Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 664. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1163  —  664. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvars og Valdimars L. Friðrikssonar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur samgönguráðuneytið hrundið í framkvæmd aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna, sbr. 10. tölul. III. kafla þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir hverju verkefni fyrir sig og hve miklu fé hefur verið varið til aðgerðanna.

10.1.
    Samgönguráðuneytið hefur unnið að uppbyggingu ferðaþjónustu út um allt land, en ekki hefur verið hugað sérstaklega að þessum málum.

10.2.
    Þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum í ráð og nefndir er vakin athygli á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og jafnframt er óskað eftir tilnefningu beggja kynja. Í nefndum sem skipaðar eru samkvæmt lögum hefur hlutfall kvenna aukist lítillega. Í því samhengi má nefna að á sl. ári var í fyrsta skipti skipuð kona til að gegna stöðu formanns Hafnaráðs. Í tímabundnum nefndum hefur hlutfall kvenna aukist meira. Áfram verður lögð áhersla á að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og ráðum.
    Þess má geta að ráðuneytisstjórinn er kona, en hún var skipuð 1. júní 2003, og af fimm skrifstofustjórum ráðuneytisins eru tveir skrifstofustjórar konur.

10.3.
    Á árinu 2003 var jafnréttisyfirlýsing ráðuneytisins undirrituð sem jafnframt er grunnur að jafnréttisáætlun ráðuneytisins sem unnið verður að á næstu missirum.
    Haustið 2000 var skipaður jafnréttisfulltrúi samgönguráðuneytisins og í framhaldi af því voru tilnefndir jafnréttisfulltrúar stofnana þess. Stofnanirnar vinna eftir starfsmannastefnu og nær hluti hennar yfir jafnréttismál þar sem fram kemur að markvisst sé unnið að því að jafna stöðu kynjanna.
    Sé óskað ítarlegri skýringa við hvert verkefni er vakin athygli á skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna sem lögð var fram á 127. löggjafarþingi, þskj. 1290, 732. mál. Þá er einnig vakin athygli á að á vordögum mun félagsmálaráðherra leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og með henni mun fylgja skýrsla um stöðu verkefna úr endurskoðaðri áætlun vegna áranna 2002–2004.