Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 296. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 736  —  296. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Brynju Magnúsdóttur um stefnumótun í æskulýðs- og tómstundamálum.

     1.      Er hafin vinna við stefnumótun langtímarannsókna á sviði æskulýðsmála? Ef svo er, hverjir sinna þeirri stefnumótun og hve langt á veg er vinnan komin?
    
Ráðuneytið hefur gert samning við Rannsóknir og greiningu um framkvæmd æskulýðsrannsókna sem bera heitið Ungt fólk 2003 og Ungt fólk 2004. Í rannsókninni Ungt fólk 2003 sem gerð var á þessu ári voru spurningalistar lagðir fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla. Verið er að undirbúa kynningu á niðurstöðum þeirrar rannsóknar sem nær til menntunar, menningar og tómstunda- og íþróttaiðkunar íslenskra unglinga. Hafinn er undirbúningur í samstarfi við starfsfólk Rannsókna og greiningar vegna rannsóknarinnar Ungt fólk 2004 sem gerð verður á næsta ári. Þá er verið að leggja lokahönd á útgáfu sérstaks rits með samantekt á íslenskum æskulýðsrannsóknum sem gerðar voru á árunum 1991 til ársins 2002. Um er að ræða rannsóknir, greinar, ritgerðir o.fl. Í viðauka með ritinu fylgja niðurstöður athugana á högum íslenskra unglinga árin 1970 til 1990 en það rit var gefið út árið 1991. Þá er í undirbúningi að halda málþing um stöðu og framtíð íslenskra æskulýðsrannsókna í samstarfi við Æskulýðsráð ríkisins, Rannsóknir og greiningu og fleiri aðila.
    Árið 1992 var gerð viðamikil rannsókn á högum ungs fólks er nefndist Ungt fólk 92 að frumkvæði ráðuneytisins. Samstarf tókst við ýmsa aðila um þá rannsókn, þar á meðal Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sem hefur stutt mjög vel við æskulýðsrannsóknir. Má segja að rannsóknin Ungt fólk 92 hafi verið upphafið að nútímaæskulýðsrannsóknum hér á landi. Síðan hafa verið gerðar svipaðar rannsóknir árin 1997 og 2000 og nú árið 2003. Ekki er deilt um mikilvægi æskulýðsrannsókna, bæði fyrir stjórnvöld og aðra þá aðila sem vinna að málefnum barna og ungmenna. Þá er Ísland aðili að evrópskum rannsóknum á sviði æskulýðsmála. Í skýrslu nefndar sem skipuð var í september 2002 og skilaði niðurstöðum og tillögum á vormánuðum sl. er fjallað ítarlega um æskulýðsrannsóknir. Í skýrslunni eru margar góðar ábendingar og tillögur sem munu nýtast í þeirri vinnu sem fram undan er við stefnumótun í rannsóknum á högum ungs fólks á Íslandi.

     2.      Hefur verið stofnaður félagsforustuskóli/leiðtogaskóli í samvinnu við samtök á sviði félags- og tómstundamála? Ef svo er, hvert er hlutverk hans?
    
Ráðuneytið hefur ekki staðið að stofnun slíks skóla. Mörg æskulýðsfélög og æskulýðssamtök halda úti öflugu fræðslustarfi meðal félagsmanna sinna og gefa út viðamikið fræðsluefni. Þá starfrækir Ungmennafélag Íslands leiðtogaskóla sem hefur gefið góða raun. Á vegum Æskulýðsráðs ríkisins er verið að vinna að því að koma á samstarfi milli æskulýðssamtaka um félagsmálafræðslu.

     3.      Hvað líður undirbúningi að stofnun félags- og tómstundabrautar til stúdentsprófs, sbr. fyrirliggjandi drög að námskrá?
    
Formlega var gengið frá námskrá fyrir félags- og tómstundabraut með birtingu auglýsingar í Stjórnartíðindum 20. maí 2003. Nám á brautinni tekur tvö ár og veitir undirbúning til starfa að æskulýðs-, tómstunda- og félagsstörfum, í félagsmiðstöðvum, skólum og íþrótta- og félagasamtökum. Nemendur sem ljúka námi af brautinni geta síðan bætt við sig námi og lokið stúdentsprófi, sbr. auglýsingu nr. 54/2002 sem fjallar um viðbótarnám til stúdentsprófs fyrir þá sem ljúka námi af starfsnámsbrautum.

     4.      Hefur stuðningur við félags- og tómstundanám á háskólastigi verið aukinn?
    
Árið 2001 hóf Kennaraháskóli Íslands kennslu á tómstundabraut á grundvelli kennslusamnings við menntamálaráðuneytið. Nám á tómstundabraut er 45 eininga fjarnám sem lýkur með diplómu. Námið er ætlað starfsfólki sem vinnur að tómstundamálum í grunnskólum og félagsmiðstöðvum, hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum og á öðrum slíkum vettvangi. Námið skiptist í menntunarfræði, tómstundafræði og vettvangstengd verkefni. Einnig er unnt að taka 30 einingar í tómstundafræðum sem aukagrein í BA-námi.
    Háskóli Íslands býður upp á diplómanám í uppeldis- og félagsstarfi. Það er í boði sem 45 eininga diplómanám og jafnframt er hægt að taka uppeldis- og félagsstarf til 30 eininga sem aukagrein í BA-námi í skólanum.

     5.      Hvað líður endurskoðun laga um æskulýðsmál frá 1970? Er samvinna milli ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun laganna?
    
Ráðuneytið hefur skipað nefnd til að hefja vinnu við gerð draga að nýjum lögum um æskulýðsmál. Nefndin mun að sjálfsögðu nýta sér þá miklu vinnu er unnin var og fram kemur í áðurnefndri skýrslu. Nefndin mun væntanlega eiga samstarf við ýmsa aðila, þar á meðal Samband íslenskra sveitarfélaga. Nefndin mun hafa að leiðarljósi hagsmuni barna og ungmenna í starfi sínu. Ljóst er að verkið er flókið og mörg sjónarmið um hvernig slík lög eigi að vera og hversu ítarleg.