Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 449. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 820  —  449. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um undanþágur frá greiðslu virðisaukaskatts.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margar undanþágur eru frá greiðslu virðisaukaskatts og hvað er áætlað að þær nemi háum fjárhæðum? Svarið óskast sundurliðað eftir starfsgreinum.

    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu. Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá nær hún til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó 3. mgr. 2. gr. laganna.
    Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er upptalning á þeirri vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, en þar kemur fram að eftirtalin vinna og þjónusta sé undanþegin virðisaukaskatti:
     1.      Þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta.
     2.      Félagsleg þjónusta, svo sem rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila og upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta.
     3.      Rekstur skóla og menntastofnana, svo og ökukennsla, flugkennsla og danskennsla.
     4.      Starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.
     5.      Íþróttastarfsemi, svo og leiga á aðstöðu til íþróttastarfsemi, aðgangseyrir að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum.
     6.      Fólksflutningar. Flutningur á ökutækjum með ferjum, sem eru í beinum tengslum við fólksflutninga, telst til fólksflutninga samkvæmt þessum staflið.
     7.      Póstþjónusta sem opinber aðili hefur einkaleyfi á, samkvæmt póstlögum, nr. 33/1986. Undanþágan nær einnig til viðtöku og dreifingar á öðrum árituðum bréfapóstsendingum, þar með talin póstkort, blöð og tímarit, og til almennra dreifisendinga og opinna bréfa.
     8.      Fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða. Útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða er þó skattskyld, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Sama gildir um sölu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.
     9.      Vátryggingarstarfsemi.
     10.      Þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun.
     11.      Happdrætti og getraunastarfsemi.
     12.      Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi.
     13.      Þjónusta ferðaskrifstofa.
     14.      Útfararþjónusta og prestsþjónusta hvers konar.
    Í 3. gr. laga nr. 50/1988 eru tilgreindir þeir aðilar sem skyldugir eru til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð.
    Í 4. gr. laga nr. 50/1988 kemur fram að eftirtaldir aðilar eru undanþegnir skattskyldu skv. 3. gr. sömu laga:
     1.      Aðilar sem eingöngu selja vöru eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti.
     2.      Listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000, svo og uppboðshaldarar að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum, sbr. lög nr. 36/1987.
     3.      Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 220.000 kr. á ári.
     4.      Skólamötuneyti.
    Ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar sem geri kleift að áætla hvað undanþágur frá greiðslu virðisaukaskatts skv. 3. mgr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 50/1988 nemi háum fjárhæðum.
    Tekið skal fram að í 42. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem nánar tilgreindir aðilar hafa innt af hendi. Hér að aftan er gerð grein fyrir slíkum endurgreiðslum á virðisaukaskatti fyrir árið 2002 (fjárhæðir eru í milljónum króna):

Vegna íbúðarhúsnæðis 1.312
Til opinberra aðila 2.764
Til erlendra aðila 385
Af vörum til manneldis 820
Vegna hitunar húsa og laugarvatns 221
Flugstöð Leifs Eiríkssonar, bygging 18
Aðrar endurgreiðslur 265
5.785