Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 570. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 860  —  570. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, einn af Öldrunarráði Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir skulu skipaðir án tilnefningar, þar af skal annar þeirra vera starfsmaður öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn. Samstarfsnefndin skal hafa sérstakan ritara og skal kostnaður við störf nefndarinnar greiddur úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

2. gr.

    Í stað 2. mgr. 9. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til:
     1.      Byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr., og byggingar stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr., en þó ekki til byggingar íbúða í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.
     2.      Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr. og 14. gr., að frátöldum íbúðum í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.
     3.      Viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila.
     4.      Reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, sbr. 14. gr.
     5.      Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.
    Þá er Framkvæmdasjóði aldraðra heimilt að greiða húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins. Skilyrði er að hvorki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra skv. 2. mgr. til að byggja hjúkrunarheimilið né að veittur hafi verið styrkur frá ríkinu með öðrum hætti. Húsaleiga samkvæmt þessari málsgrein skal greidd að undangengnu útboði og telst hún ígildi stofnkostnaðar.
    Þátttaka sveitarfélaga í uppbyggingu hjúkrunarheimila skal aldrei vera minni en sem nemur 15% af stofnkostnaði. Þegar ríki og sveitarfélög byggja sameiginlega skal eignarhlutur þeirra vera í sömu hlutföllum og skipting stofnkostnaðar. Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra telst ríkisframlag. Þátttaka sveitarfélaga í greiðslu leigu fyrir hjúkrunarheimili skal aldrei vera minni en sem nemur 15% af leigunni.
    Framlög skv. 2. mgr. og húsaleiga skv. 3. mgr. eru ekki veitt nema heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi veitt framkvæmda- og rekstrarleyfi skv. 16. gr. Umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðublöðunum skulu fylgja sérstök skilmálablöð.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða skv. 3. tölul. 13. gr. eða stofnun fyrir aldraða skv. 14. gr. skal afla framkvæmda- og rekstrarleyfis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Skulu umsóknir um framkvæmda- og rekstrarleyfi vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðublöðunum skulu fylgja sérstök skilmálablöð.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi, sbr. 1. mgr., fyrir dagvist eða stofnun fyrir aldraða skal fylgja umsögn og þarfagreining þjónustuhóps aldraðra á því starfssvæði þar sem stofnunin mun verða. Enn fremur skulu fylgja upplýsingar um verksvið stofnunar og staðsetningu, svo og uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Þá skal fylgja greinargerð um fjármögnun, eigendur og fjárhag þeirra og skýrsla um starfsáætlun, stjórn, starfsfólk, rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi vegna meiri háttar breytinga á húsakynnum og starfsemi stofnunar fyrir aldraða skulu fylgja upplýsingar um staðsetningu, uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og um afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Enn fremur skulu fylgja upplýsingar um það hvort breytingarnar hafi áhrif á umfang starfseminnar og hvort þær leiði til fjölgunar eða fækkunar vistmanna. Þá skulu fylgja upplýsingar um fjármögnun breytinganna.
     d.      5. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra veitir framkvæmda- og rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum þessara laga og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt, sbr. og lög um heilbrigðisþjónustu.
     e.      Fyrirsögn á undan greininni verður: Framkvæmda- og rekstrarleyfi.

4. gr.

    17. gr. laganna og fyrirsögn á undan greininni falla brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í framhaldi af skýrslu samráðshóps um málefni eldri borgara frá 19. nóvember 2002 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vinnuhóp til að gera tillögur um breytt hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í vinnuhópnum voru fjórir starfsmenn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, Svanhvít Jakobsdóttir, skrifstofustjóri fjármálaskrifstofu, formaður, Hrafn Pálsson, deildarstjóri, Hermann Bjarnason, deildarstjóri, og Vilborg Þ. Hauksdóttir, deildarstjóri. Vinnuhópurinn skilaði skýrslu til ráðherra 30. maí 2003 þar sem gerðar voru tillögur og fylgdi þeim drög að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og drög að reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra. Þá gerði vinnuhópurinn jafnframt tillögu um að umsækjendur um framkvæmda- og rekstrarleyfi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra fengju afhent sérstök umsóknareyðublöð með skilmálum og flæðiriti þar sem lýst er ferli umsóknar. Skilmálarnir yrðu hluti umsóknar og ígildi samnings yrði umsókn samþykkt.
    Frumvarpið tekur mið af tillögum samráðshóps um málefni eldri borgara frá nóvember 2002 og tillögum vinnuhóps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá maí 2003. Gerir frumvarpið ráð fyrir heimild til að greiða úr Framkvæmdasjóði aldraðra húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili sem byggt hefur verið fyrir aldraða af öðrum en ríkinu. Húsaleiga sem greidd er með þessum hætti skal greidd að undangengnu útboði og telst ígildi stofnkostnaðar. Þá er gert ráð fyrir því nýmæli að heimiluð eru framlög til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila. Enn fremur er lagt til að þátttaka sveitarfélaga í uppbyggingu hjúkrunarheimila sé aldrei minni en 15% af stofnkostnaði og þegar ríki og sveitarfélög byggja sameiginlega sé eignarhluti þeirra í sömu hlutföllum og skipting stofnkostnaðar. Áfram er gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geti samið um aðra kostnaðarskiptingu og eignarhlut. Þegar ríki og sveitarfélög leigja sameiginlega húsnæði fyrir hjúkrunarheimili er gert ráð fyrir því að leiga skiptist í sömu hlutföllum og stofnkostnaður.
    Þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði á ákvæðum um framkvæmda- og rekstrarleyfi eru til þess að gera framkvæmdina skýrari. Í núgildandi lögum er gert að skilyrði að áður en framkvæmdir og rekstur hefst þá skuli heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veita sérstakt framkvæmda- og rekstrarleyfi. Þessu er ekki breytt með frumvarpinu en talið mikilvægt að skerpa á framkvæmdinni að því er varðar umsóknir og leyfisveitingar.
    Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir breytingum á 4. gr. laganna sem fjallar um samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Gert er ráð fyrir að annar fulltrúi sem skipaður er án tilnefningar verði starfsmaður öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Þá er skýrt tekið fram að kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr Framkvæmdasjóði aldraðra en núgildandi ákvæði um það eru í reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra. Ekki eru lagðar til aðrar breytingar á skipan nefndarinnar en talið er að breytingar þessar leiði m.a. til aukins frumkvæðis heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í uppbyggingu öldrunarstofnana.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 4. gr. laganna er fjallað um skipan samstarfsnefndar um málefni aldraðra og gerir frumvarpið ráð fyrir að skipan nefndarinnar verði óbreytt. Í frumvarpinu er þó tekið fram að annar fulltrúi sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar skuli vera starfsmaður öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Þá er jafnframt tekið fram að nefndin skuli hafa ritara og að kostnaður af störfum nefndarinnar verði greiddur úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Ákvæði 2. mgr. 4. gr. laganna eru felld brott en þar er kveðið á um að sérstakur starfsmaður öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu skuli vera ritari samstarfsnefndar um málefni aldraðra.

Um 2. gr.

    Í stað 2. mgr. 9. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar. Helstu breytingar á 9. gr. eru:
     a.      Ákvæði 1. og 2. tölul. 2. mgr. eru óbreytt að efni til og staðfesta núgildandi framkvæmd. Tekið er fram að ekki sé veitt fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra til íbúða í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga og er það jafnframt í samræmi við núgildandi framkvæmd.
     b.      Ákvæði 3. tölul. 2. mgr. eru felld brott þar sem Framkvæmdasjóður aldraðra hefur ekki veitt fjármagn til sveitarfélaga og heilsugæslustöðva til að þróa skipulagða heimaþjónustu fyrir aldraða. Frumvarpið gerir ráð fyrir að í 3. tölul. verði sett ákvæði um að fjármagn verði veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila. Er hér um nýmæli að ræða.
     c.      Ákvæði 4. tölul. 2. mgr. eru óbreytt en gert er ráð fyrir að hætt verði að setja fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í áföngum á tímabilinu 2004–2008. Þegar hafa verið stigin fyrstu skref í þá átt með því að lækka rekstrarlið Framkvæmdasjóðs aldraðra um 45 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004.
     d.      Ákvæði 5. tölul. 2. mgr. um framlög til rannsókna, kennslu og kynningar á öldrunarmálum eru felld brott til samræmis við það að fjármagn úr Framkvæmdasjóði aldraðra verði fyrst og fremst veitt til uppbyggingar á öldrunarþjónustu. Framlög til rannsókna, kennslu og kynningar sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu eru áfram veitt skv. 5. tölul. 2. mgr. í frumvarpinu.
     e.      Ákvæði 6. tölul. 2. mgr. verður 5. tölul. samkvæmt frumvarpinu. Í núgildandi lögum segir að Framkvæmdasjóður aldraðra skuli veita fjármagn til annarra verkefna sem eru í samræmi við markmið laganna. Í frumvarpinu er orðalagi breytt á þann veg að Framkvæmdasjóður aldraðra skuli veita fjármagn til annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.
    Ákvæði 3. mgr. heimila Framkvæmdasjóði aldraðra það nýmæli að greiða húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005. Skilyrði er að hvorki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að byggja hjúkrunarheimilið né að veittur hafi verið styrkur frá ríkinu með öðrum hætti. Húsaleiga sem greidd er að undangengnu útboði með þessum hætti telst ígildi stofnkostnaðar.
    Í 4. mgr. er fjallað um greiðslu stofnkostnaðar og eignarhlut þegar um er að ræða hjúkrunarheimili sem sveitarfélög taka þátt í að byggja. Gerir frumvarpið ráð fyrir að þátttaka sveitarfélaga verði aldrei minni en sem nemur 15% af stofnkostnaði. Þegar ríki og sveitarfélög byggja sameiginlega skal eignarhlutur þeirra vera í sömu hlutföllum og skipting stofnkostnaðar. Þó er ríki og sveitarfélagi heimilt að semja um aðra kostnaðarskiptingu og fer þá eignarhlutur þeirra eftir samkomulaginu. Tekið er fram í ákvæðinu að framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra sé ríkisframlag en gert er ráð fyrir því að eftir sem hingað til verði framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra 40% af stofnkostnaði. Þá er tekið fram í frumvarpinu að þátttaka sveitarfélaga í greiðslu leigu fyrir hjúkrunarheimili skuli aldrei vera minni en sem nemur 15% af leigunni. Talið var rétt að setja ákvæði í lögin um stofnkostnað og eignarhlut þar sem nokkur óvissa hefur verið um það hvernig skuli staðið að greiðslum í þessum tilvikum.
    Í 5. mgr. eru tekin af öll tvímæli um að framlög og húsaleiga skuli ekki veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra nema heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi veitt framkvæmda- og rekstrarleyfi skv. 16. gr. laganna. Er gert ráð fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið útbúi sérstök eyðublöð fyrir umsóknir um framkvæmda- og rekstrarleyfi og framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Umsóknunum fylgi einnig sérstök skilmálablöð.
    3. mgr. 9. gr. laganna verður 6. mgr.

Um 3. gr.

    Í núgildandi lögum um málefni aldraðra er fjallað um framkvæmdaleyfi og rekstrarleyfi í 16. og 17. gr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að 16. og 17. gr. verði sameinaðar í eina grein, 16. gr. Í a-lið 3. gr. eru lagfæringar á orðalagi til samræmis við þá breytingu og jafnframt er bætt við nýjum málslið sem kveður á um að umsóknir um framkvæmda- og rekstrarleyfi skuli vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin séu af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðu- og skilmálablöð eru birt í fylgiskjali II með frumvarpinu.
    Í b-lið 3. gr. eru sameinuð ákvæði 16. og 17. gr. laganna um hvað skuli fylgja beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir dagvist eða stofnun fyrir aldraða. Ekki er um að ræða efnislegar breytingar á ákvæðunum.
    Í c-lið 3. gr. er nánar tiltekið hvað skuli fylgja beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi vegna meiri háttar breytinga á húsakynnum og starfsemi stofnunar fyrir aldraða. Í 16. gr. núgildandi laga segir einungis að beiðni skuli fylgja sömu upplýsingar og fylgi beiðni um framkvæmdaleyfi. Er talið skýrara að telja upp nákvæmlega hvað skuli fylgja beiðninni.
    Ákvæði d-liðar 3. gr. umorðar 3. mgr. 17. gr. núgildandi laga um málefni aldraðra þannig að ráðherra veiti framkvæmda- og rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum laganna og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu. Í núgildandi ákvæðum 16. gr. er gert ráð fyrir að leitað sé umsagnar samstarfsnefndar um málefni aldraðra en við nánari skoðun á framkvæmdinni þá er ekki heimilt að samþykkja framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra nema framkvæmda- og rekstrarleyfi ráðherra liggi fyrir. Í flæðiriti sem birt er í fylgiskjali II með frumvarpinu er gert ráð fyrir að nefndin fái umsóknir til umsagnar og geri í framhaldi af því tillögur til úthlutunar úr Framkvæmdasjóði aldraðra til ráðherra.
    Ákvæði e-liðar 3. gr. breytir fyrirsögn þar sem 16. og 17. gr. núgildandi laga eru sameinaðar.

Um 4. gr.

    Með ákvæðum frumvarpsins er 17. gr. núgildandi laga og fyrirsögn felld brott þar sem ákvæðin hafa verið sameinuð í 16. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


Reglugerð
um Framkvæmdasjóð aldraðra – drög.


1. gr.
Hlutverk.

    Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.

2. gr.
Stjórn.

    Samstarfsnefnd um málefni aldraðra annast stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, sbr. 3. tölul. 5. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Þegar nefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra skal fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis taka sæti í henni.
    Samstarfsnefnd um málefni aldraðra skal árlega gera tillögur til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Skal umsóknum raðað í forgangsröð í samræmi við þörf á hverjum stað. Skal þess gætt að ekki séu gerðar tillögur um úthlutun vegna stofnana annarra en þeirra sem fengið hafa framkvæmda- og rekstrarleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 7. gr.
    Við gerð tillagna um úthlutun til nýrra verkefna skal samstarfsnefnd um málefni aldraðra styðjast við eftirfarandi:
     a.      Framlag vegna þjónustumiðstöðva aldraðra skv. a-lið 5. gr. og dagvistar skv. b-lið 5. gr. má nema allt að 20% af heildarkostnaði. Framlagið má þó ekki verða hærra en 10.500 kr. á hvern m 2 miðað við byggingarvísitölu 100.
     b.      Framlag vegna dvalarheimila og sambýla skv. c-lið 5. gr. má nema allt að 20% af heildarkostnaði með búnaði. Framlagið má þó ekki verða hærra en 8.750 kr. á hvern m 2 miðað við byggingarvísitölu 100.
     c.      Framlag vegna hjúkrunarrýmis í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila skv. d- lið 5. gr. má nema allt að 40% af heildarkostnaði með búnaði. Framlagið má þó ekki verða hærra en 28.100 kr. á hvern m 2 miðað við byggingarvísitölu 100.
     d.      Framlag vegna endurbóta skv. e-lið 5. gr. skal miðast við framlagða kostnaðaráætlun og mat á nauðsyn.
     e.      Framlög til annarra verkefna skv. h-lið 5. gr. skulu taka mið af 1. gr.
    Umsóknir um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðublöðunum skulu jafnframt fylgja skilmálablöð ráðuneytisins.

3. gr.
Varsla og reikningshald.

    Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
    Tryggingastofnun ríkisins skal ársfjórðungslega og oftar ef þörf krefur gefa Samstarfsnefnd um málefni aldraðra yfirlit um stöðu sjóðsins.
    Reikningar Framkvæmdasjóðs aldraðra fyrir nýliðið ár skulu fullgerðir um leið og aðrir reikningar Tryggingastofnunar ríkisins. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar ríkisstofnana.

4. gr.
Tekjur.

    Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra eru:
     a.      Tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Fjárhæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
     b.      Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.
     c.      Vaxtatekjur.

5. gr.
Framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

    Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til:
     a.      Byggingar þjónustumiðstöðva aldraðra sem eru starfræktar af sveitarfélögum til að tryggja eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Þjónustumiðstöðvar geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við aðra þjónustu sem aldraðir njóta.
     b.      Byggingar dagvista fyrir aldraða sem er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagvist aldraðra skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Boðið skal upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs.
     c.      Byggingar dvalarheimila og sambýla sem eru sérhönnuð fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Á stofnunum þessum skal vera varsla allan sólarhringinn og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi. Aðstaða skal vera fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á þörfum hins aldraða og skal byggjast á hjálp til sjálfshjálpar.
     d.      Byggingar hjúkrunarheimila eða hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum ætluðum öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum eða sambýlum. Þar skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing. Sérstök aðstaða skal vera fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða. Möguleiki skal vera á að einstaklingar geti komið þar til skammtímavistunar, sé þess þörf. Við hönnun skal þess sérstaklega gætt að stofnunin sé heimilisleg og að sem flestir íbúar hafi eigið herbergi.
     e.      Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem tilgreint er í a–d-liðum.
     f.      Viðhalds húsnæðis sem tilgreint er í a–d-liðum.
     g.      Reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum.
     h.      Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.

6. gr.
Húsaleiga.

    Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að greiða húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins. Skilyrði er að hvorki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra skv. 5. gr. til að byggja hjúkrunarheimilið né að veittur hafi verið styrkur frá ríkinu með öðrum hætti. Húsaleiga sem greidd er með þessum hætti telst ígildi stofnkostnaðar. Hjúkrunarheimili skal tekið á leigu að undangengnu útboði.

7. gr.
Framkvæmda- og rekstrarleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

    Framlög skv. 5. gr. og húsaleiga skv. 6. gr. eru ekki veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra nema heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi veitt framkvæmda- og rekstrarleyfi skv. 16. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
    Áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða skv. b-lið 5. gr. eða stofnun fyrir aldraða skv. c- og d-lið 5. gr. skal afla framkvæmda- og rekstrarleyfis skv. 1. mgr. Skulu umsóknir um framkvæmda- og rekstrarleyfi vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi skal fylgja umsögn og þarfagreining þjónustuhóps aldraðra á því starfssvæði þar sem stofnunin mun verða. Enn fremur skulu fylgja upplýsingar um verksvið stofnunar og staðsetningu, svo og uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Þá skal fylgja greinargerð um fjármögnun, eigendur og fjárhag þeirra og skýrsla um starfsáætlun, stjórn, starfsfólk, rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna.
    Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi vegna meiri háttar breytinga á húsakynnum og starfsemi stofnunar fyrir aldraða skv. e-lið 5. gr. skulu fylgja upplýsingar um staðsetningu, uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og um afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Enn fremur skulu fylgja upplýsingar um það hvort breytingarnar hafi áhrif á umfang starfseminnar og hvort þær leiði til fjölgunar eða fækkunar vistmanna. Þá skulu fylgja upplýsingar um fjármögnun breytinganna.
    Ráðherra veitir framkvæmda- og rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum laga um málefni aldraðra og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu.
    Um framkvæmdir skv. 5. gr. fer samkvæmt lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, eftir því sem við á.

8. gr.
Ýmis ákvæði.

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við samstarfsnefnd um málefni aldraðra, að krefja þá sem framlög hafa fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra um endurgreiðslu framlagsins ef húsnæði það sem styrkur var veittur til er notað í þágu annarra en aldraðra innan 20 ára frá því að húsnæðið var tekið í notkun.

9. gr.
Gildistaka.

    Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 12. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur brott reglugerð nr. 299/1990, um Framkvæmdasjóð aldraðra, með síðari breytingum.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,     nóvember 2003. Fylgiskjal II.


Drög að eyðublöðum fyrir umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra ásamt skilmálablöðum og flæðiritum.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Skilmálablað vegna dagvistarheimila – drög.


Staðsetning og þörf fyrir þjónustu.
Veiting framkvæmda- og rekstrarleyfis kemur einungis til álita þegar um raunverulega þörf fyrir þjónustu er að ræða að áliti þjónustuhóps aldraðra á umræddu svæði.

Við ákvörðun um staðsetningu dagvistarheimilis og annars húsnæðis fyrir aldraða skal leitast við að staðsetning húsnæðis sé þannig í byggðakjörnum að aldraðir hafi greiðan aðgang að og fái notið eðlilegrar þjónustu sem byggðakjarninn og umhverfið hefur upp á að bjóða.

Reglur um kostnað og stærðir.
Reglum er skipt í tvo flokka, reglum um hámarkskostnað og reglum um minnstu mál rýma og starfsemi sem fram á að fara í húsnæðinu.

Verið er að útfæra þessar reglur.

Fjármögnun húsnæðis.
Einkaaðilar, félög og sveitarfélög fjármagna byggingu dagvistarheimilis með allt að 20% framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra í samræmi við 2. gr. reglugerðar nr. ?, um Framkvæmdasjóð aldraðra. Framlagið felur ekki í sér eignaraðild ríkis. Staðfesting viðkomandi aðila um fjármögnun 80% hluta byggingarkostnaðar þarf að liggja fyrir og vera tryggð áður en framlag er veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við samstarfsnefnd um málefni aldraðra, að krefja þá, sem styrk hafa fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra, um endurgreiðslu framlagsins ef húsnæði það sem styrkur var veittur til er notað í öðru skyni en styrkumsókn tók til innan 20 ára frá því að húsnæðið var tekið í notkun, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. ?, um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Fjármögnun rekstrar dagvistarheimila.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir daggjald og húsnæðisgjald vegna viðhalds samkvæmt reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Daggjöldum og húsnæðisgjaldi vegna viðhalds er ætlað að standa undir öllum rekstrarkostnaði við þjónustu og kostnaði við að mæta þeim kröfum sem gerðar eru um rekstur dagvistar aldraðra í lögum, reglugerðum og í skilmálablaði. Daggjöld og húsnæðisgjald vegna viðhalds miðast við að rekstraraðili beri fulla fjárhagslega ábyrgð á öllum rekstri sínum, þ.m.t. á greiðslu launa, lífeyrisiðgjöldum vegna starfsmanna sinna, starfstengdum kostnaði eins og t.d. launum í barnsburðarleyfi, launum staðgengla vegna lengri veikinda, námsleyfa og námskostnaðar, svo og hugsanlegum bótakröfum frá vistmönnum.

Húsnæðisgjald sem ætlað er til viðhalds húsnæðis er reiknað út frá stærð þess, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 921/2002, um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Á árinu 2003 er gjaldið 2000 kr. á m 2 á ári.

Stjórnendur dagvistar innheimta hjá vistmönnum 500 kr. fyrir hvern dvalardag. Mánaðarlegt gjald má þó aldrei verða hærra en sem nemur einstaklingsgrunnlífeyri Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 45/1990. Noti vistmaður flutningsþjónustu er greiðsla vegna hennar innifalin í gjaldinu sem hann greiðir fyrir hvern dvalardag. Rekstraraðila er óheimilt að krefja vistmenn um greiðslur umfram það sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir vegna þeirrar þjónustu sem vistmenn eiga að njóta sér að kostnaðarlausu.

Greiðslutilhögun.
Daggjöld dagvistarheimila eru ákvörðuð af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og birt í reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana í upphafi hvers árs. Við útreikning er m.a. tekið tillit til meðalrekstrarkostnaðar allra dagvistarheimila og heimilaðra fjárveitinga í fjárlögum. Dagvistarheimilin senda reikning í lok mánaðar til Tryggingastofnunar ríkisins fyrir fjölda vistmanna mánaðarins. Tryggingastofnun ríkisins greiðir reikninginn í byrjun mánaðarins á eftir.

Dagvistarheimili sem falla undir B-lið reglugerðar um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum fá greitt fyrir fram 95% af áætluðum daggjöldum mánaðarins og skulu greiðslur inntar af hendi fyrsta virka dag mánaðarins. Eftirstöðvar daggjalda mánaðarins greiðast samkvæmt uppgjörsreikningi eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar á eftir.

Húsnæðisgjald vegna viðhalds verður greitt tvisvar sinnum á ári. Greiðslur skal inna af hendi fyrsta virka dag mánaðanna apríl og september.

Daggjald er greitt fyrir einn vistmann á dag.

Kröfur um aðbúnað og þjónustu.
Tryggja ber vistmönnum dagvistarrýmis umönnun á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða hverju sinni og er í samræmi við þau markmið sem fram koma í 1. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Dagvistun er stuðningsúrræði við aldraða sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima.

Í dagvistun aldraðra skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Boðið skal upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs, sbr. 3. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999.

Rekstraraðila er heimilt að kaupa sérhæfða heilbrigðisþjónustu og stoðþjónustu af sjálfstætt starfandi aðilum enda tryggi hann að þeir uppfylli ekki minni kröfur en gerðar eru til rekstraraðila um þjónustu í skilmálablaði þessu.

Vistmenn eigi kost á fæði sem m.a. tekur mið af manneldismarkmiðum Íslendinga.

Vistmenn eigi kost á félags- og tómstundaþjónustu sem er við hæfi og tryggir virkni þeirra.

Dagvistarheimili skulu eftir því sem við á, uppfylla kröfur laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og kröfur heilbrigðisreglugerða.

Dagvistarheimili skulu skapa þannig umhverfi og andrúmsloft á heimilinu að vistmönnum finnist aðstæður vera heimilislegar og notalegar. Stjórnendur heimilisins skulu sjá til þess að starfsfólk sýni virðingu og lipurð í samskiptum við vistmenn. Við val á starfsmönnum skal gera kröfu um hæfileika á sviði mannlegra samskipta.

Dagvistarheimili framfylgir ákvæðum stjórnsýslulaga vegna þeirrar stjórnsýslu sem heimilunum er falið að annast og er hluti þeirrar þjónustu, sem þau eiga að veita.

Gæði og markmið.
Rekstraraðili skal almennt setja sér það markmið í rekstri sínum að veita eins góða þjónustu og umönnun og kostur er miðað við þá fjármuni, sem rekstraraðili hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma. Meginmarkmið þjónustunnar er að styðja vistmenn til sjálfshjálpar og gera þeim kleift að lifa lífi sem þeim er eiginlegt og að öðlast lífsfyllingu þrátt fyrir sjúkdóma og fötlun.

Skráning og meðferð ábendinga og kvartana er hluti af innra eftirlitskerfi rekstraraðila. Rekstraraðili skal safna og skrá kvartanir frá vistmönnum og aðstandendum þeirra vegna þjónustunnar. Skulu allar kvartanir fá formlega afgreiðslu.

Faglegt eftirlit.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið áskilur sér rétt til að skoða aðstæður þar sem þjónustan er veitt og kalla eftir upplýsingum sem ráðuneytið telur þörf á hverju sinni.

Endurskoðun á framkvæmd og fjármálum.
Ríkisendurskoðun er heimilt að gera fjárhagsendurskoðun á allri starfsemi dagvistarheimila sem fjallað er um í skilmálablaði þessu. Í því sambandi er rekstraraðila skylt að afhenda Ríkisendurskoðun alla reikninga sína, öll bókhaldsgögn og önnur gögn sem nauðsynleg eru við endurskoðunina, sbr. lög nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Ríkisendurskoðun getur einnig framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá rekstraraðila, sbr. lög nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Upplýsingaskylda.
Rekstraraðili skal ótilkvaddur senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun fyrir lok mars endurskoðaðan ársreikning ársins á undan, ásamt rekstrarskýrslu þar sem gerð er grein fyrir starfseminni.

Rekstraraðili skuldbindur sig til að upplýsa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tafarlaust megi honum vera það ljóst að hann geti ekki staðið við fjárhagslegar eða faglegar kröfur skilmálablaðs þessa.

Rekstraraðili skuldbindur sig til að upplýsa Tryggingastofnun ríkisins um nýja einstaklinga og brottför vistmanna vegna daggjalda.

Fjárreiður og fjárhagslegar ráðstafanir.
Um reikningshald og endurskoðun ársreiknings gilda ákvæði laga um ársreikninga, nr. 144/1994, og laga um bókhald, nr. 145/1994.

Þagnarskylda.
Rekstraraðili og starfsmenn hans eru bundnir þagnarskyldu um persónulega hagi þeirra sem dagvistina sækja. Þagnarskyldan gildir þrátt fyrir að starfsmaður láti af störfum.


Skilmálablað vegna
dvalarheimila (sambýla) aldraðra – drög.


Staðsetning og þörf fyrir þjónustu.
Veiting framkvæmda- og rekstraleyfis kemur einungis til álita þegar um raunverulega þörf fyrir þjónustu er að ræða að áliti þjónustuhóps aldraðra á umræddu svæði.

Við ákvörðun um staðsetningu dvalarheimilis og annars húsnæðis fyrir aldraða skal leitast við að staðsetning húsnæðis sé þannig í byggðakjörnum að aldraðir hafi greiðan aðgang að og fái notið eðlilegrar þjónustu sem byggðakjarninn og umhverfið hefur upp á að bjóða.

Reglur um kostnað og stærðir.
Reglum er skipt í tvo flokka, reglum um hámarkskostnað og reglum um minnstu mál rýma og starfsemi sem fram á að fara í húsnæðinu.

Verið er að útfæra þessar reglur.

Fjármögnun húsnæðis.
Einkaaðilar, félög og sveitarfélög fjármagna byggingu dvalarheimilis með allt að 20% framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra í samræmi við 2. gr. reglugerðar nr. ?, um Framkvæmdasjóð aldraðra. Framlagið felur ekki í sér eignaraðild ríkis. Staðfesting viðkomandi aðila um fjármögnun 80% hluta byggingarkostnaðar þarf að liggja fyrir og vera tryggð áður en framlag er veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við samstarfsnefnd um málefni aldraðra, að krefja þá, sem styrk hafa fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra, um endurgreiðslu framlagsins ef húsnæði það sem styrkur var veittur til er notað í öðru skyni en styrkumsókn tók til innan 20 ára frá því að húsnæðið var tekið í notkun, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. ?, um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Fjármögnun rekstrar dvalarheimila.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir daggjald og húsnæðisgjald vegna viðhalds samkvæmt reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Daggjöldum og húsnæðisgjaldi vegna viðhalds er ætlað að standa undir öllum rekstrarkostnaði við þjónustu og kostnaði við að mæta þeim kröfum sem gerðar eru um rekstur dvalarheimilis í lögum, reglugerðum og í skilmálablaði. Daggjöld og húsnæðisgjald vegna viðhalds miðast við að rekstraraðili beri fulla fjárhagslega ábyrgð á öllum rekstri sínum, þ.m.t. á greiðslu launa, lífeyrisiðgjöldum vegna starfsmanna sinna, starfstengdum kostnaði eins og t.d. launum í barnsburðarleyfi, launum staðgengla vegna lengri veikinda, námsleyfa og námskostnaðar, svo og hugsanlegum bótakröfum frá vistmönnum. Rekstraraðila ber að tryggja vistmenn dvalarheimilisins skv. 10. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.

Rekstraraðila er ekki skylt að kosta eftirfarandi þjónustu:
     a.      Kostnað vegna dvalar vistmanns á sjúkrahúsi, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 422/1992.
     b.      Persónulega muni og aukaþjónustu, svo sem fatnað, fatahreinsun, snyrtivörur, hársnyrtingu og fótsnyrtingu, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 422/1992.

Daggjöld dvalarheimila eru ákvörðuð af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og birt í reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana í upphafi hvers árs. Við útreikning er m.a. tekið tillit til meðalrekstrarkostnaðar allra dvalarheimila og heimilaðra fjárveitinga í fjárlögum.

Húsnæðisgjald sem ætlað er til viðhalds húsnæðis er reiknað út frá stærð þess, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 921/2002, um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Á árinu 2003 er gjaldið 2000 kr. á m 2 á ári.

Dvalarheimili innheimtir greiðslur vegna kostnaðarþátttöku vistmanna í samræmi við lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Rekstraraðila er óheimilt að krefja vistmenn um greiðslur umfram það sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir vegna þeirrar þjónustu sem vistmenn eiga að njóta sér að kostnaðarlausu.

Greiðslutilhögun.
Greiðslutilhögun miðast við lagabreytingu sem tekur gildi 1. janúar 2004. Dvalarheimilið fær þá greitt fyrir fram 95% af áætluðum daggjöldum mánaðarins og verða greiðslur inntar af hendi fyrsta virka dag mánaðarins. Eftirstöðvar daggjalda mánaðarins greiðast samkvæmt uppgjörsreikningi eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar á eftir.

Húsnæðisgjald vegna viðhalds verður greitt tvisvar sinnum á ári. Greiðslur skal inna af hendi fyrsta virka dag mánaðanna apríl og september.

Í þeim mánuði sem rekstraraðili hefur rekstur skal hann taka inn á heimilið eigi færri en helming vistmanna og fær hann þá greidd daggjöld fyrir þá vistmenn sem hann tekur inn fyrir alla daga mánaðarins. Í næsta mánuði á eftir skal rekstraraðili taka inn á heimilið þann fjölda sem á vantar og fær hann þá greidd á sama hátt daggjöld fyrir þá vistmenn sem hann tekur inn á heimilið fyrir alla daga mánaðarins. Frá og með þriðja mánuði í rekstri heimilisins fær rekstraraðili einungis greitt fyrir þá vistmenn sem dvelja á heimilinu.

Daggjald er greitt dvalarheimili fyrir einn vistmann á sólarhring. Daggjaldið fellur ekki niður ef vistmaður hverfur af heimilinu í stuttan tíma, svo sem ef aðstandendur taka við vistmanni yfir helgi eða hátíðir. Fari vistmaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar er greitt 70% af daggjaldi heimilisins í allt að 30 daga en síðan fellur það niður. Við andlát vistmanns eða þegar vistmaður flytur fyrir fullt og allt af heimilinu er greitt fullt daggjald í allt að 7 daga en síðan fellur það niður.

Kröfur um þjónustu og aðbúnað.
Tryggja ber vistmönnum dvalarrýmis umönnun á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða hverju sinni og er í samræmi við þau markmið sem fram koma í 1. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og reglugerð nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu.

Á dvalarheimili skal vera varsla allan sólarhringinn og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi. Þjónustan skal byggð á einstaklingsbundnu mati á þörfum hins aldraða og skal byggjast á hjálp til sjálfshjálpar, sbr. 1. tölul. 14. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Rekstraraðili skal tryggja, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu, að vistmenn eigi kost á eftirfarandi þjónustu:

     1.      Almennri læknishjálp og sérfræðilæknishjálp.
     2.      Lyfjum.
     3.      Rannsóknum og geisla- og myndgreiningu.
     4.      Endurhæfingu, t.d. sjúkraþjálfun.
     5.      Hjálpartækjum, þó ekki gleraugum, heyrnartækjum eða hjólastólum.
     6.      Sjúkraflutningi, öðrum en þeim sem sjúkrahúsi ber að greiða.

Ef vistmaður á dvalarheimili er lagður inn á sjúkrahús dvelst hann þar á kostnað sjúkrahússins.

Rekstraraðila er heimilt að kaupa sérhæfða heilbrigðisþjónustu og stoðþjónustu af sjálfstætt starfandi aðilum enda tryggi hann að þeir uppfylli ekki minni kröfur en gerðar eru til rekstraraðila í skilmálablaði þessu vegna þjónustunnar.

Aðstaða skal vera fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu.

Vistmenn skulu fá fullt fæði sem m.a. tekur mið af manneldismarkmiðum Íslendinga ásamt sérfæði vegna ýmissa sjúkdóma og maukfæði (tube feeding).

Dvalarheimilið skal sjá vistmönnum fyrir þvotti. Enn fremur er heimilinu skylt að sjá um þvott á einkafatnaði vistmanna. Þvott á einkafatnaði sem þarfnast meðhöndlunar í efnalaug eða þvottar í höndum er dvalarheimilinu þó ekki skylt að sjá um eða greiða fyrir.

Vistmenn eigi kost á félags- og tómstundaþjónustu sem er við hæfi og tryggir virkni þeirra.

Dvalarheimili skulu eftir því sem við á uppfylla kröfur laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og kröfur heilbrigðisreglugerðar.

Dvalarheimili skulu skapa þannig umhverfi og andrúmsloft á heimilinu að vistfólki finnist aðstæður vera heimilislegar og notalegar. Stjórnendur heimilisins skulu sjá til þess að starfsfólk sýni virðingu og lipurð í samskiptum við vistmenn. Við val á starfsmönnum skal gera kröfu um hæfileika á sviði mannlegra samskipta.

Dvalarheimili framfylgja ákvæðum stjórnsýslulaga vegna þeirrar stjórnsýslu sem heimilunum er falið að annast og er hluti þeirrar þjónustu, sem þau eiga að veita.

Um réttindi vistmanna að öðru leyti gilda almenn ákvæði laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, þ.m.t. ákvæði er lúta að sjálfsákvörðunarrétti sjúklinga.

Réttur til vistunar.
Rétt til vistunar eiga einstaklingar sem eru aldraðir (67 ára og eldri), eru með öldrunarsjúkdóma eða aðra sjúkdóma sem hafa í för með sér þörf fyrir vistun á dvalarheimili, enda uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:
     a.      Eiga gilt vistunarmat, framkvæmt af þjónustuhópi aldraðra, matshópi aldraðra í Reykjavík eða öldrunarlækningadeildum sjúkrahúsa.
     b.      Hafa sótt um og/eða samþykkt dvöl á dvalarheimili.
     c.      Fullnægja búsetuviðmiðum.

Losni vistrými á heimilinu ganga þeir fyrir sem eru í mjög brýnni þörf samkvæmt vistunarmati.

Gæði og markmið.
1     Almennt.
1.1.        Rekstraraðili skal almennt setja sér það markmið í rekstri sínum að veita eins góða þjónustu og umönnun og kostur er. Meginmarkmið þjónustunnar er að styðja vistmenn til sjálfshjálpar og gera þeim kleift að lifa lífi sem þeim er eiginlegt og að öðlast lífsfyllingu þrátt fyrir sjúkdóma og fötlun. Rekstraraðili skal setja sér gæða- og þjónustumarkmið m.a. með tilliti til lágmarkskrafna og koma sér upp eigin innra eftirliti (gæðakerfi) í þeim tilgangi að unnt sé að sannreyna gæði þjónustunnar.

2 Gæðakerfi.
2.1        Reglubundin skráning.
2.1.1    Allar ákvarðanir sem varða meðferð og þjónustu við vistmenn skulu vera rekjanlegar. Halda skal skrá um ástand og hjúkrunarsögu hvers vistmanns allt frá innlögn.

2.1.2    Í samræmi við reglugerð nr. 546/1995, um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum, skal gera mat á heilsufari og hjúkrunarþörf hvers vistmanns með RAI- mati við innlögn og hvenær sem merkjanleg breyting verður á líkamlegu, andlegu eða félagslegu ástandi hans. Enn fremur skal rekstraraðili framkvæma árlega RAI-mat á öllum vistmönnum, samkvæmt nánari reglum RAI-matsnefndar. Rekstraraðili skal gæta þess við mat sitt að fylgja til hlítar reglum RAI-matsnefndar á hverjum tíma svo samræmi sé tryggt í mælingum á milli tímabila og á milli einstakra dvalarheimila.

2.2        Samfelldar gæðaumbætur. Samanburður á gæðavísum.
2.2.1    Rekstraraðili tekur árlega saman gæðavísa (quality indicators) út frá RAI-matinu. Rekstraraðili skuldbindur sig til að fylgja reglum RAI-matsnefndar, sbr. reglugerð nr. 546/1995, við mælingar á gæðavísum sínum.

2.2.2    Rekstraraðili skal setja sér markmið í samvinnu við RAI-matsnefnd um viðmiðunarmörk gæðavísa. Rekstraraðili mun birta starfsmönnum sínum og þeim sem njóta þjónustunnar framangreind markmið.

2.2.3    Rekstraraðili skal með skipulögðu og samfelldu gæðastarfi leitast við að bæta gæðin m.t.t. gæðavísanna. Fari niðurstöður RAI-mats út fyrir viðmiðunarmörk gæðavísa eins og þau eru tilgreind af RAI-matsnefnd skal rekstraraðili hrinda í framkvæmd gæðaumbótaverkefnum sem hafi það að markmiði að niðurstöður matsins haldist innan viðmiðunarmarka.

2.2.4    Reynist niðurstöður RAI-mats rekstraraðila viðvarandi undir viðmiðunarmörkum, samkvæmt nánari skilgreiningu RAI-matsnefndar, getur það leitt til lækkunar á daggjaldi og til endurskoðunar á starfsheimild rekstraraðila.

2.2.5    Rekstraraðili skal að öðru leyti setja sér það markmið í rekstri sínum að veita eins góða þjónustu og umönnun og kostur er miðað við þá fjármuni, sem rekstraraðili hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma.

2.3         Einstaklingsbundin umönnun.
2.3.1    Rekstraraðili mun gera einstaklingsbundna umönnunaráætlun fyrir hvern vistmann og nota m.a. til þess hjúkrunarskráningu og gagnasafn um heilsufar og hjúkrunarþörf á öldrunarstofnunum (MDS) og tryggja að henni sé framfylgt.

3            Ábendingar og kvartanir.
3.1        Skráning og meðferð ábendinga og kvartana er hluti af innra eftirlitskerfi rekstraraðila. Rekstraraðili skal safna og skrá kvartanir frá vistmönnum og aðstandendum þeirra vegna þjónustunnar. Skulu allar kvartanir fá formlega afgreiðslu.

Eftirlit og endurskoðun á framkvæmd og fjármálum dvalarheimila.

Faglegt eftirlit.
Landlæknir, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafa með höndum faglegt eftirlit með störfum rekstraraðila og gæðum þjónustu hans, samkvæmt þeim reglum sem gilda á hverjum tíma.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur eftirlit með starfsemi dvalarheimila og áskilur sér rétt til að skoða aðstæður þar sem þjónustan er veitt og kalla eftir upplýsingum sem ráðuneytið telur þörf á hverju sinni.

Endurskoðun á framkvæmd og fjármálum.
Ríkisendurskoðun er heimilt að gera fjárhagsendurskoðun á allri starfsemi dvalarheimila sem fjallað er um í skilmálablaði þessu. Í því sambandi er rekstraraðila skylt að afhenda Ríkisendurskoðun alla reikninga sína, öll bókhaldsgögn og önnur gögn sem nauðsynleg eru við endurskoðunina, sbr. lög nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Ríkisendurskoðun getur einnig framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá rekstraraðila, sbr. lög nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Upplýsingaskylda.
Rekstraraðili skal ótilkvaddur senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun fyrir lok mars endurskoðaðan ársreikning ársins á undan, ásamt rekstrarskýrslu þar sem gerð er grein fyrir starfseminni.

Rekstraraðili skuldbindur sig til að upplýsa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tafarlaust megi honum vera það ljóst að hann geti ekki staðið við fjárhagslegar eða faglegar kröfur skilmálablaðs þessa.

Rekstraraðili skuldbindur sig til að upplýsa Tryggingastofnun ríkisins um nýja einstaklinga, breytingar á aðsetri þeirra, brottför og andlát vegna daggjalda, bótagreiðslna til vistmanna frá Tryggingastofnun ríkisins og þátttöku vistmanna í vistunarkostnaði.

Fjárreiður og fjárhagslegar ráðstafanir.
Um reikningshald og endurskoðun ársreiknings gilda ákvæði laga um ársreikninga, nr. 144/1994, og laga um bókhald, nr. 145/1994.

Þagnarskylda.
Rekstraraðili og starfsmenn hans eru bundnir þagnarskyldu um persónulega hagi vistmanna. Þagnarskyldan gildir þrátt fyrir að starfsmaður láti af störfum.

Févarsla og umsýsla.
Vistmaður á dvalarheimili annast sjálfur févörslu og umsýslu fjármuna sinna.

Rekstraraðili skal þó bjóða upp á að haldið verði utan um vasapeninga vistmanna frá Tryggingastofnun ríkisins með öruggum hætti.

Eftirfarandi eru möguleikar til févörslu og umsýslu fjármuna vistmanna:

A. Fjárhaldsmaður. Fjárhaldsmaður vistmanns annast fjárreiður samkvæmt umboði vistmanns.

B. Umboð. Rekstraraðili annast fjárreiður vistmanns, sé þess óskað og samkvæmt umboði vistmanns gagnvart Tryggingastofnun ríkisins. Stuðst skal við skriflegt umboð frá vistmanni eða fjárhaldsmanni hans. Rekstraraðili getur leitað eftir þjónustu bankanna til að annast févörslu vistmanns.

C. Vistmannabókhald. Rekstraraðili ber ábyrgð á því að sérstakt bókhald sé haldið þar sem skráðar eru fjárreiður fyrir hvern vistmann um sig, svo sem vasapeningatekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og úttektir, greiðslur frá lífeyrissjóðum og aðrar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.

D. Gjaldkeri. Rekstraraðili felur ábyrgum starfsmanni þá ábyrgð að gæta hagsmuna vistmanna hvað varðar notkun á vasapeningum þeirra og öðrum eignum sem þeir hafa hjá sér á heimilinu auk þess að annast fjárreiður.

E. Ráðstöfun vasapeninga. Rekstraraðila er einungis heimilt að ráðstafa vasapeningum vistmanns þannig að þeir nýtist viðkomandi vistmanni til persónulegra þarfa, efli sjálfstæði og auki ánægju hans. Ekki er ætlast til að vistmenn greiði af vasapeningum sínum venjulega innanstokksmuni, svo sem húsgögn til sameiginlegra nota, rúm, rúmfatnað og gardínur, nema um séróskir sé að ræða. Hins vegar er heimil viðeigandi ráðstöfun á vasapeningum til t.d. ferðalaga eða annarra skemmtana, til kaupa á sælgæti, tóbaki, persónulegum munum, tískufatnaði og jafnvel húsbúnaði í eigið herbergi, allt eftir ástandi og þörfum hvers og eins.


Skilmálablað vegna hjúkrunarheimila – drög.


Staðsetning og þörf fyrir þjónustu.
Veiting framkvæmda- og rekstraleyfis kemur einungis til álita þegar um raunverulega þörf fyrir þjónustu er að ræða að áliti þjónustuhóps aldraðra á umræddu svæði.

Við ákvörðun um staðsetningu hjúkrunarheimilis og annars húsnæðis fyrir aldraða skal leitast við að staðsetning húsnæðis sé þannig í byggðakjörnum að aldraðir hafi greiðan aðgang að og fái notið eðlilegrar þjónustu sem byggðakjarninn og umhverfið hefur upp á að bjóða.

Reglur um kostnað og stærðir.
Reglum er skipt í tvo flokka, reglum um hámarkskostnað og reglum um minnstu mál rýma og starfsemi sem fram á að fara í húsnæðinu.

Verið er að útfæra þessar reglur.

Fjármögnun húsnæðis.
Einkaaðilar, félög og sveitarfélög fjármagna byggingu hjúkrunarheimila með allt að 40% framlagi úr Framkvæmdajóði aldraðra í samræmi við 2. gr. reglugerðar nr. ?, um Framkvæmdasjóð aldraðra. Framlagið felur ekki í sér eignaraðild ríkis. Staðfesting frá viðkomandi aðila um fjármögnun 60% hluta byggingarkostnaðar þarf að liggja fyrir og vera tryggð áður en framlag er veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Þátttaka sveitarfélaga í uppbyggingu hjúkrunarheimila skal aldrei vera minni en sem nemur 15% af stofnkostnaði. Þegar ríki og sveitarfélög byggja sameiginlega skal eignarhlutur þeirra vera í sömu hlutföllum og skipting stofnkostnaðar. Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra telst ríkisframlag.

Um framkvæmdir fer samkvæmt lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda.

Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að greiða húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins. Skilyrði er að hvorki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að byggja hjúkrunarheimilið né að veittur hafi verið styrkur frá ríkinu með öðrum hætti. Húsaleiga sem greidd er með þessum hætti skal greidd að undangengnu útboði og telst hún ígildi stofnkostnaðar.

Þátttaka sveitarfélaga í leigu skal aldrei vera minni en sem nemur 15% af leigunni.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við samstarfsnefnd um málefni aldraðra, að krefja þá, sem styrk hafa fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra, um endurgreiðslu framlagsins ef húsnæði það sem styrkur var veittur til er notað í öðru skyni en styrkumsókn tók til innan 20 ára frá því að húsnæðið var tekið í notkun, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. ?, um Framkvæmdasjóði aldraðra.

Fjármögnun rekstrar hjúkrunarheimila.
Tryggingastofnun ríkisins greiðir daggjald og húsnæðisgjald vegna viðhalds samkvæmt reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Daggjöldum og húsnæðisgjaldi vegna viðhalds er ætlað að standa undir öllum rekstrarkostnaði við þjónustu og kostnaði við að mæta þeim kröfum sem gerðar eru um rekstur hjúkrunarheimilis í lögum, reglugerðum og í skilmálablaði. Daggjöld og húsnæðisgjald vegna viðhalds miðast við að rekstraraðili beri fulla fjárhagslega ábyrgð á öllum rekstri sínum, þ.m.t. á greiðslu launa, lífeyrisiðgjöldum vegna starfsmanna sinna, starfstengdum kostnaði eins og t.d. launum í barnsburðarleyfi, launum staðgengla vegna lengri veikinda, námsleyfa og námskostnaðar, svo og hugsanlegum bótakröfum frá vistmönnum. Rekstraraðila ber að tryggja vistmenn hjúkrunarheimilisins skv. 10. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.

Rekstraraðila er ekki skylt að kosta eftirfarandi þjónustu:
     a.      Kostnað vegna dvalar vistmanns á sjúkrahúsi, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 422/1992.
     b.      Persónulega muni og aukaþjónustu, svo sem fatnað, fatahreinsun, snyrtivörur, hársnyrtingu og fótsnyrtingu, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 422/1992.

Daggjöld hjúkrunarheimila eru ákvörðuð samkvæmt reiknilíkani heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og birt í reglugerð um daggjöld sjúkrastofnana í upphafi hvers árs. Við útreikning er m.a. tekið tillit til RAI-mats hjúkrunarheimila, meðalrekstrarkostnaðar allra heimila og heimilaðra fjárveitinga.

Húsnæðisgjald sem ætlað er til viðhalds húsnæðis er reiknað út frá stærð þess, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 921/2002, um daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum. Á árinu 2003 er gjaldið 2.000 kr. á m 2 á ári.

Hjúkrunarheimili innheimtir greiðslur vegna kostnaðarþátttöku vistfólks í samræmi við lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Rekstraraðila er óheimilt að krefja vistfólk um greiðslur umfram það sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir vegna þeirrar þjónustu sem vistmenn eiga að njóta sér að kostnaðarlausu.

Greiðslutilhögun.
Hjúkrunarheimilið fær greitt fyrir fram 95% af áætluðum daggjöldum mánaðarins og skulu greiðslur inntar af hendi fyrsta virka dag mánaðarins. Eftirstöðvar daggjalda mánaðarins greiðast samkvæmt uppgjörsreikningi eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar á eftir.

Húsnæðisgjald vegna viðhalds verður greitt tvisvar sinnum á ári. Greiðslur skal inna af hendi fyrsta virka dag mánaðanna apríl og september.

Í þeim mánuði sem rekstraraðili hefur rekstur skal hann taka inn á heimilið eigi færri en helming vistmanna og fær greidd daggjöld fyrir þá vistmenn sem hann tekur inn fyrir alla daga mánaðarins. Í næsta mánuði á eftir skal rekstraraðili taka inn á heimilið þann fjölda sem á vantar og fær greidd á sama hátt daggjöld fyrir þá vistmenn sem hann tekur inn á heimilið fyrir alla daga mánaðarins. Frá og með þriðja mánuði í rekstri heimilisins fær rekstraraðili einungis greitt fyrir þá vistmenn sem dvelja á heimilinu.

Daggjald er greitt hjúkrunarheimili fyrir einn vistmann á sólarhring. Daggjaldið fellur ekki niður ef vistmaður hverfur af heimilinu í stuttan tíma, svo sem ef aðstandendur taka við vistmanni yfir helgi eða hátíðir. Fari vistmaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar er greitt 70% af daggjaldi heimilisins í allt að 30 daga en síðan fellur það niður. Við andlát vistmanns eða þegar vistmaður flytur fyrir fullt og allt af heimilinu er greitt fullt daggjald í allt að 7 daga en síðan fellur það niður.

Kröfur um þjónustu og aðbúnað.
Tryggja ber vistmönnum hjúkrunarrýmis umönnun á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða hverju sinni og er í samræmi við þau markmið sem fram koma í 1. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og reglugerð nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu.

Þjónustan á við um hjúkrunarrými skv. 2. tölul. 14. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og þá þjónustu sem því fylgir. Rekstraraðili skal tryggja vistmönnum eftirfarandi þjónustu:

     a.      Hjúkrun og aðhlynningu allan sólarhringinn.
     b.      Almenna læknishjálp og sérfræðilæknishjálp.
     c.      Lyf.
     d.      Rannsóknir og geisla- og myndgreiningu.
     e.      Endurhæfingu, t.d. sjúkraþjálfun.
     f.      Hjálpartæki, þó ekki gleraugu, heyrnartæki eða hjólastóla.
     g.      Sjúkraflutning, annan en þann sem sjúkrahúsi ber að greiða.
     h.      Fullt fæði.
     i.      Félagsþjónustu.
     j.      Sálgæslu.
     k.      Févörslu og umsýslu fyrir heimilismenn.
     l.      Lín og fatnað.

Ef vistmaður á hjúkrunarheimili er lagður inn á sjúkrahús dvelst hann þar á kostnað sjúkrahússins.

Rekstraraðila er heimilt að kaupa sérhæfða heilbrigðisþjónustu og stoðþjónustu af sjálfstætt starfandi aðilum enda tryggi hann að þeir uppfylli ekki minni kröfur en gerðar eru til rekstraraðila í skilmálablaði þessu vegna þjónustunnar.

Vistmönnum skal tryggð fullnægjandi hjúkrunar- og læknisþjónusta sem tekur mið af þörfum þeirra á hverjum tíma og styðst við viðurkennd viðmið.

Vistmenn skulu fá fullt fæði sem m.a. tekur mið af manneldismarkmiðum Íslendinga ásamt sérfæði vegna ýmissa sjúkdóma og maukfæði (tube feeding).

Vistmönnum skal veitt félagsþjónusta sem er við hæfi heimilismanna og tryggir virkni þeirra.

Boðið skal upp á sálgæslu eftir viðurkenndum aðferðum, þ.m.t. heimsóknir til deyjandi eða mikið veikra auk stuðnings við aðstandendur og starfsfólk.

Hjúkrunarheimili ber að varðveita og halda utan um vasapeninga vistmanna með tryggum hætti ef vistmaður eða aðstandendur vistmanns óska þess.

Hjúkrunarheimilið sér vistmönnum fyrir sængurfatnaði, líni, nærfatnaði og hreinlætisvörum og fyrir þvotti. Enn fremur er heimilinu skylt að sjá um þvott á einkafatnaði vistmanna. Þvott á einkafatnaði sem þarfnast meðhöndlunar í efnalaug eða þvottar í höndum er hjúkrunarheimilinu þó ekki skylt að sjá um eða greiða fyrir.

Hjúkrunarheimilið skal eftir því sem við á uppfylla kröfur laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og kröfur heilbrigðisreglugerða.

Hjúkrunarheimilið skal skapa þannig umhverfi og andrúmsloft á heimilinu að vistfólki finnist aðstæður vera heimilislegar og notalegar. Stjórnendur heimilisins skulu sjá til þess að starfsfólk sýni virðingu og lipurð í samskiptum við vistmenn. Við val á starfsmönnum skal gera kröfu um hæfileika á sviði mannlegra samskipta.

Hjúkrunarheimilið framfylgir ákvæðum stjórnsýslulaga vegna þeirrar stjórnsýslu sem heimilinu er falið að annast og er hluti þeirrar þjónustu, sem það á að veita.

Um réttindi vistmanna að öðru leyti gilda almenn ákvæði laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, þ.m.t. ákvæði er lúta að sjálfsákvörðunarrétti sjúklinga.

Réttur til vistunar.
Rétt til vistunar eiga einstaklingar sem eru aldraðir (67 ára og eldri), eru með öldrunarsjúkdóma eða aðra sjúkdóma sem hafa í för með sér þörf fyrir vistun á hjúkrunarheimili, enda uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:
     a.      Eiga gilt vistunarmat, framkvæmt af þjónustuhópi aldraðra, matshópi aldraðra í Reykjavík eða öldrunarlækningadeildum sjúkrahúsa.
     b.      Hafa sótt um og/eða samþykkt dvöl á hjúkrunarheimili.
     c.      Fullnægja búsetuviðmiðum.

Losni vistrými á heimilinu ganga þeir fyrir sem eru í mjög brýnni þörf samkvæmt vistunarmati.

Gæði og markmið.
1 Almennt.
1.1.         Rekstraraðili skal almennt setja sér það markmið í rekstri sínum að veita eins góða þjónustu og umönnun og kostur er. Meginmarkmið þjónustunnar er að styðja vistmenn til sjálfshjálpar og gera þeim kleift að lifa lífi sem þeim er eiginlegt og að öðlast lífsfyllingu þrátt fyrir sjúkdóma og fötlun. Rekstraraðili skal setja sér gæða- og þjónustumarkmið m.a. með tilliti til lágmarkskrafna og koma sér upp eigin innra eftirliti (gæðakerfi) í þeim tilgangi að unnt sé að sannreyna gæði þjónustunnar.

2 Gæðakerfi.
2.1         Reglubundin skráning.
2.1.1    Allar ákvarðanir sem varða meðferð og þjónustu við vistmenn skulu vera rekjanlegar. Halda skal skrá um ástand og hjúkrunarsögu hvers vistmanns allt frá innlögn.

2.1.2    Í samræmi við reglugerð nr. 546/1995, um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum, skal gera RAI-mat á heilsufari og hjúkrunarþörf hvers vistmanns við innlögn og hvenær sem merkjanleg breyting verður á líkamlegu, andlegu eða félagslegu ástandi hans. Enn fremur skal rekstraraðili framkvæma árlega RAI-mat á öllum vistmönnum, samkvæmt nánari reglum RAI-matsnefndar. Rekstraraðili skal gæta þess við mat sitt að fylgja reglum RAI-matsnefndar á hverjum tíma til hlítar svo samræmi sé tryggt í mælingum á milli tímabila og á milli einstakra hjúkrunarheimila.

2.2 Samfelldar gæðaumbætur. Samanburður á gæðavísum.
2.2.1    Rekstraraðili tekur árlega saman gæðavísa (quality indicators) út frá RAI-matinu. Rekstraraðili skuldbindur sig til að fylgja reglum RAI-matsnefndar, sbr. reglugerð nr. 546/1995, við mælingar á gæðavísum sínum.

2.2.2    Rekstraraðili skal setja sér markmið í samvinnu við RAI-matsnefnd um viðmiðunarmörk gæðavísa. Rekstraraðili mun birta starfsmönnum sínum og þeim sem njóta þjónustunnar framangreind markmið.

2.2.3    Rekstraraðili skal með skipulögðu og samfelldu gæðastarfi leitast við að bæta gæðin m.t.t. gæðavísanna. Fari niðurstöður RAI-mats út fyrir viðmiðunarmörk gæðavísa eins og þau eru tilgreind af RAI-matsnefnd skal rekstraraðili hrinda í framkvæmd gæðaumbótaverkefnum sem hafi það að markmiði að niðurstöður matsins haldist innan viðmiðunarmarka.

2.2.4    Reynist niðurstöður RAI-mats rekstraraðila viðvarandi undir viðmiðunarmörkum, samkvæmt nánari skilgreiningu RAI-matsnefndar, getur það leitt til lækkunar á daggjaldi og til endurskoðunar á starfsheimild rekstraraðila.

2.2.5    Rekstraraðili skal að öðru leyti setja sér það markmið í rekstri sínum að veita eins góða þjónustu og umönnun og kostur er miðað við þá fjármuni, sem rekstraraðili hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma.

2.3 Einstaklingsbundin umönnun.
2.3.1    Rekstraraðili skal gera einstaklingsbundna umönnunaráætlun fyrir hvern vistmann og nota m.a. til þess hjúkrunarskráningu og gagnasafn um heilsufar og hjúkrunarþörf á öldrunarstofnunum (MDS) og tryggja að henni sé framfylgt.

3 Lækna- og lyfjamál.
3.1         Rekstraraðili skal skipuleggja læknisþjónustu á stofnuninni, setja markmið um þjónustustig og framfylgja þeim.

3.2         Halda skal sjúkraskrá fyrir alla vistmenn og rita læknabréf fyrir þá sem útskrifast. Við komu á heimilið skal læknir gera sjúkraskrá um vistmann. Afla skal gagna um sjúkrahúslegur og skrá heilsufarsyfirlit. Sjúkraskráin inniheldur, auk hefðbundinnar sjúkraskrár, heilsufarsyfirlit, rannsóknarniðurstöður, læknabréf og önnur gögn sem tilheyra vistmanni.

3.3         Læknir skal annast læknisfræðilegan þátt RAI-mats við komu vistmanns og hvenær sem merkjanleg breyting verður á líkamlegu, andlegu eða félagslegu ástandi hans, sbr. 2.1.2.

3.4         Læknir skal í umboði rekstraraðila semja lyfjalista og leiðbeiningar um þau lyf sem skynsamlegt er að nota hverju sinni.

4 Ábendingar og kvartanir.
4.1         Skráning og meðferð ábendinga og kvartana er hluti af innra eftirlitskerfi rekstraraðila. Rekstraraðili skal safna og skrá kvartanir frá vistmönnum og aðstandendum þeirra vegna þjónustunnar. Skulu allar kvartanir fá formlega afgreiðslu.

Eftirlit og endurskoðun á framkvæmd og fjármálum hjúkrunarheimila.

Faglegt eftirlit.
Landlæknir, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafa með höndum faglegt eftirlit með störfum rekstraraðila og gæðum þjónustu hans, samkvæmt þeim reglum sem gilda á hverjum tíma.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur eftirlit með rekstri og áskilur sér rétt til að skoða aðstæður og þjónustu sem veitt er og kalla eftir upplýsingum sem ráðuneytið telur þörf á hverju sinni.

Endurskoðun á framkvæmd og fjármálum.
Ríkisendurskoðun er heimilt að gera fjárhagsendurskoðun á allri starfsemi hjúkrunarheimila sem fjallað er um í skilmálablaði þessu. Í því sambandi er rekstraraðila skylt að afhenda Ríkisendurskoðun alla reikninga sína, öll bókhaldsgögn og önnur gögn sem nauðsynleg eru við endurskoðunina, sbr. lög nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Ríkisendurskoðun getur einnig framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá rekstraraðila sbr. lög nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Upplýsingaskylda.
Rekstraraðili skal ótilkvaddur senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun fyrir lok mars endurskoðaðan ársreikning ársins á undan, ásamt rekstrarskýrslu þar sem gerð er grein fyrir starfseminni og framkvæmd samningsins.

Rekstraraðili skuldbindur sig til að upplýsa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tafarlaust megi honum vera það ljóst að hann geti ekki staðið við fjárhagslegar eða faglegar kröfur skilmálablaðs þessa.

Rekstraraðili skuldbindur sig til að upplýsa Tryggingastofnun ríkisins um nýja einstaklinga, breytingar á aðsetri þeirra, brottför og andlát vegna daggjalda, bótagreiðslna til vistmanna frá Tryggingastofnun ríkisins og þátttöku vistmanna í vistunarkostnaði.

Fjárreiður og fjárhagslegar ráðstafanir.
Um reikningshald og endurskoðun ársreiknings gilda ákvæði laga um ársreikninga, nr. 144/1994, og laga um bókhald, nr. 145/1994.

Þagnarskylda.
Rekstraraðili og starfsmenn hans eru bundnir þagnarskyldu um persónulega hagi vistmanna. Þagnarskyldan gildir þrátt fyrir að starfsmaður láti af störfum.

Févarsla og umsýsla.
Vistmaður á hjúkrunarheimili annast sjálfur févörslu og umsýslu fjármuna sinna.

Rekstraraðili skal þó bjóða upp á að haldið verði utan um vasapeninga vistmanna frá Tryggingastofnun ríkisins með öruggum hætti.

Eftirfarandi eru möguleikar til févörslu og umsýslu fjármuna vistmanna:

A. Fjárhaldsmaður. Fjárhaldsmaður vistmanns annast fjárreiður samkvæmt umboði vistmanns.

B. Umboð. Rekstraraðili annast fjárreiður vistmanns, sé þess óskað og samkvæmt umboði vistmanns gagnvart Tryggingastofnun ríkisins. Stuðst skal við skriflegt umboð frá vistmanni eða fjárhaldsmanni hans. Rekstraraðili getur leitað eftir þjónustu bankanna til að annast févörslu vistmanns.

C. Vistmannabókhald. Rekstraraðili ber ábyrgð á því að sérstakt bókhald sé haldið þar sem skráðar eru fjárreiður fyrir hvern vistmann um sig, svo sem vasapeningatekjur frá Tryggingastofnun ríkisins og úttektir, greiðslur frá lífeyrissjóðum og aðrar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.

D. Gjaldkeri. Rekstraraðili felur ábyrgum starfsmanni þá ábyrgð að gæta hagsmuna vistmanna hvað varðar notkun á vasapeningum þeirra og öðrum eignum sem þeir hafa hjá sér á heimilinu auk þess að annast fjárreiður.

E. Ráðstöfun vasapeninga. Rekstraraðila er einungis heimilt að ráðstafa vasapeningum vistmanns þannig að þeir nýtist viðkomandi vistmanni til persónulegra þarfa, efli sjálfstæði og auki ánægju hans. Ekki er ætlast til að vistmenn greiði af vasapeningum sínum venjulega innanstokksmuni, svo sem húsgögn til sameiginlegra nota, rúm, rúmfatnað og gardínur, nema um séróskir sé að ræða. Hins vegar er heimil viðeigandi ráðstöfun á vasapeningum til t.d. ferðalaga eða annarra skemmtana, til kaupa á sælgæti, tóbaki, persónulegum munum, tískufatnaði og jafnvel húsbúnaði í eigið herbergi, allt eftir ástandi og þörfum hvers og eins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga umbreytingu á lögum um málefni aldraðra,
nr. 125/1999, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að heimild til að verja fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstur stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum verði felld brott. Enn fremur er lagt til að heimilt verði að greiða úr sjóðnum húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimilum sem hafin verður bygging á eftir 1. janúar 2005. Húsaleiga sem greidd er með þessum hætti skal greidd að undangengnu útboði og telst ígildi stofnkostnaðar.
    Í frumvarpinu er tekið fram að þegar um er að ræða hjúkrunarheimili sem ríki og sveitarfélög byggja sameiginlega fari greiðsla stofnkostnaðar skv. 34. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, en þar segir að framlag ríkissjóðs til tilgreindra sjúkrahúsbygginga skuli vera 85% af kostnaði við byggingu og búnað en framlag hlutaðeigandi sveitarfélaga 15%. Í athugasemd við 2. gr. frumvarpsins segir að í þeim tilvikum verði framlag úr Framkvæmdasjóði allt að 40% og beint framlag úr ríkissjóði þarf því a.m.k. að vera 45%. Þessi hlutföll koma ekki fram í meginmáli frumvarpsins en eru í samræmi við drög að reglugerð sem fylgir frumvarpinu. Í öðrum tilvikum nema styrkir Framkvæmdasjóðs aldraðra 40% af byggingarkostnaði hjúkrunarheimila á móti 60% eigin fjármögnun framkvæmdaaðila. Búast má því við að fjármögnun hjúkrunarheimila komi í ríkari mæli í hlut ríkis og sveitarfélaga og fari þá eftir lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, þar sem kostnaðarþátttaka ríkisins er 85% af stofnkostnaði. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra, sem annast stjórn sjóðsins, er hins vegar heimilt að gera tillögu til ráðherra um lægra styrkhlutfall til hjúkrunarheimila en 40% og þyrfti þá framlag úr ríkissjóði að hækka til að mæta 85% hlut, þegar byggt er í samvinnu við sveitarfélög.
    Frumvarpið er kostnaðarmetið að teknu tilliti til reglugerðar sem fylgir frumvarpinu og er þar lagt til að hlutföll styrkja úr Framkvæmdasjóði aldraðra haldist óbreytt frá því sem nú er í gildi. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 er 231,5 m.kr. styrkur til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir að rekstrarstyrkurinn falli brott í áföngum á tímabilinu 2004–2008 og renni til uppbyggingar stofnanaþjónustu aldraðra.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum þarf því árlega rúmlega 230 m.kr. úr ríkissjóði til reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða, sem kemur til framkvæmda í áföngum á árunum 2004–2008. Ekki er kostnaðarmetin hugsanleg breyting á reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra til lækkunar á 40% framlagi sjóðsins til hjúkrunarheimila. Komi til slíkra breytinga hækka útgjöld ríkissjóðs að sama skapi til að mæta 85% kostnaðarþátttöku á móti sveitarfélögum.