Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 748. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1119  —  748. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 36 12. febrúar 1945, um framboð og kjör forseta Íslands, með síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    1. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 39 26. apríl 1963, orðast svo:
    Um kjörskrár til afnota við kjör forseta Íslands fer á sama hátt og við alþingiskosningar. Þær skulu þó miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag.
    Mörk kjördæma skulu vera hin sömu og í næstliðnum alþingiskosningum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt lögum um framboð og kjör forseta Íslands gilda að langstærstum hluta sömu reglur um forsetakosningar og um kosningar til Alþingis. Eftir að ný heildarlög um alþingiskosningar, nr. 24 16. maí 2000, voru samþykkt þarfnast þó tvö atriði lagfæringar í lögum um framboð og kjör forseta.
    Annars vegar gera lög um kosningar til Alþingis ráð fyrir að mörk syðra og nyrðra kjördæmis í Reykjavík verði ekki dregin fyrr en fimm vikum fyrir kjördag. Það er sami frestur og frambjóðendur hafa til að skila framboðum sínum með tilskildum fjölda meðmælenda. Þar sem þeim ber að fylgja vottorð yfirkjörstjórnar um kosningarbærni meðmælenda og hver yfirkjörstjórn hefur eingöngu staðbundið umboð innan síns kjördæmis ber nauðsyn til að mörk þessara kjördæma liggi fyrir nokkru fyrr. Hér er lagt til að stuðst verði við þá skiptingu sem landskjörstjórn hefur skv. 7. gr. laga um kosningar til Alþingis ákveðið fyrir næstliðnar kosningar, enda hafa þær löggjafarástæður, sem ákvörðun marka Reykjavíkurkjördæmanna svo skömmu fyrir kjördag helgast öðru fremur af, enga þýðingu fyrir forsetakosningar.
    Hins vegar er í lögum um alþingiskosningar gert ráð fyrir að kjörskrá skuli miðast við íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag. Af því leiðir að hefja þarf umfangsmikla og kostnaðarsama kjörskrárgerð áður en framboðsfrestur er liðinn, jafnvel þótt forsetakjör fari síðan fram skv. 12. gr. laga nr. 36 12. febrúar 1945, ef aðeins einn maður er í kjöri. Hér er því lagt til að viðmiðunardagur kjörskrár verði styttur í þrjár vikur fyrir kosningar, enda er í framkvæmd engin þörf á að hafa hann lengri.

    Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. er óbreyttur frá því sem nú gildir. Í seinni málslið sömu málsgreinar er lagt til að viðmiðunardagur kjörskrár verði þrjár vikur, en hann myndi að óbreyttu vera fimm vikur.
    Í 2. mgr. er lagt til að mörk kjördæmanna verði hin sömu og í næstliðnum alþingiskosningum, en af því leiðir að ákvörðun landskjörstjórnar um mörk Reykjavíkurkjördæmanna fyrir síðustu alþingiskosningar muni gilda um mörk Reykjavíkurkjördæma í næstu forsetakosningum hverju sinni. Litið er svo á að þetta eigi líka við um ákvörðun landskjörstjórnar um mörk skv. 2. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 36/1945,
um framboð og kjör forseta Íslands, sbr. lög nr. 39/1963.

    Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að kjörskrár til afnota við kjör forseta Íslands skuli miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag í stað fimm vikna og að mörk kjördæma skuli vera hin sömu og í næstliðnum alþingiskosningum.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum gæti það leitt til sparnaðar því ekki þyrfti að ráðast í gerð kjörskrár ef aðeins er einn maður í kjöri til forsetaembættisins.