Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 526. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 971  —  526. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Ásgeirs Friðgeirssonar um fjárveitingar til rannsóknarstofnana.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mikið fé var veitt úr opinberum sjóðum á vegum samgönguráðuneytis til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs eftirtalinna stofnana árin 2001, 2002 og 2003 og úr hvaða sjóðum rann féð, hver ákvað fjárveitingarnar og á hvaða forsendum:
    Ferðamálasjóðs,
    Siglingastofnunar Íslands,
    Vegagerðarinnar,
    rannsóknarnefndar flugslysa,
    rannsóknarnefndar sjóslysa?


Ferðamálasjóður.
    Sjóðurinn var lagður niður í árslok 2002. Samkvæmt upplýsingum um starfsemi hans árin 2001 og 2002 veitti hann enga styrki til vísinda, rannsókna eða þróunarstarfs.

Siglingastofnun Íslands.
    Í fjárlögum áranna 2001–2003 voru eftirtaldar fjárveitingar til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs í hafnamálum og öryggismálum sjófarenda:
          Árið 2001 var fjárveitingin 32,4 millj. kr.
          Árið 2002 var fjárveitingin 42,9 millj. kr.
          Árið 2003 var fjárveitingin 38,6 millj. kr.
    Fjárveitingarnar eru ákvarðaðar af Alþingi með þingsályktun um hafnaáætlun og nú með þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003 til 2006.
    Verkefnum er skipað í eftirfarandi efnisflokka:
          Hafnar- og strandrannsóknir.
          Öldufarsrannsóknir.
          Umhverfisrannsóknir.
          Áhættumat minni fiskiskipa í hættulegum öldum.
          Sjávarföll og sjávarflóð.
          Gagnagrunnur fyrir upplýsingakerfi Siglingastofnunar.
          Rannsóknir sem tengjast öryggi sjófarenda.

Vegagerðin.
    Samkvæmt vegalögum skal ár hvert verja 1% af mörkuðum tekjum sem renna til vegagerðar til rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð undir stjórn Vegagerðarinnar.
    Á árunum 2001 til 2003 var þessi fjárveiting á vegáætlun eftirfarandi:
          Árið 2001 var fjárveitingin 101 millj. kr.
          Árið 2002 var fjárveitingin 98 millj. kr.
          Árið 2003 var fjárveitingin 105 millj. kr.
    Haldið er utan um málaflokkinn hjá rannsókna- og þróunardeild á þróunarsviði Vegagerðarinnar. Vegamálastjóri skipar ráðgjafarnefnd sem er til ráðuneytis um fjárveitingar til rannsóknarverkefna og um tilhögun rannsókna. Það er hlutverk rannsóknarnefndar Vegagerðarinnar að meta umsóknir og velja úr þau verkefni sem fé er veitt til á hverju ári.
    Fjárveitingar til rannsókna fara til fjölmargra mismunandi verkefna sem ýmist eru unnin innan stofnunarinnar sjálfrar, hjá háskólum, ráðgjafastofum, af einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum opinberum stofnunum.
    Verkefnum er skipt í eftirfarandi efnisflokka:
          Vegyfirborð, tæki og búnaður.
          Brýr og steinsteypa.
          Vatnafar, snjór, jöklar, jökulhlaup.
          Umferðaröryggi.
          Samgöngu- og umferðarrannsóknir, arðsemi og fjármál.
          Umhverfismál.
          Jarðtækni.
          Steinefni, burðarlög og slitlög.
          Upplýsingatækni og hugbúnaðargerð.
          Þátttaka í alþjóðlegum verkefnum.

Rannsóknarnefnd flugslysa.
    Starf nefndarinnar er í eðli sínu rannsóknar- og þróunarstarf. Því þykir mega fella allt fé sem Alþingi veitti til starfsemi hennar undir efni fyrirspurnarinnar.
    Í fjárlögum og fjáraukalögum áranna 2001–2003 voru eftirtaldar fjárveitingar til starfsemi Rannsóknarnefndar flugslysa:
          Árið 2001 var fjárveitingin 27 millj. kr.
          Árið 2002 var fjárveitingin 25,1 millj. kr.
          Árið 2003 var fjárveitingin 30,5 millj. kr.

Rannsóknarnefnd sjóslysa.
    Starf nefndarinnar er í eðli sínu rannsóknar- og þróunarstarf. Því þykir mega fella allt fé sem Alþingi veitti til starfsemi hennar undir efni fyrirspurnarinnar.
    Í fjárlögum áranna 2001–2003 voru eftirtaldar fjárveitingar til starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa:
          Árið 2001 var fjárveitingin 18,1 millj. kr.
          Árið 2002 var fjárveitingin 23,8 millj. kr.
          Árið 2003 var fjárveitingin 30,3 millj. kr.