Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 229. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 458  —  229. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðjóns Ólafs Jónssonar um starfsemi lögreglunnar í Reykjavík.

     1.      Hversu margir lögreglumenn hafa að jafnaði verið í fullu starfi hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1998–2003, sundurliðað eftir árum:
                  a.      í almennri deild,
                  b.      í rannsóknardeild,
                  c.      í öðrum deildum?

    Fjöldi lögreglumanna í fullu starfi er reiknaður út frá fjölda greiddra mánaðarlauna á ári hverju. Meðtalin eru störf afleysingamanna í lögreglu.

Tafla 1. Fjöldi lögreglumanna.
2003 áætlað 2002 2001 2000 1999 1998
Lögreglumenn samtals 266 274 274,5 288 289,5 287

     2.      Hversu mörgum lögreglumönnum í fullu starfi hefur ráðherra og/eða ríkislögreglustjóri gert ráð fyrir hjá embættinu á árunum 1998–2003, sundurliðað eftir árum?
    Í 27. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, segir að ráðherra ákveði á hverjum tíma í samráði við ríkislögreglustjóra og að fengnum tillögum hlutaðeigandi lögreglustjóra fjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.
    Í reynd er það svo að fjöldi lögreglumanna ákvarðast af fjárlögum hvers árs og hefur lögreglumönnum fjölgað umtalsvert á undanförnum árum eins og fram kemur í skýrslu um stöðu og þróun löggæslu sem lögð var fram á Alþingi á 127. löggjafarþingi 2000–2001. Þess ber að geta á á þeim árum sem spurt er um hafa ýmis verkefni verði færð frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, t.d. sérsveit lögreglunar og fjarskiptamiðstöðvarverkefni. Við mat á því hvar fjölga skuli lögreglumönnum hefur verið stuðst við upplýsingar um aukinn íbúafjölda, aukinn málafjölda o.s.frv., en jafnframt hefur verið fjölgað lögreglumönnum til að sinna sérstökum verkefnum, og má þar nefna fíkniefnalöggæslu og grenndarlöggæslu.
    Fjárlög eru ákveðin fyrir embættið í heild og ákvarðar lögreglustjóri hvernig skuli hámarka nýtingu fjármuna í þeim tilgangi að sinna löggæslu í Reykjavík sem best, þar á meðal fjölda lögreglumanna hverju sinni.

     3.      Hversu margir hafa lögreglumenn í Reykjavík verið á hverja 1.000 íbúa á árunum 1998–2003, sundurliðað eftir árum?

Tafla 2. Fjöldi lögreglumanna á 1.000 íbúa.
2003 áætlað 2002 2001 2000 1999 1998
Lögreglumenn á 1.000 íbúa 2,15 2,22 2,23 2,36 2,40 2,42

     4.      Hversu marga lögreglumenn hefur lögreglustjórinn í Reykjavík óskað eftir að hafa í fullu starfi á árunum 1998–2003, sundurliðað eftir árum?
    Árið 1998 var fyrsta heila starfsárið eftir að ný lögreglulög tóku gildi 1. júlí 1997. Tillögur lögreglustjórans í Reykjavík um fjölda lögreglumanna á hverju ári fyrir sig árin 1998–2003 voru þessar:

Tafla 3. Tillögur um fjölda lögreglumanna.
2003 2002 2001 2000 1999 1998
Tillögur um fjölda lögreglumanna 301 326 303 303 289 289

     5.      Hversu mörg mál hafa komið til kasta lögreglunnar á árunum 1998–2003, sundurliðað eftir árum?

    Mál sem lögreglan fæst við eru ýmist vegna tilkynninga frá borgurunum eða frumkvæðisvinnu lögreglunnar. Mál eru annars vegar skráð í dagbók lögreglunnar og hins vegar í málaskrá hennar. Í dagbók eru m.a bókaðar tilkynningar sem berast lögreglu, margvísleg verkefni, fundir, fræðsluverkefni og eftirlitsferðir. Í málaskrá eru skráð öll tilvik þar sem um er að ræða staðfestan grun um að brot hafi átt sér stað. Í flestum tilfellum er mál fyrst skráð í dagbók og síðan í málaskrá ef viðkomandi bókun verður að máli.
    Þegar spurt er um fjölda mála er mikilvægt að hafa í huga að umfang þeirra getur verið mjög mismunandi. Í einu máli er kært fyrir hraðakstursbrot en í öðru máli getur verið um að ræða röð brota eins og hraðakstur, ölvunarakstur og akstur gegn rauðu ljósi. Til að gefa sem gleggsta mynd af málum hjá lögreglunni þykir rétt að gefa upplýsingar bæði úr dagbók og málaskrá. Mál eru talin hér út frá málsnúmeri lögreglunnar í Reykjavík og dagsetning miðuð við ártal í því.

Tafla 4. Fjöldi mála hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík frá 1998 til 4. nóvember 2003.
Dagbók Málaskrá

Fjöldi bókana
Fjöldi verkefna vegna bókana
Fjöldi mála
Fjöldi verkefna vegna mála
1998 61.579 75.857 35.191 50.320
1999 64.774 77.402 31.037 43.639
2000 66.803 78.661 34.608 47.510
2001 64.990 78.878 32.504 45.513
2002 73.996 89.769 38.603 52.751
2003* 55.594 68.325 25.535 35.819
*1. janúar til 4. nóvember 2003

    Mikilvægt er að hafa nokkurn fyrirvara í huga við mat á þeim upplýsingum sem hér eru birtar. Í fyrsta lagi er um að ræða fjölda tilkynntra brota, ekki raunverulegan fjölda brota í umdæminu. Jafnframt geta breytingar á reglum eða skráningu milli ára haft áhrif á málafjöldann.
    Rétt er að benda á að dagbók lögreglu og málaskrá eru komnar til ára sinna og gerðar hafa verið á þeim margvíslegar viðbætur í gegnum árin. Erfitt er því oft á tíðum að afla nákvæmra tölfræðiupplýsinga úr þeim. Nú er unnið að smíði nýs heildstæðs lögreglukerfis og eitt af mörgum markmiðum með því er að auðveldara verði að vinna alla tölfræði.

     6.      Hversu margir lögfræðingar hafa verið í fullu starfi í lögfræðideild embættis lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1998–2003, sundurliðað eftir árum?


Tafla 5. Fjöldi lögfræðinga í lögfræðideild.
2003 áætlað 2002 2001 2000 1999 1998
Lögfræðingar 13,5 12 11 11,5 11 10

     7.      Hver voru afdrif mála sem komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík á árunum 1998– 2002, sundurliðað eftir árum?
    Í töflu 6 má sjá stöðu mála árið 1998–2002 samkvæmt síðasta skráða ferli máls í málaskrá í byrjun nóvember 2003. Rétt er að ítreka að breytingar hafa orðið á ýmsum reglum er varða ferilskráningu og því ekki alltaf um sambærilegar upplýsingar að ræða milli ára.
    Í töflunni þýðir ákærumeðferð að ákært hafi verið í máli, það fellt niður skv. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, eða fallið frá saksókn skv. 113. gr. þeirra en einnig getur verið um skilorðsbundna frestun ákæru að ræða. Í liðinn sektir falla m.a. sektargerðir, sektarboð, niðurfelling sekta, tilkynningar þeim tengdar og dómsáritanir. Áminningar vegna veitingahúsa eru hér flokkaðar undir sektir, þær eru um og yfir 10 talsins frá árinu 1999, eða frá því að Reykjavíkurborg tók við að veita vínveitingaleyfi. Árið 1998 voru þær hins vegar 97 talsins. Hætt við mál vísar til að rannsókn hafi verið hætt skv. 76 gr. laga um meðferð opinberra mála, máli hafi verið vísað frá, einnig skv. 76 gr., kæra hafi verið afturkölluð eða mál lagt upp. Mál í geymslu flokkast undir þennan lið árin 1998–2001 en vegna breyttra reglna um skráningu á þessum málum flokkast þau undir mál sem ekki er lokið árið 2002. Hætt er við mál af ýmsum ástæðum, t.d. þar sem kærði er undir sakhæfisaldri, sbr. 14 gr. almennra hegningarlaga, mál er óupplýst, brotamaður er ekki þekktur eða nægar sannanir liggja ekki fyrir. Í fjórða liðnum í töflunni, máli ekki lokið, eru m.a. mál í rannsókn eða sem bíða afgreiðslu. Hafa þarf að hafa í huga að þó að hætt hafi verið við mál er alltaf hugsanlegt að það verði tekið aftur upp ef nýjar upplýsingar berast.

Tafla 6. Staða mála árið 1998–2002 í byrjun nóvember 2003.
1998 1999 2000 2001 2002
Ákærumeðferð 3.699 4.055 3.031 2.690 2.738
Sektir 18.485 13.354 15.285 15.514 20.787
Hætt við mál 12.605 13.366 16.051 13.919 13.885
Máli ekki lokið 402 262 241 381 1.193
Samtals 35.191 31.037 34.608 32.504 38.603

     8.      Hversu margar ákærur gaf lögreglustjórinn í Reykjavík út á árunum 1998–2002, sundurliðað eftir árum? Hversu mörgum málanna lauk með viðurlagaákvörðun, hversu mörgum með dómi sem játningarmálum og hversu mörgum með dómi að undangenginni aðalmeðferð?
    Ákærur hafa verið um eitt þúsund árlega á því tímabili sem hér er skoðað, nema að sjá má að árið 1998 voru þær nokkuð fleiri, eða 1.411. Fjöldi ákæra er reiknaður út frá málsnúmeri lögreglu.

Tafla 7. Fjöldi útgefinna ákæra árið 1998–2002.
Fjöldi útgefinna ákæra
1998 1.411
1999 1.034
2000 1.063
2001 933
2002 1.047

    Á þeim tíma sem veittur er til að svara fyrirspurnum reyndist ekki unnt að afla upplýsinga um lok framangreindra mála, en málslok eru ekki skráð í málaskrá lögreglu.

     9.      Hversu miklu fé var varið til rekstrar embættis lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1998–2003 á föstu verðlagi, sundurliðað eftir árum?
    Meðfylgjandi tafla sýnir rekstrarafkomu lögreglustjóraembætisins sl. fjögur ár. Byggt er á ríkisreikningi og ársreikningum embættisins, þess ber að geta að Ríkisendurskoðun hefur ekki lokið endurskoðun á ársreikningi fyrir rekstrarárið 2002. Rekstrartölur ársins 2003 eru áætlaðar tölur byggðar á rekstraráætlun lögreglustjóraembættisins. Fjárhæðir eru framreiknaðar á fast verðlag ársins 2003 miðað við neysluverðsvísitölu.

Tafla 8. Rekstraryfirlit, rekstur í þús. kr. á föstu verðlagi ársins 2003.
Rekstur 2003 2002 2001 2000 1999 1998
Sértekjur 35.700 36.854 33.598 45.491 37.967 40.297
Rekstrargjöld -1.972.000 -2.093.833 -1.837.543 -1.848.805 -1.942.341 -1.893.467
Stofnkostnaður -12.000 -5.316 -4.696 -8.870 -33.552 -28.940
Ríkisframlag 1.984.000 2.008.391 1.851.740 1.793.774 2.049.556 1.789.227
Rekstrarafkoma 35.700 -53.904 43.098 -18.411 111.629 -92.883