Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 336. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 404  —  336. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um nýja skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að sjá um að endurnýjuð og uppfærð verði skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Í skýrslunni skal gera grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa á stjórnunar- og eignatengslum frá því fyrri skýrslur, sem út komu árin 1994 og 2001, voru unnar. Leitast skal við að greina hvort gæti einkenna aukinnar hringa- eða blokkamyndunar og kortleggja helstu svið þar sem markaðseinokun eða vaxandi fákeppni ríkir. Í heild skal skýrslan gefa eins skýra mynd og kostur er af þróun íslensks viðskiptalífs og samkeppnisskilyrðum á öllum helstu sviðum atvinnulífs og viðskipta.
    Viðbótarkostnaður sem Samkeppnisstofnun eða aðrir aðilar bera af gerð skýrslunnar greiðist úr ríkissjóði. Viðskiptaráðherra skal að lokinni gerð skýrslunnar leggja hana fyrir Alþingi.

Greinargerð.


    Ný samkeppnislög sem Alþingi setti fyrri hluta árs 1993 mörkuðu tímamót með ýmsum hætti. Lögin leystu af hólmi eldri lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem orðin voru úr takti við tímann. Góð samstaða tókst að lokum um afgreiðslu málsins enda lagði efnahags- og viðskiptanefnd, sem hafði málið til umfjöllunar, mikla vinnu í verkið og tók frumvarpið talsverðum breytingum í meðförum þingsins. Hluti af samkomulagi sem lá til grundvallar afgreiðslu málsins fólst í því að mæla svo fyrir að eitt af fyrstu verkefnum nýs samkeppnisráðs skyldi vera að gera viðamikla úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði. Þessi ráðstöfun endurspeglaði skilning þingnefndarinnar sem tillöguna flutti á því að sökum smæðar og skammrar þroskasögu samkeppnismarkaðar á mörgum sviðum viðskipta hér á landi væri ástæða til að vera vel á verði gagnvart einkennum fákeppni og hringamyndunar.
    Í bráðabirgðaákvæði II í samkeppnislögum, nr. 8/1993, sagði svo:
    „Samkeppnisráð skal á árunum 1993 og 1994 gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði. Skal þetta gert í því skyni að kanna hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna alvarleg einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geti samkeppni eða hindrað frjálsa þróun viðskipta og skapi þar með hættu á brotum á lögum þessum.
    Samkeppnisráð skal skila niðurstöðum sínum til viðskiptaráðherra er síðan leggi þær fyrir Alþingi í skýrslu.“
    Í samræmi við þetta lagaákvæði vann samkeppnisráð ítarlega skýrslu sem út kom í desember 1994 og var síðan lögð fram á Alþingi, á 118. löggjafarþingi, árið 1995. Að ósk þingmanna Samfylkingarinnar var svo aftur unnin skýrsla með mjög svipuðu sniði sem út kom á vormánuðum 2001. Báðar þessar skýrslur, og sú kortlagning sem í þeim fólst á íslensku viðskiptalífi, marka tímamót, einkum þó sú fyrri, enda var þá um brautryðjendastarf að ræða.
    Nú er hins vegar mikið vatn til sjávar runnið síðan gögnum var safnað í seinni skýrsluna, en hún byggðist á talnaefni frá árinu 1999 og upplýsingum um stjórnendur og fleira frá aðalfundum fyrirtækja á því ári. En það er ekki aðeins að þær upplýsingar sem lágu til grundvallar síðari skýrslunni séu nú gamlar heldur hafa gríðarlegar breytingar síðan orðið á eignarhaldi og samsetningu fyrirtækja í viðskiptalífinu. Fyrirtæki hafa sameinast og sundrast og einkavæðing ríkisfyrirtækja, ekki síst fjármálastofnana, hefur gerbreytt heilum sviðum viðskipta og mikil umræða er nú um fákeppni eða ónóga samkeppni. Mikil samþjöppun hefur orðið og mörg dæmi má nefna um svið viðskipta þar sem áður störfuðu fjölmargir smærri aðilar með litla og dreifða markaðshlutdeild hver en tveir til þrír risar sitja nú einráðir að markaðinum. Velþekkt er sú fákeppni tveggja til þriggja aðila sem ráðið hafa ríkjum lengi, t.d. í olíuverslun, tryggingastarfsemi, sjóflutningum og fleiru. Nú hefur sambærilegt ástand skapast t.d. á sviði landflutninga, í matvöruverslun, lyfjadreifingu og bankastarfsemi. Jafnvel fjölmiðlarekstur er nú orðinn tilefni til umræðna um þá hættu sem geti verið samfara óæskilegri samþjöppun. Þá hefur sama þróun verið í sjávarútveginum þó að kvótaþak setji því að vísu skorður hversu mikið stærstu fyrirtækin geti stækkað.
    Óþarfi ætti að vera að rökstyðja nánar þörf þess að uppfæra nú skýrslur um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Jafnvel þótt ekki hefðu komið til þessar miklu sviptingar á eignarhaldi fyrirtækja, samruni og einkavæðing – að ógleymdum nýjum tímum að ýmsu leyti hvað snertir starfsaðferðir, viðskiptahætti og jafnvel viðskiptasiðferði – þá væri eftir sem áður ástæða til að uppfæra reglulega slíka kortlagningu viðskiptalífsins. Því er vonast til þess að Alþingi fylgi eftir þeirri hefð sem þegar hefur skapast að mæla fyrir um það að slík vinna fari fram með reglubundnu millibili. Sýnist ekki fjarri lagi að slíkar skýrslur séu unnar á um það bil fimm ára fresti.