Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 507. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1027  —  507. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um fylgiréttargjald á listaverk.

1.    Hvernig er háttað innheimtu fylgiréttargjalds sem lagt er á við endursölu myndlistarverka skv. 25. gr. b höfundalaga, nr. 73/1972, og annarra listmuna skv. 6. mgr. 23. gr. laga um verslunaratvinnu, nr. 28/1998?
    Um innheimtu fylgiréttargjalds er fjallað í 25. gr. b höfundalaga, nr. 73/1972, og 6. mgr. 23. gr. laga um verslunaratvinnu, nr. 28/1998. Þar kemur fram að höfundaréttarsjóður myndlistarmanna eða annar sjóður er síðar komi í hans stað annist innheimtu gjaldsins, sem er 10% af söluverði listaverks, og skil á því til höfunda, að frádregnu hæfilegu endurgjaldi vegna innheimtunnar. Nánari reglur um þessa innheimtu hafa verið settar í reglugerð um fylgiréttargjald, nr. 486/2001. Þar kemur fram að Myndhöfundasjóður Íslands – Myndstef annist framangreinda innheimtu.
    Þau listaverk sem undir gjaldskyldu falla eru:
     a.      Öll málverk.
     b.      Höggmyndir, ef um er að ræða frummynd eða merkta afsteypu.
     c.      Merktar og ómerktar teikningar listamanna og hvers konar grafísk listaverk.
     d.      Myndvefnaður, textílverk, gler- og mósaíkmyndir svo og önnur verk sem teljast til listiðnaðar.
    Fylgiréttargjald ber að greiða af sölu allra listaverka sem endurseld eru í atvinnuskyni. Þeir sem annast endursölu listaverka í atvinnuskyni eru ábyrgir fyrir greiðslu fylgiréttargjaldsins til Myndstefs samkvæmt skilagreinum yfir seld verk sem skila ber ársfjórðungslega með staðfestingu löggilts endurskoðanda. Greiðslufrestur eftir sölu eða afhendingu skilagreinar er 30 dagar.
    Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. b höfundalaga og 7. mgr. 23. gr. laga um verslunaratvinnu er skylt að afhenda skilagreinar til Myndstefs óháð því hvort seld voru listaverk á liðnum ársfjórðungi.

2.    Hvaða aðilar hafa fengið leyfi til að stunda listaverka- og listmunauppboð?
    Fyrirspurnin varðar löggjöf sem heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra en til fróðleiks er hér gerð grein fyrir gildandi reglum um viðskipti með listaverk.
    Samkvæmt eldri lögum um verslunaratvinnu, nr. 41/1968, þurfti sérstakt leyfi, svonefnt verslunarleyfi, útgefið af lögreglustjóra til að reka verslun samkvæmt ákvæðum laganna. Til sölu notaðra lausafjármuna, þ.m.t. til sölu endursölu listaverka, þurfti jafnframt leyfi útgefið af lögreglustjóra samkvæmt lögum um sölu notaðra lausafjármuna, nr. 61/1979. Til að halda svonefnd listmunauppboð þurfti, auk framangreinds verslunarleyfis, sérstakt leyfi útgefið af viðskiptaráðherra samkvæmt lögum um listmunauppboð, nr. 36/1987.
    Framangreind ákvæði laga um verslunarleyfi, leyfi til sölu notaðra lausafjármun og leyfi til að halda listmunauppboð voru leyst af hólmi með nýjum lögum um verslunaratvinnu, nr. 28/1998. Samkvæmt þeim lögum þarf ekki lengur leyfi útgefin af lögreglustjóra eða viðskiptaráðherra til að stunda endursölu á listaverkum í atvinnuskyni eða til að halda listmunauppboð. Þess í stað er nægilegt samkvæmt lögunum að viðkomandi starfsemi sé skráð í samræmi við löggjöf um skráningu firma, hlutafélaga og einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana, eftir því sem við á, sbr. 2. gr. laga um verslunaratvinnu. Frá 1. janúar 1999 hafa því samkvæmt framansögðu ekki verið gefin út leyfi til listaverksölu eða listmunauppboða. Af þessum sökum liggja nú ekki fyrir upplýsingar um leyfishafa listaverka- og listmunauppboða.

3.    Hvaða leyfi þarf til að annast endursölu á listaverkum í atvinnuskyni og hvaða aðilar hafa slík leyfi?

    Samkvæmt framansögðu þarf engin leyfi til að stunda endursölu á listaverkum í atvinnuskyni. Því liggja engar upplýsingar fyrir í opinberum skrám um þá aðila sem slíkan rekstur stunda.

4.    Hvernig er háttað eftirliti með því að fylgiréttargjald skili sér til höfunda eða annarra rétthafa?

    Litið er svo á að eftirlit með því að fylgiréttargjald skili sér til höfunda og annarra rétthafa sé sameiginlega í höndum Myndstefs og viðkomandi rétthafa. Með útgáfu framangreindrar reglugerðar um fylgiréttargjald hefur ráðherra falið Myndhöfundasjóði Íslands – Myndstefi umsjón og eftirlit með framkvæmd við innheimtu fylgiréttargjalds. Um Myndhöfundasjóð Íslands – Myndstef gilda samþykktir dags. 10. júlí 1995 sem ráðherra hefur staðfest og birst hafa í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 72/1995. Krafa rétthafa um greiðslu fylgiréttargjalds á hendur Myndstefi fyrnist á þremur árum frá lokum þess árs er endursala listaverks fór fram.
    Um rannsókn brota gegn viðkomandi ákvæðum höfundalaga og laga um verslunaratvinnu fer eftir lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Ef aðili sem fæst við endursölu listaverka í atvinnuskyni skilar ekki innheimtu fylgiréttargjaldi til Myndstefs í samræmi við framangreindar reglur, kann sú háttsemi að varða fangelsi allt að sex árum, sbr. 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Jafnframt geta slík brot varðað allt að tveggja eða eins árs fangelsi samkvæmt framangreindum ákvæðum höfundalaga og laga um verslunaratvinnu.