Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 614  —  304. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneytinu, Pál Gunnar Pálsson og Stefán Svavarsson frá Fjármálaeftirlitinu og Guðjón Rúnarsson frá samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum verslunarinnar, Ríkisendurskoðun, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Fjármálaeftirlitinu, samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Félagi löggiltra endurskoðenda, Landssamtökum lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra sparisjóða, Seðlabanka Íslands, Kauphöll Íslands hf., Samtökum atvinnulífsins, Verslunarráði Íslands og ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur.
    Í frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á einstökum álagningarhlutföllum og lágmarksgjöldum. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að álagt eftirlitsgjald hækki um rúm 11%. Þessar tillögur byggjast á skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs.
    Nefndin vekur athygli á því að í athugasemdum við frumvarpið segir að álagningarhlutföll séu hækkuð en lágmarksgjöld séu óbreytt. Þetta er ekki alls kostar rétt þar sem í frumvarpinu er ekki lögð til hækkun álagningarhlutfalls af iðgjöldum vátryggingafélaga eða rekstrartekjum verðbréfamiðstöðva. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir hækkun á lágmarksgjöldum verðbréfafyrirtækja og jafnframt verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des. 2003.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Gunnar Birgisson.



Birgir Ármannsson.


Páll Magnússon.


Lúðvík Bergvinsson.



Ögmundur Jónasson.