Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 612  —  418. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilborgu Hauksdóttur, Jón Sæmund Sigurjónsson og Hrönn Ottósdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Karl Steinar Guðnason og Ágúst Þór Sigurðsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Garðar Sverrisson og Valgerði Ósk Guðjónsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Halldór Gunnarsson frá Þroskahjálp.
    25. mars sl. gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, samkomulag við formann Öryrkjabandalagsins um hækkun grunnlífeyris öryrkja. Í viðræðunum var lögð sérstök áhersla á sérstöðu þeirra sem yngstir verða öryrkjar og kom fram vilji til að bæta hag þeirra sérstaklega. Samráðsnefnd sem skipuð var síðasta vor var falið að útfæra samkomulagið innan þess ramma sem ríkisstjórnin samþykkti, sem var eins milljarðs kr. framlag til þessara breytinga.
    Í frumvarpinu er lagt til að aldurstengd örorkuuppbót verði tekin upp. Felur hún í sér að fjárhæð uppbótarinnar miðist við þann aldur þegar einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. og 29. gr. almannatryggingalaga eða uppfyllir skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Frumvarpið miðar að því að bæta hag þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Algengt er að þarna sé um að ræða einstaklinga sem hafa ekki hafið störf á vinnumarkaði, ýmist vegna ungs aldurs eða skólagöngu, og hafa þar af leiðandi ekki haft tækifæri til að öðlast framreiknuð réttindi í lífeyrissjóðum, eins og sumir þeirra sem eldri eru, eða búa með atvinnutekjum í haginn fyrir framtíðina.
    Í 1. mgr. 12. gr. almannatryggingalaga kemur fram að einstaklingar á aldrinum 16–67 ára eiga, að uppfylltum lagaskilyrðum, rétt á örorkulífeyri. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að greiðslur aldurstengdrar örorkuuppbótar geti fyrst hafist við 18 ára aldur. Við umfjöllun málsins kom fram hjá fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að eðlilegt þætti að miða við 18 ára aldur sem er lögræðisaldur. Börn undir lögræðisaldri eru forsjárskyld og á framfæri foreldra sinna og því eiga ekki sömu sjónarmið við um þau og lögráða einstaklinga. Meiri hlutinn tekur undir þetta. Einnig kom fram að framkvæmdin hjá Tryggingastofnun er með þeim hætti að barn á aldrinum 16–17 ára, sem metið hefur verið öryrki, getur ásamt foreldum sínum valið hvort það fær örorkulífeyri eða hvort greiddar eru umönnunarbætur til foreldra þess. Valið ræðst svo af því hvort kemur hagstæðar út fyrir viðkomandi.
    Meiri hlutinn fagnar því skrefi sem stigið er með frumvarpinu til viðurkenningar á sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni og þeim kjarabótum sem frumvarpið tryggir þeim. Það felur í sér að örorkulífeyrir, sem nú er 20.630 kr. hækkar með aldurstengingunni um 100% hjá þeim sem verða 75% öryrkjar 18 og 19 ára og verður því 42.498 kr. árið 2004, að viðbættum lögbundnum hækkunum miðað við verðlag 1. janúar nk. Aldurstengda örorkuuppbótin lækkar svo hlutfallslega eins og fram kemur í 2. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins (sem á að verða 2. mgr. 15. gr. laganna) eftir því sem einstaklingar verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni. Að viðbættri tekjutryggingu og tekjutryggingarauka þýðir þessi lagabreyting að öryrkjum á aldursbilinu 18–19 ára eru tryggðar greiðslur frá Tryggingastofnun að fjárhæð 108.350 kr. á mánuði. Innifalin í þeirri fjárhæð er 2.000 kr. hækkun á tekjutryggingu og 2.000 kr. hækkun á tekjutryggingarauka sem koma til framkvæmda 1. janúar nk. samkvæmt reglugerð um hækkun bóta almannatrygginga, nr. 823/2002. Við þetta getur svo bæst heimilisuppbót þannig að samtals geta greiðslur til öryrkja á þessu aldursbili numið 126.547 kr. frá 1. janúar nk.
    Þá minnir nefndin á aðrar nýlegar breytingar til hækkunar á bótum almannatrygginga til öryrkja. Verulega hefur verið dregið úr áhrifum atvinnutekna til lækkunar á bótagreiðslum til öryrkja en frá miðju ári 2001 eru einungis 60% af atvinnutekjum öryrkja lögð til grundvallar við útreikning á tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót í stað 100% áður. Áhrif tekna til skerðingar á tekjutryggingarauka hafa jafnframt verið minnkuð úr 67% í 45%.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að eftir 1. júlí nk. er fyrirhugað að meta hvernig til hafi tekist við að koma sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við það mat verði sérstaklega skoðuð mismunandi fjárhagsleg afkoma þeirra sem verða öryrkjar ungir að árum með tilliti til þess hvort þeir hafa eignast framreiknaðan rétt til örorkulífeyris hjá lífeyrissjóði.
    Meiri hlutinn mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 9. des. 2003.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir,


varaform.


Dagný Jónsdóttir.Arnbjörg Sveinsdóttir.


Guðjón Hjörleifsson.