrjalda eða náttúruhamfara.
     3.      Verkefnaútflutning og viðskiptasamvinnu. Eins og komið hefur fram eru verkefni ÞSSÍ einvörðungu tvíhliða verkefni, þ.e. unnin á grundvelli sérstaks samkomulags íslenska ríkisins við það ríki sem þiggur aðstoðina.
    Árið 2000 skiptust framlög ÞSSÍ til verkefna með eftirfarandi hætti:
     1.      Fiskveiðar          38%
     2.      Menntun          28%
     3.      Félagsleg verkefni     10%
     4.      Heilbrigðismál      6%
     5.      Önnur verkefni      6%
     6.      Aðalskrifstofa     11%
    Eins og sjá má fer jafnmikið af ráðstöfunarfé ÞSSÍ til verkefna sem tengjast fiskveiðum og þeirra sem tengjast menntun og félagslegum aðgerðum. Flutningsmenn telja að meiri áherslu eigi að leggja á verkefni á sviði félags-, heilbrigðis- og menntunarmála, enda svari þau brýnustu þörf margra fátækustu samfélaga í heimi og komi konum og börnum sem lifa í örbirgð sérstaklega til góða.
    ÞSSÍ starfar nú eftir langtímaáætlun fyrir árin 2000–2004. Eðli þróunarsamvinnu krefst þess að markmið séu sett til langs tíma, t.d. til 10 ára, en endurskoðuð með jöfnu millibili. En markmiðum og framkvæmdaáætlun þurfa einnig að fylgja hærri framlög til þróunarmála. Þau verða ekki hækkuð í einu vetfangi og þykir flutningsmönnum skynsamlegt að miða við að þau hækki í 0,7% af VÞF á einum áratug, eða á árabilinu 2005–2015. Vandað val samvinnuverkefna verður að byggjast á skýrri stefnu og raunsæjum langtímamarkmiðum. Gæta þarf jafnvægis á milli tvíhliða og fjölhliða aðstoðar við val á verkefnum. Einnig þarf að gera skýran greinarmun á þróunarverkefnum og neyðaraðstoð.
    Forsenda þess að árangur náist er að heimamenn séu hafðir með í ráðum og stýri helst för. Samstarfsverkefni sem byggjast einvörðungu á hagsmunum gefandans reynast gagnslítil eins og dæmin sanna. Þróunarsamvinnuverkefni sem skila raunverulegum árangri einkennast af mikilli undirbúningsvinnu og nánu samstarfi við fólkið sem tekur þátt í þeim. Til dæmis ber það vott um fagleg og góð vinnubrögð að kanna fyrst hvar þörfin er mest í einhverju tilteknu landi áður en menn bjóða fram aðstoð sína. Stundum getur líka þurft að ljúka verkefnum sem aðrir hófu eða ganga inn í samstarf sem þegar er fyrir hendi. Matið á því hvað best sé að gera hlýtur alltaf að byggjast á hagsmunum heimamanna – ekki hins utanaðkomandi.
    Og verkefnin eru að sönnu næg: Menntun stúlkubarna og kvenna í þriðja heiminum er að áliti flutningsmanna algjört forgangsmál. Einnig uppbygging heilsugæslu og forvarnafræðsla á þeim svæðum þar sem alnæmisfaraldurinn geisar. Þá er fjölmargt annað sem brýnt er að gera á öðrum sviðum, t.d. á sviði umhverfis- og orkumála, eða við uppbyggingu stjórnsýslu.
    Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu svokölluð þúsaldarmarkmið árið 2000, markmið sem nást eiga árið 2015 (sjá fylgiskjal I). Þetta eru skýr tölusett markmið sem öll ríki verða að taka mið af í utanríkisstefnu sinni og þróunarverkefnum. Og verkefnin eru nærtæk. Efst á blaði er baráttan gegn fátækt, barna- og mæðradauða, og baráttan fyrir grunnmenntun öllum til handa og fyrir jöfnum rétti karla og kvenna. Það er vel við hæfi að íslensk stjórnvöld setji sér markmið á sviði þróunarsamvinnu sem eru hluti af þúsaldarverkefnum Sþ. Aðeins þannig má ætla að raunhæfur árangur náist í þróunarsamvinnu á milli ríkra og snauðra landa.



Fylgiskjal I.


Þúsaldarmarkmið um þróun.


     1.      Eyða fátækt og hungri.
          Lækka hlutfall þess fólks sem býr við örbirgð um helming á tímabilinu 1990 til 2015. Lækka hlutfall þeirra sem búa við hungursneyð um helming á sama tímabili.
     2.      Öll börn njóti grunnskólamenntunar árið 2015.
          Tryggja að bæði stúlkur og drengir ljúki grunnskólanámi.
     3.      Vinna að jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt kvenna.
          Eyða kynjamisrétti til skólagöngu í grunn- og framhaldsskólum fyrir árið 2005 og á öllum skólastigum fyrir 2015.
     4.      Lækka dánartíðni barna.
          Lækka tíðni ungbarnadauða um tvo þriðju á tímabilinu 1990 til 2015.
     5.      Vinna að bættu heilsufari kvenna.
          Lækka dánartíðni vegna barnsburðar (maternal mortality) um þrjá fjórðu á tímabilinu 1990 til 2015.
     6.      Berjast gegn alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum sem ógna mannkyninu.
          Snúa við útbreiðslu eyðni, malaríu og annarra sjúkdóma fyrir árið 2015.
     7.      Vinna að sjálfbærri þróun.
          Framkvæma ríkjaáætlanir um sjálfbæra þróun fyrir árið 2005 og snúa þannig við neikvæðri þróun umhverfisáhrifa fyrir árið 2015.
          Lækka um helming hlutfall þeirra sem ekki hafa aðgang að hreinu drykkjarvatni á tímabilinu 1990 til 2015.
          Stuðla að bættum lífsskilyrðum a.m.k. 100 milljón íbúa í fátækrahverfum stórborga.
     8.      Styrkja hnattræna samvinnu um þróun.
          Vinna frekar að opnu og sanngjörnu viðskipta- og fjármálakerfi sem byggir á skýrum reglum.
          Taka á málefnum fátækustu þróunarlandanna, m.a. með því að leggja af innflutningsgjöld og kvóta á útflutningsvörur þeirra, leysa skuldabyrði landanna með lækkun skulda, og með auknum framlögum til opinberrar þróunaraðstoðar.
          Taka tillit til sérstöðu landluktra landa og smárra eyþjóða.
          Vinna með lyfjaiðnaðinum að því að veita fátækum þjóðum aðgang að mikilvægum lyfjum.
          Vinna að því ásamt einkageiranum að veita þróunarlöndum aðgang að nýjustu upplýsinga- og samskiptatækni. Fylgiskjal II.



Hermann Örn Ingólfsson
og Jónas H. Haralz:


Úr skýrslunni „Ísland og þróunarlöndin – Álitsgerð um þróunarsamvinnu Íslands
og þátttöku í starfi alþjóðastofnana“ (28. júlí 2003).

Viðauki 3: Framlög Íslands til þróunarmála 1999 til 2003.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Viðauki 4: Hugmynd um framlag til þróunarmála árið 2006.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.