Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 485  —  366. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla.

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðjón A. Kristjánsson,


Hjálmar Árnason, Steingrímur J. Sigfússon.


    Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Nefndin kanni m.a. eftirfarandi atriði sérstaklega:
     a.      hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila,
     b.      hvort setja beri sérstök ákvæði í lög sem tryggi fullt gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum,
     c.      hvort ástæða sé til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta, t.d. á sviði fjármálaþjónustu,
     d.      löggjöf og starfsskilyrði fjölmiðla í nálægum löndum með hliðsjón af markmiði nefndarstarfsins.
    Nefndin skal í störfum sínum hafa samráð við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, menntamálaráðuneytið og aðra aðila er málið varðar. Nefndin skal hraða vinnu sinni sem kostur er og ljúka störfum með skýrslu og eftir atvikum tillögum til Alþingis. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Fjölmiðlar eru ein meginstoð opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar. Þeir hafa einnig undirstöðuhlutverki að gegna við að tryggja málfrelsi. Á fjölmiðlamarkaði þarf að ríkja fjölbreytni svo að almenningur fái upplýsingar úr ólíkum áttum. Mjög varhugavert er að of fáir aðilar verði ráðandi um þátt fjölmiðla í skoðanamyndun samfélagsins. Slíkt skapar hættu á að ólíkum sjónarmiðum sé gert mishátt undir höfði og fjölmiðlarnir ræki ekki sem skyldi aðhalds- og gagnrýnishlutverk sitt. Fjölmiðlar verða að njóta frelsis og sjálfstæðis, vera fjölbreyttir að gerð og eiginleikum og óháðir hver öðrum til að öll framangreind markmið náist. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði er því afar varasöm. Einnig er nauðsynlegt að ætíð liggi ljóst fyrir hvernig eignarhaldi fjölmiðla er háttað.
    Í nágrannalöndum hafa víða verið sett lög eða reglur til að hindra óeðlilega samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og tryggja að fjölmiðlar séu sjálfstæðir og óháðir. Hafa í því skyni verið settar skorður við eignarhaldi á fjölmiðlamarkaði til að hindra fákeppni og óeðlileg hagsmunatengsl, sem og hringamyndun.
    Verkefni nefndarinnar sem hér er gerð tillaga um er að kanna starfsumgjörð fjölmiðla á Íslandi, hvert stefni í þeim efnum og hvort styrkja megi sjálfstæði þeirra, frelsi og fjölbreytni með lagaákvæðum eða öðrum hætti. Mikilvægt er að nefndin starfi í nánu samráði við hagsmunaaðila og hraði störfum sínum.