Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 749. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1120  —  749. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, með síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    1. og 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Dvalarleyfi, sem veitt er í fyrsta sinn, skal að jafnaði gefið út til eins árs. Heimilt er að víkja frá þessu ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum. Um gildistíma dvalarleyfis sem gefið er út vegna komu flóttamannahópa gilda sérreglur, sbr. 51. gr.
    Umsókn um dvalarleyfi skv. 1. mgr. skal hafa verið samþykkt áður en útlendingur kemur til landsins. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki og samvistarmaki eldri en 24 ára, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir hann þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.

3. gr.

    Við 2. mgr. 18. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Heimilt er að synja til bráðabirgða útlendingi inngöngu í landið innan þess frests. Sú ákvörðun sætir ekki kæru.

4. gr.

    Í stað orðsins „þriggja“ í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: níu.

5. gr.

     Í stað orðanna „hann hefur brotið“ í a-lið 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: hann dvelur ólöglega í landinu, hefur brotið.

6. gr.

    Í stað orðanna „samkvæmt Dyflinnarsamningnum frá 15. júní 1990“ í 1. mgr. 26. gr. laganna kemur: á grundvelli samnings milli Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki Evrópusambandsins.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir ef rökstuddur grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda eða ekki með vilja beggja, sbr. 3. mgr. 13. gr.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Við ákvörðun um veitingu dvalarleyfis hefur Útlendingastofnun heimild til að krefjast þess að umsækjandi um dvalarleyfi skv. 1. mgr. 13. gr. eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni, og töku lífsýnis í því skyni, til að staðfesta að um skyldleika sé að ræða skv. 2. mgr. 13. gr.

8. gr.

    Á eftir orðunum „greinir í 2. málsl.“ í 2. málsl. 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: þegar kærð er synjun sem byggð er á d- og e-lið 1. mgr. 46. gr. á meðferð umsóknar um hæli.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: eða búsetuleyfi hér á landi.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Dvalarleyfi og búsetuleyfi.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                   Um skilyrði fyrir útgáfu búsetuleyfis EES-útlendings gilda ákvæði 15. gr.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skilyrði dvalarleyfis og búsetuleyfis.

11. gr.

    Orðin „að jafnaði“ í 2. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    E-liður 1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo: krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samnings Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram á Íslandi, Noregi eða í aðildarríki Evrópusambandsins um að taka við.

13. gr.

    Við 1. mgr. 47. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir um barn flóttamanns sem er fætt eftir komu hans til landsins.

14. gr.

    Við 1. málsl. 3. mgr. 51. gr. laganna bætist: til þriggja ára sem ekki er háð takmörkunum.

15. gr.

     Við 1. mgr. 56. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir um fjármuni til greiðslu á kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu samkvæmt ákvæði þessu.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      E-liður 2. mgr. orðast svo: af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar útlending við að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki eða.
     b.      F-liður 2. mgr. orðast svo: af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aðstoðar útlending við að koma ólöglega hingað til lands eða annars ríkis eða.
     c.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir stafliðir er orðast svo:
        g.    af ásetningi eða stórfelldu gáleysi aflar eða reynir að afla dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar skv. 3. mgr. 13. gr. eða
        h.    hefur í vörslum sínum falsað vegabréf, falsað skilríki eða falsaða vegabréfsáritun.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum að standa að skipulagðri starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis, hvort sem starfsemin er rekin í hagnaðarskyni eða ekki.

17. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna tekur ekki gildi fyrir ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands fyrr en 1. maí 2006. Til sama tíma gilda ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES-útlendings til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er í atvinnuleit og ákvæði 4. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES-útlendings til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins ekki um launþega frá þessum ríkjum.

18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Miðar það í fyrsta lagi að því að leggja til breytingar á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, í því skyni að nýta aðlögunarheimildir samnings um stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins sem tekur gildi 1. maí 2004. Hin nýju ríki sem bætast við hópinn eru: Eistland, Lettland, Litháen, Kýpur, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Þegar stækkunin tekur gildi munu ríkisborgarar þessara ríkja að óbreyttum lögum njóta sömu ívilnunar á Íslandi og ríkisborgarar annarra EES-ríkja og EFTA-ríkja. Samkvæmt fyrrnefndum stækkunarsamningi er þó heimilt að beita sérstökum aðlögunarákvæðum að því er varðar frjálsa för launafólks frá framantöldum ríkjum, öðrum en eyríkjunum Möltu og Kýpur, og fresta þannig fullum aðgangi launafólks frá þessum ríkjum að íslenskum vinnumarkaði. Aðlögunarákvæðin fela m.a. í sér að ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 47 18. maí 1993, gilda ekki um launafólk frá hinum nýju aðildarríkjum EES frá gildistöku stækkunarsamningsins fram til 1. maí 2006. Þannig gera stækkunarsamningarnir ráð fyrir að landslög hvers ríkis, sem í gildi eru 1. maí 2004, gildi um þá ríkisborgara nýju aðildarríkjanna sem eru launþegar. Ríki getur ekki kveðið á um strangari takmarkanir en í gildi voru við gildistökudag samningsins en því er heimilt að setja reglur sem eru meira ívilnandi fyrir ríkisborgara nýju aðildarríkjanna.
    Ríkisstjórnin hefur, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ákveðið að leggja til að fyrrnefndum aðlögunarákvæðum verði beitt. Kallar það á breytingar á lögum um útlendinga, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97 10. maí 2002, og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47 18. maí 1993, en um tillögur til breytinga á tveimur síðastnefndum lögum vísast til sérstakra frumvarpa um það efni.
    Í annan stað eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum um útlendinga vegna ábendinga sem borist hafa frá helstu aðilum sem koma að framkvæmd laganna. Samráðsfundir voru haldnir í byrjun ársins með þátttöku fulltrúa ráðuneytisins, embættis lögreglustjórans í Reykjavík, lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar og Þjóðskrár. Niðurstaðan var sú að breyta þyrfti nokkrum atriðum til þess að yfirvöld væru betur í stakk búin til að bregðast við þeim aðstæðum sem upp geta komið í þessum mikilvæga en vandmeðfarna málaflokki.
    Nýmæli er í 2. gr. frumvarpsins sem miðar að því að koma í veg fyrir að hjúskapur, sem er til þess eins ætlaður að útvega dvalarleyfi, geti þjónað tilgangi sínum. Einnig geti verið refsivert að afla dvalarleyfis á grundvelli slíks hjúskapar til málamynda, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Auk þess að stemma stigu við því að unnt sé að fara í kringum ákvæði laganna með slíkum gerningi miða ákvæðin einnig að því að vernda þá, sem hættara er við þrýstingi eða misneytingu af einhverju tagi, gegn því að falbjóða sig til hjúskapar. Í sama dúr er ákvæði 2. gr. frumvarpsins um hjónabönd sem ætla má að ekki séu til komin með samþykki beggja eða svokölluð nauðungarhjónabönd. Hér liggja þó enn ríkari verndarsjónarmið að baki og er þá aðallega byggt á reynslu nágrannaríkjanna þar sem algengt er meðal sumra hópa nýbúa að foreldrar ráðstafi börnum sínum í hjúskap. Meðal annars á grundvelli þessa, og með fyrirmynd í dönsku útlendingalögunum, er lagt til í 2. gr. að maki skuli vera eldri en 24 ára til að unnt verði að veita honum dvalarleyfi aðstandanda.
    Á öðrum forsendum er lagt til í frumvarpinu að ættmenni útlendings eða maka að feðgatali, á þeirra framfæri, verði að hafa náð 67 ára aldri til að geta sótt um dvalarleyfi fyrir aðstandanda. Er gengið út frá því að fólk geti almennt framfært sér fram að því tímamarki en brögð hafa verið að því að mun yngra fólk hafi fengið hér dvalarleyfi sem aðstandandi og þannig farið hjáleið inn á íslenskan vinnumarkað. Hér ber að vekja athygli á því að framangreind aldursskilyrði eiga aðeins við þegar sótt er um dvalarleyfi fyrir aðstandendur og getur viðkomandi ætíð sótt hér um dvalarleyfi á eigin forsendum.
    Önnur nýmæli í frumvarpinu snúa að rannsóknarúrræðum lögreglu, sbr. 6. gr. frumvarpsins, þannig að heimilt verði að krefjast rannsóknar á erfðaefni þegar vafi leikur á að umsækjendur um dvalarleyfi aðstandenda séu í raun ættmenni útlendings. Einnig verði skýrt kveðið á um að heimilt sé að synja útlendingi um inngöngu í landið til bráðabirgða á meðan kannað er hvort efni séu til frávísunar, sbr. 3. gr.
    Nokkrar lagfæringar eru enn fremur lagðar til í frumvarpi þessu. Heimilt verði að veita EES-borgurum búsetuleyfi í samræmi við almennar reglur laganna, sbr. 9. og 10. gr. frumvarpsins, en samkvæmt núgildandi lögum er einungis gert ráð fyrir að þeir geti fengið dvalarleyfi. Stangast það á við þá stefnu í lögunum að EES-útlendingar hafi rýmri rétt en aðrir útlendingar. Auk þess er lagt til í 13. gr. að börn flóttamanna, sem fæðst hafa eftir að foreldrar þeirra fengu stöðu flóttamanna hér á landi, fái sömu réttarstöðu.
    Þá er lagt til að refsiákvæðum laganna verði breytt, sbr. 16. gr. frumvarpsins, en ákvæðin hafa í nokkrum tilvikum reynst örðugur grundvöllur saksóknar. Eru bæði lagðar til orðalagsbreytingar á nokkrum þeirra ásamt töluverðum viðbótum við þá háttsemi sem refsiverð telst. Meðal annars verði að gefnu tilefni varsla falsaðra vegabréfa gerð refsiverð.
    Um aðrar breytingar vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 10. gr. laganna þannig að nægilegt sé að umsókn um dvalarleyfi hafi verið samþykkt áður en útlendingur kemur til landsins, í stað þess að dvalarleyfið hafi verið gefið út eins og núgildandi ákvæði mælir fyrir um. Með því verður ferli skráningar útlendinga sem hér dveljast skýrara, skráningin gæti gengið hraðar og umsækjendur sem fá umsókn sína samþykkta og uppfylla ákveðin skilyrði fá rétt til að skrá sig í Þjóðskrá.
    Útgáfa dvalarleyfis getur dregist á meðan aflað er gagna, jafnvel þangað til sá tími er liðinn sem umsækjandi ætlaði að vera hér á landi. Þetta getur verið bagalegt þegar útlendingur, sem hingað er ráðinn í vinnu, uppfyllir augljóslega öll skilyrði þess að fá hér dvalarleyfi. Gert er því ráð fyrir að við þessar aðstæður þurfi útlendingur ekki að bíða eftir útgáfu dvalarleyfis heldur fái samþykki umsóknar og geti því komið til landsins. Tekið skal fram að gengið er út frá því að ákvæði 17. gr. laganna, um tilkynningarskyldu útlendings sem fengið hefur dvalarleyfi, eigi þá við um útlending sem fengið hefur slíkt samþykki.
    Einnig hefur breyting þessi, ef samþykkt verður, þýðingu fyrir skráningu útlendings í Þjóðskrá. Nú er framkvæmdin sú, á grundvelli skuldbindinga samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, að norrænir ríkisborgarar fá skráningu í Þjóðskrá við framvísun á samnorrænu flutningsvottorði. Aðrir verða að framvísa dvalarleyfisskírteini og hafa því útlendingar almennt ekki verið skráðir í Þjóðskrá fyrr en við útgáfu skírteinisins. Með framangreindri breytingu er gert ráð fyrir að útlendingur geti fengið skráningu í Þjóðskrá þegar við komu til landsins ef samþykki umsóknar ber með sér að útlendingur ætli að vera hér lengur en í þrjá mánuði vegna atvinnu eða náms, sbr. skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga um lögheimili, nr. 21 5. maí 1990.
    Þá er rétt að geta þess að með hugtakinu dvalarleyfi er átt við fyrsta útgefna leyfi í samfelldri dvöl. Útlendingur verður því að sækja um dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu þótt hann hafi einhvern tímann áður dvalist hér á landi.
    Þá er gert ráð fyrir að um dvalarleyfi til flóttamannahópa gildi sérreglur og vísað til 51. gr. laganna. Lagðar eru til breytingar á henni í 10. gr. frumvarpsins þannig að þeir fái dvalarleyfi til þriggja ára án takmarkana, og er það því grundvöllur búsetuleyfis.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði 13. gr. laganna um dvalarleyfi fyrir aðstandendur verði breytt þannig að maki, sambúðarmaki og samvistarmaki þess sem hér dvelst löglega í landinu verði að hafa náð tilteknum aldri til að geta sótt um slíkt leyfi. Sama gildi um ættmenni að feðgatali. Eru sjónarmið að baki þessari tillögu rakin í almennum athugasemdum hér að framan.
    Einnig er lagt til að hjúskapur, sem hefur þann tilgang einan að útvega dvalarleyfi fyrir annað hjóna, geti ekki myndað rétt til dvalarleyfis fyrir aðstandanda. Sams konar regla hefur síðan 1998 verið í 9. gr. dönsku útlendingalaganna (sbr. bekendtgörelse af udlændingeloven nr. 685 af 24/07/2003). Skilyrði þess að neitað verði um dvalarleyfi aðstandanda fyrir maka er í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé á því að um gerning til málamynda sé að ræða. Þannig verður vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þessa átt geta til dæmis verið að aðilar hafa ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilja ekki tungu hvort annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Í því sambandi má huga að því hvort sá maki, sem hér dvelst löglega, hafi áður verið í hjúskap með útlendingi, sem lauk skömmu eftir að sá síðarnefndi öðlaðist hér dvalarleyfi. Sé samkvæmt framangreindu eða öðrum ástæðum rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess að fá dvalarleyfi verður umsækjandinn að sýna fram á annað.
    Lagt er til að sama gildi um nauðungarhjónabönd; þau geti ekki myndað rétt til dvalarleyfis aðstandanda. Einnig þetta ákvæði á fyrirmynd í áður tilvitnaðri grein dönsku útlendingalaganna. Um sjónarmið að baki þess vísast til almennra athugasemda hér að framan.

Um 3. gr.

    Í 18. gr. laganna eru taldar upp ástæður þess að frávísa megi útlendingi við komu til landsins eða á allt að næstu sjö sólarhringum frá komu. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan þessara sjö sólarhringa. Á þessum tíma telst útlendingur vera við landamæri og í raun ekki kominn inn í landið. Til að taka af öll tvímæli um lögmæti þessarar aðferðar er lagt til í 3. gr. að mælt verði fyrir um það á skýran hátt í lögum, að á þessum tíma sé heimilt að synja útlendingi inngöngu í landið til bráðabirgða. Er þá gert ráð fyrir að útlendingur sé vistaður á landamærastöð eða við hana, en ávallt hafi hann heimild til að snúa aftur til þess staðar þaðan sem hann kom.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að frestur til að hefja málsmeðferð vegna frávísunar eftir komu til landsins verði lengdur úr þremur í níu mánuði. Tillagan tengist því sem lagt er til í 5. gr. frumvarpsins að heimilt verði að brottvísa útlendingi í ólöglegri dvöl. Þannig verði samkvæmt tillögunni heimilt að beita frávísun, hefjist meðferð máls innan níu mánaða eftir komu til landsins. Ávallt verði þó heimilt að beita brottvísun, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Með því að lengja þann tíma sem heimilt er að beita frávísun eftir komu til landsins er yfirvöldum tryggt svigrúm til að beita vægara úrræði þegar það þykir sanngjarnt, en frávísun er vægara úrræði en brottvísun, sem m.a. hefur í för með sér endurkomubann til landsins.

Um 5. gr.

    Hér er lögð til breyting á 20. gr. laganna þannig að heimilt verði að brottvísa útlendingi sem dvelst ólöglega hér á landi. Í núgildandi ákvæði er ekki slíka heimild að finna, sem þýðir í raun að útlendingur, sem brýtur gegn ákvæðum laganna og aflar ekki tilskilinna leyfa til dvalar hér á landi, kemst upp með slíkt athæfi að liðnum fresti til frávísunar skv. 19. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Um er að ræða lagfæringu á tilvísun í 26. gr. laganna en Dyflinnarsamningur sá sem núgildandi ákvæði vísar til var leystur af hólmi með reglugerð ráðsins (EB) nr. 343/2003 frá 18. febrúar 2003, um að koma á viðmiðunum og fyrirkomulagi við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli sem ríkisborgari þriðja lands leggur fram í einu aðildarríkjanna, sem aftur var samþykkt með grundvelli í tilvitnuðum samningi Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, sbr. auglýsingu nr. 3 14. mars 2001 í C-deild Stjórnartíðinda.

Um 7. gr.

    Hér er í fyrsta lagi lagt til að leitarheimild lögreglu nái einnig til þess þegar rökstuddur grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað í því skyni að útlendingur fái hér dvalarleyfi, sbr. ákvæði 2. gr. frumvarpsins.
    Lagt til að Útlendingastofnun verði heimilt að krefjast rannsóknar á erfðaefni, þ.e. DNA- rannsóknar, til að ganga úr skugga um að þau ættmenni sem sækja um dvalarleyfi skv. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 13. gr. laganna séu í raun ættmenni þess sem hér er búsettur eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að ákvæði 13. gr. um dvalarleyfi fyrir aðstandendur verði misnotað.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að útlendingur eigi ekki rétt á að honum sé skipaður talsmaður við kæru á synjun, sem byggð er á d- og e-lið 1. mgr. 46. gr. laganna, um að umsókn um hæli verði tekin til meðferðar hér á landi. Synjun á grundvelli d-liðar felur í sér ákvörðun um að annað norrænt ríki taki við umsækjanda á grundvelli norræna vegabréfaeftirlitssamningsins, en útlendingurinn hefði í þeim tilvikum ekki átt að geta komist til Íslands frá öðru norrænu ríki. Algengari er nú í framkvæmd synjun á grundvelli e-liðar 46. gr., sem felur í sér að annað ríki sem aðild á að Dyflinnarsamningnum (nú reglugerð ráðsins (EB) nr. 343/2003 frá 18. febrúar 2003, sbr. 6. gr. frumvarpsins) tekur við umsækjanda og fjallar um umsókn hans um pólitískt hæli. Í niðurstöðu máls felst að krafa um hæli er ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi heldur tekur annað samningsríki málið til úrlausnar og þar með mat á því hvort umsækjandi skuli hafa stöðu flóttamanns eða ekki. Að baki því fyrirkomulagi, sem ákveðið er í Dyflinnarsamningnum, liggur, að ríkin eru sammála um að koma í veg fyrir óhagræðið sem felst í því að fjallað sé um mál umsækjanda í fleiri en einu þeirra ríkja, sem sammælst hafa um efnisreglur í þessum málum. Kæra á synjun á að taka mál til meðferðar á þessum grundvelli frestar ekki framkvæmd framsendingar umsóknar og forsendur niðurstöðu byggjast á samningsbundnum skilyrðum. Til ákvörðunar um framsendingu kemur ekki á þessum grundvelli nema ríkið sem tekur við málinu fallist á það og sé því sammála íslenskum stjórnvöldum um að skilyrði framsendingar séu fyrir hendi. Eftir að annað ríki hefur tekið við ábyrgð á umsækjanda og umsókn hans þykja engin rök til að íslensk stjórnvöld greiði fyrir talsmann umsækjanda í kærumáli um framsendinguna. Gert er ráð fyrir óbreyttum reglum laganna um skipun talsmanns í kærumálum vegna synjunar um hæli þegar réttarstaða umsækjanda er tekin til efnislegrar úrlausnar hér á landi.

Um 9. og 10. gr.

    Eins og rakið er í almennum athugasemdum er lagt til í frumvarpinu að EES-útlendingar geti, eins og aðrir útlendingar, sótt um búsetuleyfi. Nú verða þeir að sækja um dvalarleyfi sem að jafnaði er gefið út til fimm ára og endurnýjað til sama tíma samkvæmt umsókn, sbr. 40. gr. laganna. Eru þeir því í raun verr settir en aðrir útlendingar sem geta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sótt um búsetuleyfi. Er lagt til að það verði lagfært þannig að þessir tveir hópar hafi jafnan rétt að þessu leyti.

Um 11. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 43. gr. laganna í samræmi við athugasemdir sem borist hafa frá Eftirlitsstofnun EFTA en að mati stofnunarinnar þótti orðalag ákvæðisins ekki vera í fullu samræmi við ákvæði 2. tölul. 3. gr. tilskipunar 64/221/EBE, um samræmingu á sérstökum ráðstöfunum er varða flutninga og búsetu erlendra ríkisborgara og réttlættar eru með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis.

Um 12. gr.

    Hér er lögð sambærileg lagfæring á tilvísun og í 6. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Lagt er til að þau börn, sem fæddust eftir að foreldrar þeirra fengu stöðu flóttamanna, fái sömu réttarstöðu og foreldrar sínir, en ákvæði um það hefur vantað í gildandi lög.

Um 14. gr.

    Lögð er til breyting á 51. gr. laganna þannig að útlendingar, sem heimiluð er koma í flóttamannahópi, fái dvalarleyfi án takmarkana í þrjú ár. Slíkt dvalarleyfi myndar grunn búsetuleyfis, sbr. 15. gr. laganna, og mundu því þessir útlendingar eiga sömu möguleika og aðrir að sækja um búsetuleyfi ef breytingin gengur eftir. Fyrir gildistöku laganna fengu þessir flóttamenn ótímabundin dvalarleyfi við komu til landsins. Skv. 10. gr. laganna er ekki heimilt að gefa út dvalarleyfi til lengri tíma en tveggja ára í senn en lagt er til að undanþága verði gerð fyrir þennan hóp með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu sem þeir njóta sem í honum eru.

Um 15. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna skal útlendingur, sem færður er úr landi samkvæmt lögunum, greiða kostnað af brottför sinni og gæslu þegar hennar er þörf. Krafa þessi er aðfararhæf. Heimild til haldlagningar er síðan að finna í sama ákvæði en hún nær þó einungis til farseðla. Eðlilegt þykir að lögreglu verði einnig heimilt að leggja hald á fjármuni til greiðslu fyrrnefndrar kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu. Í þessu felst að ekki er heimilt að leggja hald á alla fjármuni sem finnast í fórum útlendings, fari fjárhæð þeirra fram úr fjárhæð kröfunnar.

Um 16. gr.

    Lagt er til að e-lið 2. mgr. 57. gr. laganna verði breytt þannig að brott falli skilyrðið um að brotið sé framið í hagnaðarskyni, en slíkt er erfitt að sýna fram á, og að það sé bundið við dvöl í Schengen-ríki. Því verði refsivert að aðstoða, með ásetningi eða stórfelldu gáleysi, útlending við að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki. Þá er lagt til að f-lið verði breytt á sama hátt.
    Þá er í greininni lagt til að tveir nýir stafliðir bætist við 2. mgr. 57. gr. laganna.
    Í g-lið er gert ráð fyrir að refsivert verði að afla eða reyna að afla dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar til málamynda samkvæmt efnisreglu 3. mgr. 13. gr. laganna, eins og hún hljóðar samkvæmt tillögu í 2. gr. frumvarpsins. Skilyrði er að um ásetning eða stórfellt gáleysi sé að ræða.
    Í h-lið er lagt til að refsivert verði að hafa í vörslum sínum falsað eða fölsuð vegabréf, fölsuð skilríki og falsaða eða falsaðar áritanir. Skv. XVII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, eru skilyrði refsiábyrgðar að nota falsað skjal eða ófalsað skjal með nánari skilyrðum, en ávallt með því að blekkja með því í lögskiptum. Hér er lagt til að handhöfnin ein geti verið refsiverð, enda eru dæmi um að fólk hafi við komu til landsins verið með nokkurt magn af fölsuðum ferðaskilríkjum á ýmsum nöfnum í fórum sínum án þess að unnt hafi verið að bregðast við því. Sú háttsemi að koma fölsuðum vegabréfum, fölsuðum skilríkjum eða fölsuðum áritunum milli landa getur m.a. tengst mansali eða að verið sé að koma fólki á annan hátt á fölskum forsendum milli landa, jafnvel fólki sem hefur hag af því að ferðast ekki undir eigin nafni, t.d. ef það er eftirlýst vegna meintrar refsiverðrar háttsemi eða reynir að koma sér undan refsingu.
    Enn fremur er lagt til að 3. mgr. 57. gr. laganna verði breytt þannig að engu skipti hvort skipulögð starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis sé rekin í hagnaðarskyni eða ekki, en í gildandi lögum er refsing við því bundin við að starfsemin sé rekin í hagnaðarskyni. Oft getur reynst örðugt að sanna að hagnaður hafi orðið af skipulagðri starfsemi af þessu tagi. Þá er ekki sjálfgefið að slík starfsemi sé rekin í hagnaðarskyni. Er tilgangur þessarar lagabreytingar að skapa fullnægjandi lagagrundvöll til saksóknar og mögulegrar refsingar, leiði rannsókn í ljós að um skipulagða starfsemi af þessu tagi sé að ræða.

Um 17. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem gildistöku tilvitnaðra ákvæða 35. og 36. gr. laganna, um EES-útlendinga, verði frestað um tvö ár gagnvart ríkisborgurum hinna nýju ríkja í Evrópusambandinu að frátöldum Möltu og Kýpur. Að öðrum kosti mundu þær ívilnanir, sem EES-útlendingar njóta, gilda um þessa ríkisborgara frá og með 1. maí 2004. Um efni ákvæðisins vísast að öðru leyti til almennra athugasemda hér að framan.

Um 18. gr.

    Brýnt er að lögin taki gildi á sama tímamarki og stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins vegna ástæðna þeirra sem greint er frá í almennum athugasemdum hér að framan.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/2002, um útlendinga.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um útlendinga. Í fyrsta lagi er um að ræða áhrif af stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins sem gengur í gildi 1. maí 2004. Þar er einkum um að ræða að beitt verði sérstökum aðlögunarákvæðum sem fela í sér að frjáls för launafólks frá nýju aðildarríkjunum tekur ekki gildi fyrr en 1. maí 2006. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögunum í samræmi við ábendingar frá helstu aðilum sem annast um framkvæmd þeirra. Í frumvarpinu eru einkum tvö atriði sem gætu haft einhver áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Annars vegar er í 8. gr. frumvarpsins lögð til tiltekin takmörkun á réttaraðstoð í sambandi við synjanir á umsóknum um hæli hér á landi þegar annað ríki á að fjalla um málið. Hins vegar eru í 16. gr. frumvarpsins gerðar breytingar á refsiákvæði laganna sem kunna að leiða til fleiri refsivistardóma. Líklegt er að kostnaðaráhrifin verði í báðum tilvikum lítils háttar og gerir dóms- og kirkjumálaráðuneytið ráð fyrir að lögin verði framkvæmd með óbreyttum útgjaldaramma fjárlaga.