Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 756  —  484. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á stöðu íslenskra farskipa.

Flm.: Sigurjón Þórðarson, Gunnar Örlygsson,


Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson.

    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa fimm manna nefnd til að kanna hvernig breyta megi skattareglum og öðrum reglum sem lúta að útgerð vöruflutningaskipa þannig að íslenskar útgerðir sjái sér hag í að sigla skipum sínum undir íslenskum fána með íslenskar áhafnir. Nefndinni verði falið að fara yfir núgildandi reglur og reglur annarra þjóða og móta tillögur til að ná framangreindu markmiði.
    Nefndin skili tillögum fyrir 1. október 2004.

Greinargerð.


    Tillaga þessi miðar að því að íslensk skip sem sigla með vörur til Íslands verði að nýju mönnuð íslenskum sjómönnum. Nú er svo komið að ekkert vöruflutningaskip siglir undir íslensku flaggi. Áhafnir flutningaskipanna eru ýmist skipaðar Íslendingum að öllu leyti eða að hluta og stundum er jafnvel enginn Íslendingur um borð. Ef fram fer sem horfir mun Íslendingum í áhöfn skipanna fækka enn frekar og þeir jafnvel hverfa úr áhöfn. Sú þróun hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir sjálfstæða þjóð á eyju í miðju Atlantshafi að ráða ekki yfir þekkingu til þess að sigla með vörur til og frá landinu. Einnig skiptir miklu máli út frá mengunarsjónarmiðum, svo sem til að verja hrygningarsvæði nytjastofna, að þeir sem sigla við strendur landsins með hættulegan varning, t.d. olíu, séu staðkunnugir. Ætla má að íslenskir sjómenn séu að jafnaði staðkunnugri en útlenskir sjómenn og þekki betur þær hættur sem ber að varast við strendur Íslands.
    Norrænar þjóðir hafa farið ýmsar leiðir til þess að stuðla að því að flutningaskip sigli undir sínum þjóðfána og sé ekki „flaggað út“. Það hefur hvatt fyrirtæki til þess að „flagga skipunum“ að með því hafa þau getað ráðið sjómenn frá þróunarríkjum á launum sem eru brot af launum norrænna sjómanna. Flutningsmenn þessarar tillögu telja sérstaklega áhugavert að skoða þá leið sem Svíar hafa farið, þ.e. að allir sjómenn eru ráðnir samkvæmt innlendum kjarasamningum en skattgreiðslur af launum renna beint til útgerðarfyrirtækjanna í stað þess að renna í ríkissjóð. Sænska ríkið nýtur þess að sænskir ríkisborgarar eyða tekjum sínum í landinu en erlendir sjómenn fara til heimalands síns með tekjur sínar. Útflöggun farskipa og fækkun starfa í farmannastétt hefur margoft verið færð í tal við stjórnvöld á liðnum árum. Til upprifjunar á því skal láta hér nægja að vitna í skýrslu FFSÍ frá nóvember 1995, bls. 15:
    „Öll Norðurlöndin að Íslandi slepptu hafa hrint í framkvæmd umfangsmiklum aðgerðum til að tryggja innlent atvinnuöryggi í kaupskipaútgerð í samkeppni við ódýrt vinnuafl frá þróunarlöndum og Austur-Evrópu. Þessum aðgerðum er einnig ætlað að gera eigin skráningarfána eftirsóknarverðan í krafti rekstrarskilyrða til jafns við þau sem ríkja á alþjóðamörkuðum.
    Í ljósi þess að atvinnutækifærum íslenskra farmanna hefur fækkað um meira en helming á undangengnum fimm árum og að kaupskipaflotinn hefur ekki verið minni um áratuga skeið og þess utan eru flest skip flotans undir erlendum skráningarfánum, þá ríkja nú hérlendis hliðstæð skilyrði við þau sem urðu forsendur fyrir áðurnefndum stjórnvaldsaðgerðum á hinum Norðurlöndunum.
    Markmið úttektarinnar yrði að meta ávinning og kostnað fyrir íslenskan þjóðarbúskap í víðustu merkingu þeirra orða, af aðgerðum hliðstæðum við þær sem gripið hefur verið til á öðrum Norðurlöndum. Slík úttekt er nauðsynlegur grunnur fyrir Alþingi og stjórnvöld að byggja á, við ákvarðanir um hvort grípa eigi til aðgerða hérlendis, eður ei.
    Fyrir liggja ýmsar athuganir á stöðu íslenskrar kaupskipaútgerðar og atvinnuöryggi íslenskra farmanna, sbr. eftirfarandi:
          Mönnun, skráningar og rekstur kaupskipa. Reykjavík 1991.
          Skráning íslenskra kaupskipa. Skýrsla nefndar vegna skráningarreglna íslenskra kaupskipa. Samgönguráðuneytið 1993.
    Í framangreindum skýrslum er þó ekki lagt mat á þjóðhagslegan ávinning né kostnað af opinberum aðgerðum.
    Fyrrgreind hagsmunasamtök telja að ekki sé tímabært að tíunda í smáatriðum alla þá þætti sem úttektin skuli ná til, fyrr en fyrir liggi vilji stjórnvalda til að framkvæma úttektina. Sömu aðilar eru að sjálfsögðu reiðubúnir til að veita allar umbeðnar upplýsingar en árétta samtímis að þeir óska ekki eftir beinni aðild að úttektinni, þannig að niðurstöður hennar verði sannanlega óhlutdrægar.
    Með hliðsjón af áhugaleysi og sinnuleysi samtaka útgerða kaupskipa gagnvart sameiginlegu átaki til að efla samkeppnisstöðu atvinnu íslenskra farmanna og rekstur kaupskipa í samvinnu með stjórnvöldum, virðist benda til þess að samtök farmanna verða að setja sér nýja stefnumörkun um eflingu atvinnunnar.“