Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 115. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 115  —  115. mál.




Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um störf einkavæðingarnefndar.

Frá Guðjóni A. Kristjánssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Magnúsi Þór Hafsteinssyni, Sigurjóni Þórðarsyni, Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, Jóni Bjarnasyni,


Kolbrúnu Halldórsdóttur, Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.

    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um störf einkavæðingarnefndar fram til 1. október sl.

Greinargerð.


    Þar sem einkavæðingarnefnd hefur með höndum mikið og afar mikilvægt starf í þágu alþjóðar telja skýrslubeiðendur mjög mikilvægt að Alþingi verði gerð ítarleg grein fyrir starfsemi hennar. Þá beiðni er óþarft að styðja rökum, en benda má á að nefndinni urðu á mjög mikil mistök við tilraunir til einkavæðingar Landssímans á sínum tíma. Nú, þegar henni er ætlað að hefjast aftur handa við það verkefni, er þeim mun meiri ástæða til að fá greinargerð frá nefndinni um fyrri störf sín að verkefninu.
    Enn fremur hlýtur það að vera skilyrðislaus krafa fulltrúa á þjóðþinginu að gerð verði grein fyrir afsögn nefndarmannsins Steingríms Ara Arasonar sem sat í nefndinni frá upphafi en lét af störfum af því að hann hafði ,,aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum” og þeim sem einkavæðingarnefnd viðhafði.