Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 607. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1024  —  607. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um notkun farsíma án handfrjáls búnaðar.

     1.      Hve margar kærur hafa verið gefnar út frá 1. nóvember 2002 vegna ólögmætrar notkunar farsíma undir stýri og hversu oft hefur viðurlögum verið beitt?
    Á tímabilinu 1. nóvember 2002 til 25. febrúar 2004 eru skráð brot í málaskrá lögreglu samtals 915. Langflest brotin leiða til viðurlaga, eða tæplega 97% árið 2002, 96% árið 2003 og rúmlega 79% það sem af er þessu ári, en önnur brot eru enn til afgreiðslu, rannsókn hefur verið hætt eða sekt felld niður.

     2.      Hvernig skiptast þessi mál eftir lögregluumdæmum?
    
Í töflunni má sjá skiptingu á fjölda brota eftir lögregluumdæmum:

2002 2003 2004 Alls
Akranes 1 13 1 15
Akureyri 1 19 9 29
Blönduós 0 1 0 1
Bolungarvík 0 2 0 2
Eskifjörður 0 20 0 20
Hafnarfjörður 14 53 3 70
Hólmavík 0 6 0 6
Húsavík 0 1 0 1
Hvolsvöllur 0 3 0 3
Ísafjörður 1 24 1 26
Keflavík 1 74 8 83
Keflavíkurflugvöllur 0 25 1 26
Kópavogur 12 189 6 207
Ólafsfjörður 1 4 2 7
Patreksfjörður 1 2 0 3
Reykjavík 49 264 47 360
Selfoss 2 28 2 32
Seyðisfjörður 0 4 0 4
Vestmannaeyjar 5 13 2 20
Alls 88 745 82 915

    Upplýsingar þessar eru fengnar úr málaskrá lögreglu og miðast við stöðuna 25. febrúar 2004. Fram kemur að í umdæmum nokkurra lögreglustjóra, þ.e. lögreglustjóranna í Búðardal, Borgarnesi, Stykkishólmi, á Sauðárkróki, Siglufirði, Höfn og í Vík, er ekki um að ræða skráð brot.

     3.      Hvernig er eftirliti með notkun farsíma undir stýri háttað, sérstaklega á fjölförnustu vegum landsins?
    Eftirlit lögreglu með notkun farsíma án handfrjáls búnaðar er almennt virkt eins og fjöldi kærðra brota gefur til kynna, þó svo að ekki hafi enn verið gert samræmt átaksverkefni varðandi þessi brot sérstaklega. Eftirlit með þessum brotum er hluti af umferðareftirliti lögreglu. Samstarfshópur ríkislögreglustjórans og Sambands íslenskra tryggingafélaga (SÍT), Vátryggingafélags Íslands hf., Sjóvár – Almennra trygginga hf. og Tryggingamiðstöðvarinnar hf., hefur frá því í september á síðasta ári unnið að undirbúningi á markvissum aðgerðum gegn þessum brotum. Teknar hafa verið saman áhugaverðar upplýsingar sem fyrirhugað er að birta opinberlega í tengslum við þær aðgerðir. Samstarfshópurinn er nú að láta útbúa útvarpsauglýsingar til að hvetja ökumenn til að nota handfrjálsan búnað. Auglýsingunum verður fylgt eftir með auknu eftirliti umferðardeildar ríkislögreglustjórans og verða lögreglustjórarnir einnig hvattir til aukinna aðgerða. Þá eru einnig hugmyndir um að fá símafyrirtækin til að taka þátt í þessu verkefni með sértilboðum á handfrjálsum búnaði. Standa vonir til þess að unnt verði að hefja aðgerðir innan tíðar.