Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 290. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 571  —  290. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ásgeirs Friðgeirssonar um greiðslu dráttarvaxta úr ríkissjóði.

     1.      Hverju námu greiðslur úr ríkissjóði á dráttarvöxtum árin 1998–2002 af reikningum frá innlendum viðskiptavinum ríkissjóðs?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins námu greiddir dráttarvextir á árunum 1998– 2002 samtals 583,1 millj. kr. Ekki er unnt að vinna upplýsingar um dráttarvexti eftir þjóðerni viðskiptavina, þar sem sú skipting liggur ekki fyrir í bókhaldi ríkisins. Hluti gjaldfærðra dráttarvaxta er vegna dómkrafna en ekki eiginlegra viðskipta ríkissjóðs. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hve háa fjárhæð er að ræða. Gjaldfærðir dráttarvextir ríkissjóðs sundurliðast þannig eftir árum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Eru dæmi þess að ríkissjóður greiði ekki dráttarvexti af reikningum frá viðskiptavinum sínum þótt þeir séu komnir fram yfir samningsbundinn gjalddaga? Sé svo, við hvaða reglur styðst það?
    Um viðskipti ríkissjóðs gilda sömu reglur og almennt gilda um viðskipti manna í milli. Skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, „…er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.“ Kröfuhafa er því ekki skylt að reikna dráttarvexti af kröfum sínum. Skuldara er að sama skapi heimilt að leita samninga um lækkun eða niðurfellingu dráttarvaxta. Fjármálaráðuneytið hefur ekki sett sérstakar reglur um slíkt og telur ekki þörf á því miðað við núgildandi lög.
    Upplýsingar í bókhaldi ríkissjóðs benda ekki til þess að dæmi séu um að ríkissjóður greiði ekki dráttarvexti af reikningum frá viðskiptavinum sínum, þótt þeir séu komnir fram yfir samningsbundinn gjalddaga. Þó ber að hafa í huga að hyggist aðilar leita eftir niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta er mögulegt að þeir færi ekki dráttarvextina í bókhaldið.