Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 214. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 387  —  214. mál.
Svarfélagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um eftirlit með ráðningarsamningum útlendinga.

     1.      Hversu oft á sl. tveimur árum hafa stéttarfélög eða aðrir aðilar vakið athygli ráðuneytisins á:
                  a.      að ráðningarsamningar útlendinga séu ekki í samræmi við íslenska löggjöf og hvers eðlis hafa þær umkvartanir verið,
                  b.      að ráðningarkjörum, þ.m.t. húsnæðisaðstöðu, hafi verið breytt eftir að erlendir starfsmenn hófu störf,
                  c.      að útlendingar sem leita réttar síns hjá stéttarfélagi missi vinnuna í framhaldinu?
             Ef svo er, hvernig hefur ráðuneytið brugðist við þessum umkvörtunum?

    Athugasemdir snúast oft um að iðgjöld í stéttarfélög og lífeyrissjóði hafi ekki verið greidd og komið hafa fram athugasemdir um að laun séu ekki í samræmi við markaðslaun. Nokkuð algengt er að samningarnir séu illa útfylltir og ekki í samræmi við lög. Í þeim tilvikum hefur Vinnumálastofnun endursent þá til leiðréttingar eða synjað umsóknum ef ekki er orðið við tilmælum stofnunarinnar um leiðréttingu. Umsækjendur verða oftast við ábendingum um leiðréttingar á umsóknum.
    Árið 2002 var samtals 284 umsóknum hafnað, flestum vegna atvinnuástandsins en að auki var vísað til formgalla í sjö tilfellum. Synjanir á árinu 2003 eru orðnar 119. Í þremur tilvikum er vísað til formgalla til viðbótar við synjun vegna atvinnuástands.
    Við afgreiðslu dvalarleyfisumsóknar hjá Útlendingastofnun er gengið úr skugga um að húsnæði sé í lagi. Engar upplýsingar eru fyrirliggjandi hjá Vinnumálastofnun um að ráðningarkjörum hafi verið breytt meðan samningur er í gildi. Vinnumálastofnun getur ekki komið í veg fyrir að ráðningarkjörum sé breytt þegar tímabundinn samningur er endurnýjaður.
    Vinnumálastofnun hafa einu sinni borist óstaðfestar upplýsingar um að erlendur starfsmaður hafi misst vinnuna í kjölfar þess að hafa leitað réttar síns hjá stéttarfélagi.

     2.      Eru atvinnuleyfi veitt nýjum erlendum starfsmönnum ef ráðuneytið hefur vitneskju um tilvik sem lýst er í 1. lið og ef fyrirtæki sem óska ráðningar á erlendum starfsmönnum eru í vanskilum með opinber gjöld erlendra starfsmanna sinna?

    Meginskilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, eru að kunnáttumenn verði ekki fengnir innan lands eða að atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl. Ef ábendingar í umsögnum stéttarfélaga eru þess efnis að iðgjöld og opinber gjöld séu í vanskilum hefur Vinnumálastofnun ekki synjað umsóknum af þeim ástæðum einum nema um sé að ræða stórfelld vanskil og grunsemdir um misferli í því sambandi, enda innheimta launatengdra gjalda ekki í verkahring stofnunarinnar. Allar athugasemdir stéttarfélaga eru hins vegar teknar til skoðunar þótt þær leiði ekki til synjunar á atvinnuleyfi. Það eru því fyrrgreind meginskilyrði 7. gr. laganna sem ráða afgreiðslu nýrra atvinnuleyfa.

     3.      Hversu mörgum umsóknum um framlengingu atvinnuleyfis hafa stéttarfélög hafnað í umsögn sinni sl. tvö ár og hversu mörgum þeirra hefur Vinnumálastofnun hafnað? Í hve mörgum tilvikum hefur Vinnumálastofnun hafnað umsóknum frá fyrirtækjum sem hafa ekki skilað lögbundnum iðgjaldagreiðslum (lífeyrissjóðsiðgjaldi eða félagsgjöldum) eða afdregnum skatti viðkomandi starfsmanns?
    Rétt er að benda á að stéttarfélög veita umsagnir um umsóknir um atvinnuleyfi og samkvæmt lögum nr. 97/2002 veitir Vinnumálastofnun svo atvinnuleyfi í umboði félagsmálaráðherra. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun mun það fyrst og fremst vera stéttarfélagið Efling sem hefur veitt neikvæðar umsagnir. Í umsögnunum er vísað til atvinnuástandsins en af og til eru gerðar athugasemdir um vanskil á iðgjöldum o.fl. Undantekningalítið eru umsagnir stéttarfélaga á landsbyggðinni jákvæðar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda neikvæðra umsagna árið 2002 vegna umsókna um framlengingu atvinnuleyfa en það ár voru 1796 leyfi framlengd hjá sama atvinnurekanda. Þar af var 771 leyfi vegna starfa hjá atvinnurekendum í Reykjavík. Ætla má að 90% af þeim leyfum eða um 690 hafi verið vegna starfa sem heyra undir stéttarfélagið Eflingu sem hefur í mörgum tilfellum veitt neikvæðar umsagnir. Frá 1. janúar 2003, þegar lög nr. 97/2002 tóku gildi, hafa 1337 leyfi verið framlengd hjá sama atvinnurekanda. Í þessum umsóknum kemur fram að Efling hefur í 233 tilvikum veitt neikvæða umsögn vegna atvinnuástands og í 34 er til viðbótar gerð athugasemd við vanskil á iðgjöldum.
    Að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið hefur Vinnumálastofnun almennt ekki hafnað umsóknum um framlengingu atvinnuleyfa þrátt fyrir neikvæðar umsagnir stéttarfélaga, hvort sem um er að ræða neikvæða umsögn vegna atvinnuástands eða vanskila á iðgjöldum. Í því sambandi er bent á að ef Vinnumálastofnun hefði synjað um framlengingu hefði dvalarleyfi viðkomandi einstaklings fallið úr gildi og í kjölfarið hefði þurft að vísa viðkomandi útlendingum úr landi. Oft er um að ræða fólk sem dvalið hefur hér um lengri tíma, fengið til sín börn og maka og skotið rótum í íslensku samfélagi.