Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 163  —  79. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um borgaralega friðargæslu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig rökstyður ráðherra þá ákvörðun að reikna þátttöku Íslands í borgaralegri friðargæslu sem framlag landsins til þróunarsamvinnu?

    Þróunarríki eru mörg hver stríðshrjáð. Stríðsátök ala á fátækt, hamla þróun og koma í veg fyrir að aðstoð nái til þeirra er minnst mega sín. Borgaraleg friðargæsla er því mikilvægt fyrsta stig þróunaraðstoðar og jafnan forsenda þess að hefðbundnari þróunaraðstoð geti átt sér stað.
    Samkvæmt Þróunaraðstoðarnefnd OECD (DAC) er friðargæsla skilgreind sem þróunaraðstoð ef hún er borgaraleg í eðli sínu og á sér stað í skilgreindum þróunarríkjum. Skilgreiningar DAC eru sá alþjóðlegi mælikvarði sem stuðningsríki hafa komið sér saman um, enda eðlilegt og mikilvægt að ríkin notist við sömu skilgreiningar og mælikvarða þegar framlög til þróunaraðstoðar eru talin fram.
    Í ljósi þessa er fullkomlega eðlilegt að reikna þátttöku Íslands í borgaralegri friðargæslu sem framlag til þróunaraðstoðar.
    Framlag Íslands til borgaralegrar friðargæslu á árinu 2003 er áætlað 284 millj. kr.